Fréttir
Netjubylgjur í Austur-Húnavatnssýslu.

Tíðarfar í ágúst 2016

Stutt yfirlit

1.9.2016

Tíð var talin hlý og hagstæð um mikinn hluta landsins og úrkoma var víðast hvar undir meðallagi að magni til. Sólskinsstundir voru í ríflegu meðallagi suðvestanlands. Fyrsta vika mánaðarins var fremur svöl en síðan gerði mjög góðan hlýindakafla sem stóð nærri því til mánaðamóta.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 11,8 stig, 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, og 0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er áttundi hlýjasti ágústmánuður frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Á Akureyri var meðalhitinn 10,9 stig, 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, og 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,1 stig.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalh. °C vik 1961-1990 röð af vik 2006-2015
Reykjavík 11,8 1,5 8
146 0,5
Stykkishólmur 11,1 1,5 17
171 0,4
Bolungarvík 9,9 1,2

25 til 26

119 0,1
Grímsey 9,5 1,8
12 til 13
143 0,5
Akureyri 10,9 1,0
28 135 0,1
Egilsstaðir 10,3 0,7 25
62 0,2
Dalatangi 9,4 1,1 21
78 0,3
Teigarhorn 9,7
0,9
29
144 0,0
Höfn í Hornafirði 11,1       0,4
Stórhöfði 11,1 1,5 7
140 0,5
Hveravellir  8,0 1,8 8
51 0,7
Árnes 11,4 1,3 16 til 17
137 0,3

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2016

Að tiltölu var hlýjast við innanverðan Faxaflóa og Breiðafjörð og á stöku stað á fjöllum og hálendi landsins. Vik frá meðallagi síðustu tíu ára var mest á Þverfjalli, +0,9 stig, og við Sátu, +0,8 stig. Langkaldast að tiltölu var á Brúarjökli, þar var -2,0 stigum kaldara en að meðallagi síðustu tíu ágústmánuði – e.t.v. er um bilun í stöðinni að ræða. Miðað við síðustu tíu ár var næstmesta neikvæða vikið á Laufbala, -0,5 stig, og svo -0,2 stig á Flateyri.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Garðskagavita, 12,2 stig, en lægstur 2,7 stig á Brúarjökli. Í byggð var meðalhiti lægstur í Möðrudal, 8,5 stig. Á láglendi var meðalhiti lægstur á Hornbjargsvita, 7,4 stig. Mest frost í mánuðinum mældist -3,1 stig í Möðrudal þann 9. Það er jafnframt nýtt dægurmet, mesta frost sem nokkru sinni hefur mælst á landinu þann 9. ágúst. Eldra met, -2,5 stig, var sett á sama stað 1999. Mest frost á mannaðri stöð mældist -2,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 9.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,5 stig á Reykjum í Fnjóskadal þann 17. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 20,4 stig í Hjarðarlandi þann 22.

Barnamosi
Íslenskur lággróður. Á myndinni sem tekin var 4. ágúst 2016 sést barnamosi. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Úrkoma

Úrkoma var víðast hvar undir meðallagi áranna 1971 til 2000. Hún var mest að magni til um landið suðaustanvert. Fremur þurrt var víða vestanlands en ekki þó um met að ræða. Úrkoman í Reykjavík mældist 33,4 mm og er það rétt rúmur helmingur meðallags ágústmánaða áranna 1961 til 1990. Þetta er minnsta úrkoma í Reykjavík í ágúst síðan 2011. Á Akureyri mældist úrkoman í ágúst 47,4 mm, um 40 prósent umfram meðalúrkomu. Mun meiri úrkoma mældist þó á Akureyri í ágúst í fyrra. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 10 í Reykjavík, tveimur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri 11 daga mánaðarins, fjórum fleiri en í meðalmánuði. Í Stykkishólmi voru þeir dagar sem úrkoma mældist 1 mm eða fleiri aðeins 5, fimm færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 192,5 eða 38 fleiri en í meðalágúst áranna 1961 til 1990 og 13 fleiri en í meðalágúst síðustu tíu ára. Síðast mældust þær jafnmargar eða fleiri í ágúst 2011. Á Akureyri mældust sólskinssstundirnar 148,3 og er það 12 stundum ofan meðallags áranna 1961 til 1990.

Vindur

Veðrátta var óvenjuhægviðrasöm í ágúst. Meðalvindhraði var um 0,7 m/s undir meðallagi síðustu 20 ára. Ámótahægviðrasamt var í ágúst árið 2003 en ekki síðan. Vestanáttadagar voru aðeins 6 en norðlægar og suðlægar áttir skiptust nokkuð á.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1009,4 hPa, sem er 0,8 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn 1023,9 hPa á Höfn í Hornafirði þann 9. en lægstur á Kirkjubæjarklaustri þann 31., 990,1 hPa.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Sumarið hefur verið mjög hlýtt það sem af er. Meðalhiti í Reykjavík í mánuðunum júní til ágúst var 11,7 stig og hefur aðeins þrisvar verið hærri frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Það var 2010, 2003 og 2012. Af 10 hlýjustu sumrum í Reykjavík eru 8 frá þessari öld, aðeins 1880 og 1939 skjótast inn á þann topplista. Á Hveravöllum er sumarið í þriðjahlýjasta sæti, því fimmtahlýjasta í uppsveitum Suðurlands, áttundahlýjasta í Stykkishólmi og sama sæti austur á Teigarhorni. Það er í elleftahlýjasta sæti á Egilsstöðum en hefur staðið sig einna síst að tiltölu á Akureyri þar sem það er í 21. sæti, meðalhitinn þar í sumar var þó 11,0 stig.

Sumarið hefur verið í þurrara lagi um landið sunnan- og vestanvert; í Reykjavík er úrkoman um 76 prósent af meðallagi og 72 prósent í Stykkishólmi. Úrkomudagar eru einnig færri en í meðalári. Einnig var þurrt framan af sumri um landið suðaustanvert en þar breytti nokkuð til er á leið. Norðanlands hefur úrkoma víða verið í ríflegu meðallagi, 24 prósent umfram meðallag á Akureyri.

Þó sumarið hafi verið fremur þurrt syðra, sker það sig þó ekki sérstaklega úr miðað við það sem algengt hefur verið á síðari árum. Frá 2009 til 2015 var úrkoma í Reykjavík í júní til ágúst t.d. fimm sinnum jafnlítil eða minni en nú, en aðeins tvisvar meiri.

Í Reykjavík mældust 564 sólskinsstundir; það er tæplega 80 stundum umfram meðallag sömu mánaða 1961 til 1990, en 14 færri en að meðaltali síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundir þessara þriggja mánaða 449 stundir og er það um 50 stundum færra en að jafnaði í sömu mánuðum síðustu tíu ára.

Á landsvísu var sumarið það hægviðrasamasta frá 2003 að telja.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 8 mánuði ársins er 6,1 stig og er það fjórtándahæsta meðaltal sömu mánaða frá 1871 að telja. Á Akureyri er meðalhiti þessara mánaða 4,7 stig og er í 42. sæti á lista sem nær aftur til 1882.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 393 mm og er það um 10 prósent undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er með minna móti, var þó enn minna í sömu mánuðum áranna 2010, 1995, 1985 og allmargra fyrri ára. Úrkoma á Akureyri hefur verið ofan meðallags það sem af er ári.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2016 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í ágúst 2016, er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf.

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica