Fréttir
Sandvatn
Sandvatn, horft í austur af Fljótsheiði.

Tíðarfar í ágúst 2017

1.9.2017

Hiti var í svalara lagi á landinu í ágúst. Veður var þó almennt gott. Hægviðrasamt var um land allt og úrkoma var minni en í meðallagi að Norðurlandi undanskildu. Sólskinsstundir voru vel yfir meðallagi suðvestanlands

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 10,8 stig, 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990, en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,9 stig, -0.1 stigi neðan meðallags áranna 1961-1990, og -0.9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti ágúst á Akureyri síðan 2005. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,4 stig og 10,9 stig á Höfn í Hornafirði.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2007-2016 °C
Reykjavík 10,8 0,6 54 147 -0,5
Stykkishólmur 10,4 0,8 45 172 -0,3
Bolungarvík 9,4 0,7 47 til 48 120 -0,4
Grímsey 8,7 0,9 38 til 39 144 -0,4
Akureyri 9,9 -0,1 70 til 71 136 -0,9
Egilsstaðir 9,8 0,2 31 63 -0,2
Dalatangi 9,8 1,5 11 79 0,7
Teigarhorn 9,8 1,0 23 145 0,2
Höfn í Hornaf. 10,9


0,1
Stórhöfði 10,4 0,8 41 141 -0,3
Hveravellir 6,8 0,6 27 til 28 53 -0,5
Árnes 10,6 0,4 56 til 58 138 -0,5

 Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2017

Hiti var í lægra lagi á landinu í ágúst og mest um neikvæð hitavik þegar miðað er við síðustu tíu ár. Að tiltölu var hlýjast á Austurlandi. Jákvæð vik frá meðallagi síðustu 10 ára voru mest á Brúaröræfum, +0,9 stig, og á Seley +0,8 stig. Kaldast var á Norðurlandi. Miðað við síðustu tíu ár voru mestu neikvæðu vikin í kringum -1,0 stig á Torfum, Möðruvöllum, Húsavík og Ásbyrgi.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Skarðsfjöruvita, 11,5 stig. Lægstur var hann á Brúarjökli, 2,5 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var á Grímsstöðum á Fjöllum, 7,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,6 stig þann 27. á Seyðisfirði-Vestdalur og á Skjaldþingsstöðum. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 19,6 stig á Vatnsskarðshólum þann 18. og á Skjaldsþingsstöðum þann 27.

Mest frost í mánuðinum mældist -3,1 stig í Möðrudal þann 13.

Úrkoma

Fremur úrkomulítið var í ágúst að Norðurlandi undanskildu.

Úrkoma í Reykjavík mældust 39,0 mm sem er 63 % af meðallagi áranna 1961 til 1990. Það er álíka þurrt og var í ágúst í fyrra. Á Akureyri mældist úrkoman í ágúst 44,4 mm og er það 30 % umfram meðallag áranna 1961-1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 26,5 mm og 64,1 mm á Höfn.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 8 í Reykjavík, 4 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 8 daga mánaðarins, 1 fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 215,4 sem er 60,6 stundum fleiri en að meðallagi í ágúst. Á Akureyri mældust 171 sólskinsstund sem er 35 stundum yfir meðallagi.

Vindur

Mjög hægviðrasamt var í ágúst. Vindhraði á landsvísu var 0,8 m/s undir meðallagi síðustu 10 ára á sjálfvirku stöðvunum. Ámótahægviðrasamt var í ágúst í fyrra. Norðlægar áttir voru algengar í mánuðinum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1009,2 hPa sem er 0,6 hPa undir meðallagi áranna 1961-1990. Hæsti þrýstingurinn í mánuðinum mældist 1023,2 á Akureyri þ. 22. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 981,5 á Dalatanga þ. 28.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Meðalhiti í Reykjavík var 10,8 stig og er það 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1961-1990 en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja 10,5 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990, og -0.2 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 118,7 mm sem er 72 prósent af meðalúrkomu áranna 1961-1990. Á Akureyri mældist úrkoman 90,7 mm sem er 95 prósent af meðallagi. Í Stykkishólmi hefur verið fremur þurrt og mældist úrkoman 86,3 mm sem er um 64 prósent af meðalúrkomu. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 6 færri en í meðalári í Reykjavík.

Sólskinsstundir mældust 567 í Reykjavík, 79 fleiri en að meðalltali 1961-1990, en um 20 stundum færri en síðustu 10 ár. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 449 sem er 22 stundum undir meðallagi áranna 1961-1990 en 50 stundum færra en að jafnaði í sömu mánuðum síðustu tíu ára.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Fyrstu átta mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Þar munar mest um febrúar og maí sem voru sérlega hlýir. Í Reykjavík var hiti 1,4 stigum ofan meðallagsins 1961-1990 og 0,2 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Í Reykjavík eru mánuðirnir átta í 10. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga. Á Akureyri var hiti 1,8 stigum ofan meðallagsins 1961-1990 fyrstu átta mánuði ársins og 0,7 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Þessi hiti er í 7. sæti af 136 á Akureyi. Úrkoma í Reykjavík hefur verið um fjórðung umfram meðallag og um 15 prósent umfram meðallag á Akureyri.


Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2017 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja ísérstaka töflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica