Fréttir
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Tíðarfar í ágúst 2024

Stutt yfirlit

3.9.2024


Ágúst var kaldur og úrkomusamur um allt land. Víða var meðalhitinn sá lægsti sem mælst hefur í ágústmánuði á þessari öld og ágústúrkoman mældist óvenjumikil á fjölda veðurstöðva. Loftþrýstingur var óvenjulágur um allt land. Meðalloftþrýstingur hefur aldrei mælst jafn lágur í ágústmánuði í Reykjavík frá upphafi mælinga árið 1820. Víða var óvenjuhvasst í mánuðinum. Mikil vatnsveður ollu vandræðum í flestum landshlutum í mánuðinum, en þau orsökuðu m.a. skriðuföll, flóð og mikla vatnavexti í ám.

Hiti

Ágúst var kaldur um allt land. Víða var meðalhitinn sá lægsti sem mælst hefur í ágústmánuði á þessari öld. T.a.m. hefur meðalhiti ágústmánaðar ekki verið lægri í Reykjavík, á Akureyri og á Stórhöfða síðan árið 1993.

Meðalhitinn í Reykjavík mældist 9,9 stig sem er 1,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,4 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri mældist meðalhitinn 9,3 stig í mánuðinum, eða 1,5 stigi undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðarins var 9,5 stig í Stykkishólmi og 10,0 stig á Höfn í Hornafirði.

 Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2014-2023 °C
Reykjavík 9,9 -1,2 115 til 116 154 -1,4
Stykkishólmur 9,5 -1,0 109 179 -1,1
Bolungarvík 8,0 -1,6 108 127 -1,8
Grímsey 7,5 -1,3 97 til 98 151 -1,5
Akureyri 9,3 -1,5 107 144 -1,6
Egilsstaðir 9,4 -0,9 49 70 -0,8
Dalatangi 8,6 -0,6 53 87 -0,8
Teigarhorn 9,0 -0,6 68 152 -0,7
Höfn í Hornaf. 10,0


-0,6
Stórhöfði 9,5 -0,9 103 148 -0,9
Hveravellir 5,3 -2,0 57 60 -2,1
Árnes 10,1 -0,8 90 145 -1,0

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2024

Kalt var um allt land í mánuðinum. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á norðurhluta landsins. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,4 stig í Öræfum. Mest mældist neikvæða hitavikið -2,2 stig við Sátu norðan Hofsjökuls.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur 11,1 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur 3,0 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur 6,6 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,3 stig á Skjaldþingsstöðum þ. 31. Lægstur mældist hitinn -3,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal þ. 21.

Á mönnuðu skeytastöðvunum Litlu-Ávík (mælt frá 1996) og Sauðnesvita (mælt frá 1990) mældist lægsti lágmarkshiti sem mælst hefur í ágústmánuði á þeim stöðvum. Hið sama má segja um nokkrar sjálfvirkar veðurstöðvar, t.d. Vestmannaeyjabæ (mælt frá 2002).

Úrkoma

Ágúst var mjög úrkomusamur um allt land, þá sérstaklega á norðanverðu landinu. Á nokkrum veðurstöðvum var ágústúrkoman með því mesta sem mælst hefur. Á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi mældist ágústúrkoman sú mesta þar frá upphafi mælinga 1993. Ágústúrkoman var sú næstmesta sem mælst hefur í Hænuvík (mælt frá 2005), Litlu-Ávík (mælt frá 1996), Sauðnesvita (mælt frá 1990) og Grímsstöðum á Fjöllum (mælt frá 1920). Ágústúrkoman var óvenjumikil á sjálfvirku úrkomustöðvunum á Siglufirði og Ólafsfirði og flestum stöðvunum á Vestfjörðum. Það var líka mjög blautt á Austfjörðum og heildarúrkoma ágústmánaðar mældist með mesta móti í Neskaupstað, Dalatanga, Gilsá og víðar.

Mikið var um skriðuföll og vandræði vegna bleytunnar í mánuðinum. Skriður féllu m.a. í miklu vatnsveðri á Ströndum í byrjun mánaðar.  Töluvert vatnsveður var á Austfjörðum og Suðausturlandi dagana 5. til 7. ágúst. Mikið rigndi dagana 22. til 24.ágúst á norðurhluta landsins, sérstaklega á Ströndum, Tröllaskaga og á norðanverðum Vestfjörðum. Miklir vatnavextir voru í ám og lækjum, vatnsflaumur myndaðist á Siglufirði og skriður féllu víða.  Í lok mánaðar gerði svo mikla úrkomu á sunnan- og vestanverðu landinu, sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd.

Úrkoma í Reykjavík mældist 87,2 mm sem er 35% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 77,3 mm sem er um 87% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 79,6 mm og 175,6 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9 sem er 2 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 13 daga sem er 5 fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust 155,7 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 9,1 stund undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 91,9 sólskinsstundir, eða 46,1 stund undir meðallagi.

Vindur

Óvenjuhvasst var í mánuðinum, einkum á norðanverðu landinu og Vestfjörðum. Mesti meðalvindur og mesta vindhviða ágústmánaðar á þessari öld mældust á veðurstöðvum víða um land, að Austfjörðum undanskildum.

Vindur á landsvísu var 0,7 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur var óvenjulágur um allt land í mánuðinum. Á mörgum veðurstöðvum hefur hann aldrei mælst jafn lágur í ágúst.

Í Reykjavík mældist meðalloftþrýstingur mánaðarins 994,5 hPa sem er 13,1 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er lægsti meðalloftþrýstingur sem mælst hefur í Reykjavík (mælt frá 1820).

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1016,1 hPa á Kambanesi þ.11. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 970,8 hPa á Vattarnesi þ. 22.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Sumarið (júní til ágúst) hefur verið tiltölulega kalt og úrkomusamt. Loftþrýstingur hefur verið óvenjulega lágur, þá sérstaklega í ágúst með lægðagangi og fremur óhagstæðri tíð. Nokkuð langvinnt norðanhret gekk yfir landið í byrjun sumars og óvenjumikið snjóaði á norðanverðu landinu miðað við árstíma. Mikil vætutíð hefur ríkt um nánast allt land í sumar. Júlí var óvenjulega blautur á vestanverðu landinu og ágúst á norðanverðu landinu. Vætutíðinni hafa fylgt miklir vatnavextir í ám og lækjum og aurskriður hafa fallið víða. Mjög hlýir dagar voru fremur fáir í sumar, en ágætis hlýindi voru þó á Norðaustur- og Austurlandi um miðjan júlí.

Meðalhiti sumarsins það sem af er í Reykjavík var 9,8 stig sem er 1,0 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja er í 110. til 111. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Þessir þrír sumarmánuðir hafa ekki verið eins kaldir í Reykjavík síðan árið 1993. Á Akureyri var meðalhitinn 10,0 stig, 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja þar raðast í 76. til 77. hlýjasta sæti á lista 144 ára. Meðalhiti sumarsins var 9,5 stig í Stykkishólmi (0,5 stigum undir meðallagi), 9,6 stig á Egilsstöðum (0,4 stigum undir meðallagi) og 9,2 stig á Stórhöfða (0,6 stigum undir meðallagi).

Úrkoma í Reykjavík mældist 236,2 mm sem er 50% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Sumarúrkoman í Reykjavík er sú 5. mesta frá upphafi samfelldra úrkomumælinga þar 1920. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 156,6 mm sem er um 65% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Þar var sumarúrkoman sú 7. mesta sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga 1928. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 32 í sumar sem er 2 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 32 daga í sumar, sem er 13 fleiri en í meðalári þar.

Sólskinsstundir mældust 464,1 í Reykjavík sem er 73,4 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 454,8 sem er 25,6 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins mældist 5,0 stig. Það er 0,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna átta í Reykjavík raðast í 70. sæti á lista 154 ára. Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til ágúst 4,2 stig, eða 0,6 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 og 1,0 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 65. sæti á lista 144 ára.

Heildarúrkoma í Reykjavík það sem af er ári mældist 530,5 mm sem er 2,9 mm yfir meðalúrkomu mánaðanna átta árin 1991 til 2020. Á Akureyri mældist samanlögð úrkoma 398,4 mm í janúar til ágúst, eða 91,7 mm umfram meðallag tímabilsins árin 1991 til 2020.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2024 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica