Fréttir

Tíðarfar í desember 2023

Stutt yfirlit

3.1.2024

Desember var kaldur um land allt, en tíð almennt góð. Mánuðurinn var hægviðrasamur og þurr. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á norðanverðu landinu en hlýrra við suðurströndina.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í desember var -1,2 stig. Það er 1,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -4,4 stig, 3,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 3,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins -1,8 stig og -0,3 stig á Höfn í Hornafirði. Meðalhiti í byggðum landsins var 2,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2013-2022 °C
Reykjavík -1,2 -1,9 116 153 -1,6
Stykkishólmur -1,8 -2,2 140 til 141 178 -1,9
Bolungarvík -1,8 -1,9 103 126 -1,8
Grímsey -0,8 -1,5 98 150 -1,4
Akureyri -4,4 -3,7 131 143 -3,3
Egilsstaðir -4,1 -3,0 62 69 -2,8
Dalatangi 0,6 -1,1 59 86 -1,3
Teigarhorn -0,5 -1,5 110 til 112 151 -1,6
Höfn í Hornaf. -0,3


-1,3
Stórhöfði 1,9 -0,4 69 147 -0,2
Hveravellir -8,5 -3,4 53 59 -3,0
Árnes -3,0 -2,1 115 til 116 144 -1,9

Meðalhiti og vik (°C) í desember 2023

Desember var kaldur. Þó svo að kuldinn hafi ekki verið í neinni líkingu við kuldatíðina sem ríkti í desember í fyrra, þá var þetta með kaldari desembermánuðum þessara aldar. Meðalhiti var langt undir meðaltali á landinu öllu. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á norðanverðu landinu en hlýjast við suðurströndina. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -4,5 stig á Sauðárkróksflugvelli, en minnst -0,2 stig í Surtsey.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,0 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -9,3 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur við Mývatn, -7,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,9 stig á Skjaldþingsstöðum þ. 3. Mest frost í mánuðinum mældist -26,2 stig við Veðivatnahraun þ. 22. Mest frost í byggð mældist -24,4 stig í Möðrudal þ. 29.

Úrkoma

Desember var tiltölulega þurr um land allt. Það var óvenjulega þurrt fram eftir mánuðinum á sunnan og vestanverðu landinu, en þar var úrkomusamara þegar líða tók á mánuðinn. Á Austurlandi mældist heildarúrkoma mánaðarins víða vel undir því sem vanalegt er í desember, t.a.m. á Dalatanga, Skjaldþingsstöðum og Miðfjarðarnesi þar sem úrkoma mældist um þriðjungur af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Úrkoma í Reykjavík mældist 77,0 mm sem er um 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 54,8 mm sem er 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í desember 51,3 mm og 55,8 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 14 sem eru jafn margir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 9 daga sem er þremur færri en í meðalári.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 14 í desember sem er 2 dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 23, fimm fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 27,4 sem er 14,8 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1,1 sem er rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Mánuðurinn var hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 1,2 m/s undir meðallagi. Hvassast var dagana 14. til 15. (suðvestanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1003,2 hPa sem er 4,0 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1034,2 hPa á Hólum í Dýrafirði þ. 1. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 955,3 hPa á Reykhólum þ. 14.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica