Fréttir

Tíðarfar í apríl 2024

Stutt yfirlit

3.5.2024


Apríl var kaldur um allt land, einkum á Norður- og Austurlandi. Óvenjuþurrt var í mánuðinum víða um land að undanskildu norðausturhorni landsins. Þar var tiltölulega snjóþungt fram eftir mánuði og töluvert um samgöngutruflanir. Mjög sólríkt var í Reykjavík.

Hiti

Apríl var kaldur um allt land. Meðalhiti mánaðarins í Reykjavík var 3,1 stig. Það er hálfu stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,8 stig sem er 1,8 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 2,9 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2013-2022 °C
Reykjavík 3,1 -0,5 73 154 -1,3
Stykkishólmur 1,7 -1,0 87 179 -1,8
Bolungarvík 1,0 -0,6 63 127 -1,6
Grímsey 0,3 -0,8 67 til 69 151 -1,7
Akureyri 0,8 -1,8 91 144 -2,9
Egilsstaðir 0,1 -1,8 54 70 -2,8
Dalatangi 1,3 -0,8 51 til 52 86 -1,5
Teigarhorn 2,0 -0,9 81 152 -1,4
Höfn í Hornaf. 2,8 -1,5
Stórhöfði 3,7 -0,2 70 til 71 147 -0,6
Hveravellir -4,1 -1,8 48 60 -2,7
Árnes 2,2 -0,8 76 145 -1,4

Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2024

Meðalhiti mánaðarins var undir meðallagi aprílmánaðar síðustu tíu ára um allt land. Einkum var kalt inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi en að tiltölu var hlýrra við suðurströndina. Víða á Austurlandi var meðalhitinn í apríl lægri en meðalhiti marsmánaðar. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,5 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Mest var neikvæða hitavikið -3,5 stig í Svartárkoti.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í apríl miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 4,7 stig í Surtsey og lægstur -5,1 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur -3,6 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,5 stig í Kröflu þ. 23. Lægstur mældist hitinn -22,3 stig í Svartárkoti þ. 5. Það var mjög kalt fyrri hluta mánaðarins. Lágmarkshitamet féllu á ýmsum sjálfvirkum stöðvum á norður- og austurhluta landsins í mánuðinum. Hlýrra var í veðri síðari hluta mánaðar. 

Úrkoma

Apríl var úrkomusamur í Norðausturfjórðungnum en þurr annars staðar á landinu. 

Mánaðarúrkoman mældist 21,5 mm í Reykjavík, eða um 36% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Aðeins sjö sinnum hefur mælst minni aprílúrkoma í Reykjavík frá upphafi samfelldra úrkomumælinga þar. Á Akureyri mældist mánaðarúrkoman hins vegar 46,1 mm sem er um 80% umfram meðalúrkomu aprílmánaðar áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 30,9 mm og 35,8 mm mældust á Höfn í Hornafirði. 

Fjöldi daga þar sem úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri var 5 í Reykjavík, en það er sex dögum lægri fjöldi en í meðalári. Þurrir dagar voru óvenjumargir í Reykjavík í mánuðinum. Úrkoman var 1,0 mm eða meiri 9 daga mánaðarins á Akureyri, eða þremur dögum umfram meðalfjölda. 

Snjór

Það var snjóþungt á norðan- og austanverðu landinu fram eftir mánuði. Töluvert var um samgöngutruflanir í þeim landshlutum vegna hríðarveðurs og fannfergis. 

Jörð var flekkótt einn dag mánaðarins í Reykjavík en aðra daga var hún auð. Aftur á móti var mánuðurinn snjóþungur á Akureyri, en þar voru alhvítir dagar 17 og jörð var ekki alauð neinn morgun mánaðarins. Að jafnaði er jörð alhvít fimm daga í apríl á Akureyri.

Sólskinsstundafjöldi

Mánuðurinn var fjórði sólríkasti aprílmánuður í Reykjavík frá upphafi mælinga árið 1911. Þar mældist 226,1 sólskinsstund sem er 61 stund yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar 146,2, eða 18,7 stundum yfir meðallagi.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,2 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 7. (norðnorðaustanátt). 

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur mældist 1012,0 hPa í Reykjavík, en það er 2,7 hPa yfir meðallagi aprílmánaðar árin 1991 til 2020.Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1035,8 hPa í Grundarfirði þ. 22. Lægstur mældist hann 977,1 hPa á Fagurhólsmýri.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins var 1,0 stig. Það er 0,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn í Reykjavík í janúar til apríl raðast í 67. hlýjasta sæti  á lista 154 ára. Á Akureyri var meðalhiti fyrstu fjögurra mánaða ársins -1,0 stig sem er 1,3 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,7 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Þar raðast meðalhiti ársins hingað til í 80. hlýjasta sæti á lista 144 ára.

Þurrt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári. Heildarúrkoman fyrstu fjóra mánuði ársins mældist 220,8 mm sem eru 70% af meðalheildarúrkomu janúar til apríl 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna fjögurra 228,8 mm sem er 20% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Það hefur verið óvenjulega sólríkt í Reykjavík það sem af er ári. Sólskinsstundirnar fyrstu fjóra mánuði ársins mældust 512,1 og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri í Reykjavík yfir þessa mánuði, en það var árið 1947. 

Skjöl fyrir apríl

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2024 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.



















Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica