Fréttir
Sáttur ferðalangur á góðviðrisdegi við Húsavíkurhöfn í byrjun ágúst.

Tíðarfar í ágúst 2021

Stutt yfirlit

3.9.2021


Óvenjuleg hlýindi voru á landinu öllu í ágúst. Mánuðurinn var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á allmörgum stöðvum, t.d. á Akureyri, Stykkishólmi, Bolungarvík, Hveravöllum og Grímsey. Hlýjast var dagana 23. til 25. ágúst. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,4 stig á Hallormsstað þ. 24. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Óvenju þurrt og sólríkt var á Norðaustur- og Austurlandi, en þungbúið suðvestanlands. Mánuðurinn var hægviðrasamur.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í ágúst var 12,7 stig og er það 1,6 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020 og einnig 1,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti ágústmánaðar hefur aðeins einu sinni verið hærri í Reykjavík, en það var ágúst 2003. Á Akureyri var meðalhitinn 14,2 stig, 3,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 3,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mánuðurinn var hlýjasti ágústmánuður frá upphafi mælinga á Akureyri. Fyrra met var frá ágúst 1947 þegar mánaðarhitinn var 13,2 stig og er bætingin því upp á heilt stig líkt og í júlímánuði síðastliðnum. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 12,7 stig. Þar hefur mánaðarhiti ágústmánaðar aldrei verið hærri, en samfelldar hitamælingar í Stykkishólmi ná aftur til ársins 1846.

Mánuðurinn var einnig hlýjasti ágústmánuður frá upphafi mælinga í Bolungarvík, Grímsey og á Hveravöllum. Og sá næsthlýjasti á Egilsstöðum og Teigarhorni. Meðalhiti í byggðum landsins var 12,2 stig og jafnar þar með fyrra met frá ágúst 2003.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 12,7 1,6 2 151 1,6
Stykkishólmur 12,7 2,2 1 176 2,4
Bolungarvík 12,7 3,1 1 124 3,3
Grímsey 11,3 2,5 1 148 2,6
Akureyri 14,2 3,4 1 141 3,7
Egilsstaðir 12,6 2,2 2 67 2,7
Dalatangi 11,0 1,8 3 84 1,8
Teigarhorn 10,8 1,2 2 149 1,2
Höfn í Hornaf. 11,1


0,7
Stórhöfði 11,3 0,9 6 144 1,0
Hveravellir 10,6 3,4 1 57 3,6
Árnes 12,4 1,5 3 142 1,5

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2021

Óvenju hlýtt var á landinu öllu í ágúst, sérstaklega norðaustan- og austanlands. Mánuðurinn var sá hlýjasti á allmörgum stöðvum og hitamet voru slegin víða. Að tiltölu var hlýjast á Norðurlandi, noðranverðum Vestfjörðum og á norðaustanverðu hálendinu. Þar fóru hitavik miðað við síðustu tíu ár víða vel yfir fjögur stig líkt og í júlí s.l. sem þykir mjög mikið í sumarmánuði. Jákvætt hitavik var mest 4,5 stig á Vaðlaheiði. Á sunnanverðu landinu var að tiltölu svalara þó hiti hafi verið vel yfir meðallagi. Hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst 0,7 stig á Höfn í Hornafirði.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)


Meðalhiti mánaðarins var hæstur 14,2 stig á Bíldudal og á mönnuðu stöðinni á Akureyri. Það er nýtt mánaðarhitamet fyrir ágústmánuð. Eldra met var var 13,4 stig (Írafoss í ágúst 2004).

Lágmarksmeðalhiti var sérstaklega hár á Bíldudal, 11,6 stig og er það nýtt lágmarksmeðalhitamet bæði fyrir ágúst og fyrir alla mánuði ársins. Eldra met (fyrir hvaða mánuð sem er) var 11,0 stig (Garðar í Staðarsveit, júlí 1991, Surtsey, júlí 2012 og Arnarstapi á Snæfellsnesi, júlí 1943).

Hámarksmeðalhiti mánaðarins var hæstur 19,0 stig í Ásbyrgi og er það nýtt hármarksmeðalhitamet fyrir ágúst. Eldra met var 18,4 stig (Staðarhóll í ágúst 2004).

Meðalhiti mánaðarins var lægstur 8,0 stig á Skálafelli. Á láglendi var meðalhitinn lægstur á Kambanesi 9,6 stig.

Mjög hlýtt var dagana 23. til 25. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,4 stig á Hallormsstað þ. 24. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Eldra met var 29,2 stig (Egisstaðaflugvöllur 11.ágúst 2004). Fjöldi annarra mánaðarhámarkshitameta féllu á einstaka stöðvum þessa daga.

Lægsti hiti mánaðarins mældist 0,4 stig á Miðfjarðarnesi þ. 19. Frostlaust var á öllum veðurstöðvum landsins í ágúst sem er mjög óvenjulegt.

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenju þurr á Norðaustur- og Austurlandi og tiltölulega þurr í flestum öðrum landshlutum.

Úrkoma í Reykjavík mældist 56,0 mm sem er um 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Mánuðurinn var mjög þurr á Akureyri. Úrkoman mældist 7,0 mm sem er aðeins um 15% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020, en svo lítil úrkoma hefur ekki mælst í ágúst á Akureyri síðan 1960. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 30,5 mm sem er um 60 % af heildarúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoma 19,1 mm sem er það minnsta sem mælst hefur þar. Óvenju lítil úrkoma mældist á flestum úrkomustöðvum Austurlands.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 11 sem eru jafnmargir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 3 daga mánaðarins, fimm færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Mjög sólríkt var á norðaustanverðu landinu í ágúst, á meðan þungbúið var suðvestanlands.

Sólskinsstundir á Akureyri mældust 181,5 sem er 43,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Aðeins fjórum sinnum hafa sólskinsstundirnar verið fleiri á Akureyri í ágúst, mest 209 stundir árið 2004, en einnig mældust sólskinsstundirnar fleiri en nú árin 2012, 1975 og 1994

Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 89,5 sem er 75,3 stundum færri en að meðallagi áranna 1991 til 2020. Ekki hefur verið eins sólarlítið í ágústmánuði í Reykjavík síðan árið 1995.

Vindur

Mánuðurinn var óvenju hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,7 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Suðlægar áttir voru ríkjandi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1013,6 hPa og er það 6,0 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1036,3 hPa á Önundarhorni þ. 31. Það er hæsti lofþrýstingur sem mælst hefur á landinu í ágústmánuði. Eldra met var 1034 hPa (Grímsey 13 ágúst 1964). Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1001,3 hPa á Húsafelli þ. 3.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Sumarið byrjaði í kaldara lagi. Óvenju kalt var á landinu um miðjan júní og það frysti og snjóaði víða í byggð. Gróður tók hægt við sér eftir kalt og þurrt vor. Í lok júní hlýnaði til muna og við tóku óvenjuleg hlýindi á Norður- og Austurlandi sem héldu áfram nánast óslitið út sumarið. Það var óvenju sólríkt og þurrt í þeim landshlutum á meðan þungbúnara og tiltölulega svalara var suðvestanlands.

Dagar þegar hámarkshiti mældist 20 stig eða meira einhversstaðar á landinu voru 57 í sumarmánuðunum þremur og hafa slíkir dagar aldrei verið fleiri (þeir voru 8 í júní, 29 í júlí og 20 í ágúst).

Meðalhiti í Reykjavík var 11,0 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jafn meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja í Reykjavík er í 26. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 12,8 stig, 2,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 2,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er hlýjasta sumar frá upphafi mælinga á Akureyri.

Sumarið var einnig það hlýjasta frá upphafi mælinga á Egilsstöðum, Dalatanga og Grímsstöðum á Fjöllum og það næsthlýjasta í Grímsey og Bolungarvík.

Úrkoma í Reykjavík mældist 121,6 mm sem er um 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 31,9 mm sem er um aðeins 35% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoma hefur aldrei mælst svo lítil í þessum þremur mánuðum á Akureyri frá upphafi samfelldra úrkomumælinga þar árið 1928. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 1 færri en í meðalári í Reykjavík en 7 færri en í meðalári á Akureyri.

Sólskinsstundir mældust 362,5 í Reykjavík, 175 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 629,5 sem er 149 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Mánuðirnir þrír hafa tvisvar verið sólríkari á Akureyri en nú, árin 2012 og 1971.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins var 5,8 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 26. til 28. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna átta 5,6 stig. Það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 10. sæti á lista 141 ára.

Það hefur verið þurrt það sem af er ári. Úrkoman  í Reykjavík hefur mælst 354 mm sem er um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 247,7 mm sem er um 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica