Fréttir
Skýjamynd
Gíll á lofti 2. apríl 2017

Tíðarfar í apríl 2017

Stutt yfirlit

2.5.2017

Aprílmánuður var úrkomusamur á landinu, sérstaklega þó vestan- og norðvestanlands þar sem úrkoma var meiri en um áratugaskeið. Hiti var aftur á móti nærri meðallagi. Veður var lengst af meinlítið og tíð fremur hagstæð þó gróðri færi lítt fram.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í apríl var 3,1 stig og er það 0,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,8 undir meðallagi síðustu tíu ára.  Á Akureyri var meðalhitinn 2,7 stig, 1,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 2,4 stig og 3,7 stig á Höfn í Hornafirði.  

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2007-2016°C
Reykjavík 3,1 0,2 69 147 -0,8
Stykkishólmur 2,4 0,8 55 172 -0,6
Bolungarvík 1,0 0,2 56 120 -0,9
Grímsey 1,0 1,0 45 144 -0,4
Akureyri 2,7 1,1 44 136 0,0
Egilsstaðir 2,5 1,3 23 63 0,3
Dalatangi 2,4 1,0 24 til 25 79 -0,1
Teigarhorn 3,0 0,7 42 145 -0,2
Höfn í Hornaf. 3,7 -0,5
Stórhöfði 3,1 -0,3 86 141 -1,0
Hveravellir  -2,9 0,4 28 53 -0,8
Árnes 2,2 0,1 64 137 -0,9

Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2017

Að tiltölu var hlýjast í innsveitum norðaustanlands, 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára við Mývatn.  Kaldast að tiltölu var á suðurhálendinu, neikvæða vikið mest við Setur, -1,4 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Önundarhorni, Skarðsfjöruvita og í Surtsey, 4,2 stig. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli, -4,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -0,8 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -20,4 stig við Setur þann 16. Er þetta jafnframt mesta frost sem mæst hefur á landinu þennan almanaksdag. Mest frost í byggð mældist í Möðrudal þann 17., -12,7 stig og mesta frost á mannaðri stöð mældist sama dag á Grímsstöðum á Fjöllum, -10,3 stig. Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,3 stig í Kvískerjum þann 26., en hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 16,0 stig, á Höfn í Hornafirði þann 26. og á Akureyri þann 27.

Úrkoma

Úrkoma óvenjumikil, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Á fjölmörgum stöðvum var hún meiri en áður hefur mælst í aprílmánuði. Úrkoma í Reykjavík mældist 149,5 mm í Reykjavík, meir en tvöföld meðalúrkoma og sú mesta í apríl síðan 1921 en þá var úrkoman að heita má sú sama og nú, eða 149,9 mm.

Á Akureyri mældist úrkoman nú 38,1 mm, og er það um þriðjungur umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 109,8 mm, sú mesta í apríl þar síðan 1921 og 156,0 mm mældust á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 17, fimm fleiri en í meðalári. Slíkir dagar voru 14 á Akureyri, 8 fleiri en í meðalári og hafa ekki verið fleiri þar í apríl síðan 1953.

Snjór

Alhvítt var 2 morgna í Reykjavík, tveimur færri en að meðaltali í apríl 1971 til 2000. Aðeins einn alhvítur dagur var á Akureyri í aprílmánuði, 10 dögum færri en að meðaltali. Þetta er óvenjulegt, en apríl er þó endrum og sinnum alauður á Akureyri, síðast 2012.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 134,9, fimm færri en í meðalaprílmánuði. Á Akureyri var sólarlítið, sólskinsstundirnar mældust aðeins 84,4, 45 færri en í meðalári og hafa ekki mælst jafnfáar í apríl síðan 2009.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var í rúmu meðallagi, 0,3 m/s yfir meðallagi síðustu tíu ára á sjálfvirku stöðvunum. Einna hvassast varð þann 4. (norðvestri), þann 17. (af suðaustri), þann 19. og 20 (af suðvestri og vestri). Austlægar áttir voru lengst af ríkjandi, en dagana 18. til 26. var ríktu aðallega vestlægar áttir.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist  1010,7 hPa og er það 0,2 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn 1038,2 hPa á Gufuskálum og í Stykkishólmi þann 4., en lægstur 976,4 hPa þann 3. á Dalatanga.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins

Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar var sérlega hlýr. Í Reykjavík hafa þessir fjórir mánuðir saman aðeins fjórtán sinnum verið hlýrri en nú og átta sinnum á Akureyri. Úrkoma hefur verið um 50 prósent umfram meðallag i í Reykjavík – svipað og fyrir tveimur árum, en í rétt rúmu meðallagi á Akureyri.

Skjöl fyrir apríl

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2017 (textaskjal) .
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu .




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica