Fréttir
mynd
Við Vesturhópsvatn 17. febrúar 2018.

Tíðarfar í febrúar 2018

Stutt yfirlit

2.3.2018


Febrúar var illviðra- og úrkomusamur. Vindhraði var vel yfir meðallagi og úrkoma mikil, einkum um landið sunnan- og vestanvert. Hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en aðeins undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Suðvesturlandi. Töluverðar truflanir voru á samgöngum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,1 stig, 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 1,1 stig, 2,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 1,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,8 stig og 1,8 stig á Höfn í Hornafirði. 

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 1.1 0.7 41 til 42 148 -0.1
Stykkishólmur 0.8 1.5 29 173 0.2
Bolungarvík 1.3 2.3 15 121 1.2
Grímsey 1.9 2.8 5 145 1.3
Akureyri 1.1 2.6 21 til 22 138 1.5
Egilsstaðir 0.7 2.6 12 64 1.2
Dalatangi 2.5 1.9 11 80 0.5
Teigarhorn 1.4 1.2 37 146 -0.2
Höfn í Hornaf. 1.8


-0.1
Stórhöfði 2.1 0.1 56 142 -0.5
Hveravellir -4.3 1.7 15 54 0.5
Árnes -0.3 0.7 41 til 43 138 -0.3

Meðalhiti og vik (°C) í febrúar 2018

Að tiltölu var hlýjast á Norðausturlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Torfum, 1,8 stig. Að tiltölu var kaldast við suðurströndina, mesta neikvæða hitavikið miðað síðustu tíu ár var -1,0 stig á Steinum undir Eyjafjöllum.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,1 stig. Lægstur var hann á Brúarjökli -5,6 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var í Möðrudal, -2,8 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -20,5 stig á Setri þ. 9. Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,4 stig á Skjaldþingsstöðum þ. 4. og er það nýtt landsdægurhámark.

Úrkoma

Úrkoma var mikil í febrúar, einkum um sunnan- og vestanvert landið.

Úrkoman í Reykjavík mældist 159,1 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma áranna 1961 til 1990 og um 90% umfram meðallag síðustu tíu ára. Þetta er blautasti febrúarmánuður í Reykjavík síðan árið 1991. Úrkoman í febrúar 2003 var þó litlu minni. Á Akureyri mældist úrkoman 49,7 mm sem er um 15 % umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990 en um 85% af heildarúrkomu síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi mældust 153,7 mm, sem er tvöfalt meira en að meðallagi í febrúar og það mesta sem hefur mælst þar í febrúar síðan árið 1992. Úrkoma mældist 259,6 mm á Höfn í Hornafirði sem er það mesta sem mælst hefur á þeirri stöð í febrúar. Meira mældist þó í febrúar 2003 í Akurnesi, en á því tímabili voru engar mælingar á Höfn.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 20 í Reykjavík, 7 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 9, það er 1 degi meira en í meðalári.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 16, 4 fleiri en að meðallagi 1971 til 2000. Alhvítt var 21 dag á Akureyri, það er 2 dögum meira en í meðalfebrúar.

Samgöngur riðluðust nokkuð á vegum úti í hríðarveðrum í mánuðinum. Snjóinn leysti á láglendi í lok mánaðar og víðast hvar voru síðustu dagar febrúarmánaðar alauðir.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 39,1 sem er um 13 færri en í meðalfebrúar. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 38,1 sem er um 2 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var mikill, eða um 1,0 m/s yfir meðallagi. Hann var þó meiri í febrúar árin 2014 og 2015.

Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum og veður stormasamt. Í hvassviðrunum dagana 2. og 4. var áttin úr suðri. Áttin var úr suðvestri í veðrinu þann 11. og úr suðaustri í hvassviðrunum dagana 19., 21., 23., 24. og 26. Töluverðar truflanir urðu á samgöngum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 995,5 hPa sem er 7,1 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1041,4 hPa á Gjögurflugvelli þ. 28. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 949,6 hPa í Surtsey þ.14.

Fyrstu tveir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík var 0,4 stig sem er 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 45. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tveggja -0,1 stig. Það er 1,7 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 28. sæti á lista 138 ára. Úrkoma hefur verið um 80 % umfram meðallag í Reykjavík, en í rétt rúmu meðallagi á Akureyri.

Skjöl fyrir febrúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2018 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica
Á þessum vef eru vafrakökur notaðar við nafnlausar notkunarmælingar, en engin virkni tengist markaðssetningu. Sjá nánar