Fréttir
Apríl var fremur hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Logn á Seltjarnarnesi í lok aprílmánaðar. Eldgosið speglast í haffletinum. (Ljósmynd: Veðurstofan/Haukur Hauksson)

Tíðarfar í apríl

Stutt yfirlit

2.5.2021


Apríl var fremur svalur. Mánuðurinn var þurr og hægviðrasamur. Mjög sólríkt var norðanlands og hafa sólskinsstundir aðeins einu sinni mælst fleiri á Akureyri í aprílmánuði. Loftþrýstingur var sérlega hár í mánuðinum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í apríl var 3,5 stig og er það -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig, 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 2,7 stig og 2,9 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 3,5 -0,2 57 151 -0,5
Stykkishólmur 2,7 0,0 48 176 -0,6
Bolungarvík 1,8 0,3 40 til 41 124 -0,3
Grímsey 1,0 -0,2 60 148 -0,8
Akureyri 2,8 0,2 46 141 -0,4
Egilsstaðir 2,0 0,0 30 til 31 67 -0,6
Dalatangi 1,9 -0,2 36 83 -0,8
Teigarhorn 2,5 -0,4 58 149 -0,8
Höfn í Hornaf. 2,9


-1,2
Stórhöfði 3,3 -0,6 78 til 79 145 -0,8
Hveravellir -2,9 -0,5 30 57 -1,0
Árnes 2,3 -0,6 65 142 -1,0

Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2021

Apríl var fremur svalur á landinu öllu, sérlega kalt var dagana 4 til 10. Að tiltölu var hlýjast á Vestfjörðum og Snæfellsnesi en kaldast inná hálendi. Jákvætt hitavik var mest 0,1 stig á Gufuskálum. Neikvætt hitavik var mest -1,7 stig í Þúfuveri. Víða á Austurlandi var meðalhitinn í apríl lægri en meðalhiti marsmánaðar (sumsstaðar lægri en febrúarhitinn líka).


Hitavik sjálfvirkra stöðva í apríl miðað við síðustu tíu ár (2011-2020).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum 4,5 stig en lægstur -4,7 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur -1,3 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,1 stig á Kvískerjum þ. 2. Mest frost í mánuðinum mældist -21,7 stig við Hágöngur þ. 10. Mest frost í byggð mældist -17,4 stig í Húsafelli þ. 9.

Úrkoma

Apríl var þurr víðast hvar.

Úrkoma í Reykjavík mældist 38,4 mm sem er 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 15,8 mm sem er 54% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 59,5 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 10, einum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 6 daga mánaðarins sem eru jafnmargir og í meðalári.

Snjór

Alhvítt var tvo morgna í Reykjavík, jafnmargir og að meðaltali 1991 til 2020. Aldrei varð alvhítt á Akureyri en þar eru að jafnaði 5 alhvítir dagar í apríl.

Sólskinsstundafjöldi

Mjög sólríkt var á Akureyri í apríl. Sólskinsstundirnar mældust 195,6 sem er 68,1 stund yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Aðeins einu sinni hafa sólskinsstundirnar verið fleiri á Akureyri í apríl en það var árið 2000 þegar þær mældust 196,3.

Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 134,5 sem er 30,6 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Mánuðurinn var fremur hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var sérlega hár í apríl.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1021,4 hPa og er það 12,1 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Loftþrýstingurinn hefur aldrei verið eins hár í aprílmánuði í Reykjavík frá upphafi mælinga.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1044,2 hPa á Grundarfirði þ. 5. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 985,9 hPa á Gufuskálum og Grundarfirði þ. 16.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins var 2,0 stig sem er 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en jafn meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 23. til 25. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fjögurra 0,5 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 29. sæti á lista 141 ára.

Mjög þurrt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári. Heildarúrkoma mánaðanna fjögurra var 193,5 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Mánuðirnir fjórir hafa ekki verið jafnþurrir frá 1995 í Reykjavík. Á Akureyri hefur heildarúrkoma mánaðanna fjögurra mælst 200,9 mm sem er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Heildarúrkoma það sem af er ári hefur mælst meiri á Akureyri heldur en í Reykjavík sem er nokkuð sjaldgjæft.

Meðalloftþrýstingur mánaðanna fjögurra hefur verið óvenjuhár.

Skjöl fyrir apríl

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica