Fréttir
ljósmynd
Ölduský 27. desember 2017.

Tíðarfar í desember 2017

Stutt yfirlit

3.1.2018

Desember þótti svalur en veður voru hæg. Síðustu dagar ársins voru sérlega kaldir á landinu, þá sérstaklega norðaustanlands. Úrkoma og vindhraði voru undir meðallagi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist -0,7 stig, -0,5 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,9 stig, sem er jafnt meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -1,2 stig og 0,1 stig á Höfn.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2007-2016 °C
Reykjavík -0,7 -0,5 98 147 -1,3
Stykkishólmur -1,2 -0,4 118 172 -1,5
Bolungarvík -0,9 0,1 74 til 75 120 -0,9
Grímsey 0,0 0,9 63 144 -0,9
Akureyri -1,9 0,0 84 137 -1,0
Egilsstaðir -2,0 0,2 35 63 -0,6
Dalatangi 1,3 0,7 38 80 -0,5
Teigarhorn 0,5 0,6 73 145 -0,6
Höfn í Hornaf. 0,1


-0,9
Stórhöfði 1,4 0,0 80 140 -0,6
Hveravellir -7,0 -0,7 42 53 -1,8
Árnes -2,3 -0,4 88 138 -1,1

Meðalhiti og vik (°C) í desember 2017

Að tiltölu var kaldast á Vesturlandi. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Húsafelli, -2,4 stig. Að tiltölu var hlýjast á Norðaustur- og Austurlandi, minnsta hitavikið miðað við síðustu tíu ár var -0,3 stig á Rauðanúpi.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,4 stig. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -7,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -5,4 stig.

Mesta frost í mánuðinum mældist -29,0 stig í Svartárkoti þ. 29. og er það nýtt landsdægurlágmark. Einnig var sett nýtt landsdægurlágmark þ. 30. þegar frostið mældist -28,4 stig í Svartárkoti. Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,6 stig á Kvískerjum þ. 1. og er það nýtt landsdægurhámark.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 63,6 mm og er það um 81 % af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 46,1 mm og er það um 87 % af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 35,1 mm og 83,7 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13, einum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 10 daga sem er einum degi færri en í meðalári.

Snjór

Alhvítt var 8 morgna í Reykjavík, 5 færri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 17, 3 færri en að meðaltali sama tímabils.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 21 stund sem er um 9 stundum fleiri en í meðaldesember. Á Akureyri var sólarlaust eins og oft í þeim mánuði.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var 0,8 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára á sjálfvirku stöðvunum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1005,0 hPa sem er 3,9 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1030,4 hPa á Húsafelli þ. 8. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 973,9 hPa í Grindavík þ. 13.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2017 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica