Fréttir
Spegilsléttur sjór á sumardaginn fyrsta. Mynd tekin inn Dýrafjörð. (Ljósmynd: Heiðrún Janusardóttir)

Tíðarfar í apríl 2022

Stutt yfirlit

3.5.2022


Tíðarfar var hagstætt í apríl. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hlýr um allt land. Ekki hefur verið jafn hægviðrasamt í apríl síðan árið 1989.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig. Það er 1,5 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,2 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn var 4,4 stig á Akureyri, eða 1,8 stigi yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,0 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 4,6 stig.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 5,1 1,5 10 152 1,2
Stykkishólmur 4,0 1,4 10 177 0,9
Bolungarvík 3,0 1,5 12 125 1,0
Grímsey 2,2 1,1 15 149 1,7
Akureyri 4,4 1,8 12 142 1,4
Egilsstaðir 3,2 1,2 16 68 0,9
Dalatangi 2,6 0,5 24 84 0,3
Teigarhorn 3,5 0,6 25 til 27 150 0,6
Höfn í Hornaf. 4,6


0,8
Stórhöfði 5,0 1,1 17 146 1,1
Hveravellir -0,6 1,7 6 58 1,4
Árnes 4,8 1,9 8 til 9 143 1,6

Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2022

Apríl var hlýr um allt land. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins, einkum á Norðausturlandi, en mánuðurinn var hlýrri en meðalapríl undanfarins áratugar um allt land. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 2,4 stig við Kröflu. Hitavik miðað við síðustu tíu ár var aðeins neikvætt á einni stöð, -0,1 stig á Vattarnesi á Austfjörðum.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í apríl miðað við síðustu tíu ár (2012 - 2021)

Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist 6,6 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur mældist hann -2,2 stig á Gagnheiði. Lægsti meðalhiti í byggð mældist 0,6 stig í Möðrudal.

Hæstur mældist hitinn í mánuðinum 17,7 stig í Ásbyrgi þ. 30. Lægsti hiti mánaðarins mældist -17,2 stig á Kárahnjúkum þ. 10., en lægsti hiti í byggð mældist -16,0 stig á Rifi á Melrakkasléttu sama dag.

Úrkoma

Heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 71,6 mm, eða 21 % yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist mánaðarúrkoman 13,9 mm sem er um helmingur af meðalmánaðarúrkomu aprílmánaðar árin 1991 til 2020. Síðast mældist jafnlítil aprílúrkoma á Akureyri árið 2008. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 33,8 mm í mánuðinum.

Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri var 8 í Reykjavík, en það er þremur dögum færri en í meðalaprílmánuði. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri þrjá daga mánaðarins, helmingi færri daga en í meðalári.

Snjór

Í Reykjavík var jörð var alhvít einn morgun mánaðarins, einum færri en að meðaltali árin 1991 til 2020. Jörð var einnig aðeins alhvít einn morgun á Akureyri, en þar er jörð að jafnaði alhvít fimm aprílmorgna.

Sólskinsstundafjöldi

Mánuðurinn var þungbúinn í Reykjavík, en sólskinsstundir mældust 135,0 sem er 30,1 stund minna en í meðalaprílmánuði árin 1991 til 2020. Sólskinsstundir voru álíka margar á Akureyri þennan mánuðinn, eða 134,7 stundir. Það er 7,2 stundum yfir meðallagi aprílmánaðar á Akureyri.

Vindur

Vindur á landsvísu var 1,0 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Apríl hefur ekki verið jafn hægviðrasamur síðan árið 1989. Hvassast var þ. 5. og 6. (norðnorðaustananátt), þ. 14. (austsuðaustanátt) og þ. 15. (sunnanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur mánaðarins mældist 1016,6 hPa í Reykjavík og er það 7,3 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1036,0 hPa á Kollaleiru í Reyðarfirði þ. 22. Lægsti mældi loftþrýstingur mánaðarins var 990,8 hPa þ. 14. á Gufuskálum.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins var 1,9 stig. Það er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,1 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn raðast í 32. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti janúar til apríl 0,9 stig. Það er 0,6 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 en 0,1 stigi yfir síðustu tíu ára. Þar raðast meðalhitinn í 22. til 23.sæti á lista 142 ára.

Það sem af er ári hefur verið mjög úrkomusamt í Reykjavík. Alla mánuði ársins hefur úrkoman verið yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og marsmánuður hefur aldrei verið jafn úrkomusamur og í ár. Heildarúrkoma janúar til aprílmánaða mældist 536,9 mm sem er 69 % umfram meðalúrkomu fyrstu fjögurra mánaða áranna 1991 til 2020. Hún hefur aðeins einu sinni verið meiri fyrstu fjóra mánuði ársins frá upphafi mælinga, en það var árið 1921 þegar það mældust 594,9 mm. Á Akureyri mældist heildarúrkoman 198,2 mm, eða 7% umfram meðallag.

Skjöl fyrir apríl

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica