Fréttir
Eyjafjörður í öllu sínu veldi á "breiðtjaldsformi" á einum af góðviðrisdögum síðasta sumars.

Tíðarfar ársins 2021

Yfirlit

20.1.2022


Veðurfar ársins 2021 var hagstætt, tíð var góð og illviðri fátíð. Hiti var rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og það var tiltölulega þurrt um land allt. Árið var óvenju snjólétt suðvestanlands. Alhvítir dagar voru aðeins 17 í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni verið færri. Sumarið var óvenju hlýtt, sólríkt og þurrt á Norður- og Austurlandi. Víða var sumarið það hlýjasta frá upphafi mælinga í þessum landshlutum og allmörg hitamet voru slegin. Mánaðarmeðalhiti fór m.a. yfir 14 stig á nokkrum veðurstöðvum í sumar en meðalhiti eins mánaðar á Íslandi hafði aldrei áður farið yfir 14 stig á nokkurri stöð. Árið var það næstsólríkasta frá upphafi mælinga á Akureyri.

Veturinn 2020 til 2021 (desember 2020 til mars 2021) var nokkuð hagstæður. Sér í lagi suðvestanlands, þar var tiltölulega hlýtt, þurrt og óvenju snjólétt. Úrkomusamara var norðaustanlands. Illviðri voru fremur fátíð þennan veturinn.

Vorið og langt fram í júní var kalt, þurrt og sólríkt. Gróður fór seint af stað. Í lok júní hlýnaði hratt, sérstaklega á Austur- og Norðausturlandi og fór hitinn þar víða vel yfir 20 stig nokkra daga í röð. Hlýindunum fylgdu miklar leysingar eftir kalt vor með miklum vatnavöxtum í ám og lækjum.

Við tóku óvenjuleg og nánast óslitin hlýindi á Norður- og Austurlandi sem stóðu fram í byrjun september. Sumarið var það hlýjasta frá upphafi mælinga m.a. á Akureyri, Egilsstöðum, Dalatanga og á Grímsstöðum á Fjöllum. Dagar þegar hámarkshiti mældist 20 stig eða meira einhversstaðar á landinu hafa aldrei verið fleiri. Sumarmánuðirnir voru óvenju sólríkir og þurrir á Norður- og Austurlandi. Sólskinsstundir hafa aldrei mælst fleiri í júlímánuði á Akureyri og ágústmánuður var víða sá þurrasti frá upphafi mælinga á þessum slóðum. Á meðan var þungbúnara og tiltölulega svalara suðvestanlands, en þó tilltölulega þurrt.

Það varð svo úrkomusamara þegar leið á árið. September og október voru blautir á Norður- og Austurlandi og september og nóvember voru úrkomusamir suðvestan- og vestanlands. Mikið rigningarveður gerði á norðaustanverðu landinu í byrjun október, þá sérstaklega á Tröllaskaga og í Kinnarfjöllum. Miklar skriður féllu í Kinn og Útkinn.

Desember var óvenju hægviðrasamur og tiltölulega snjóléttur um land allt.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,4 stig og er það 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jafnt meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,7 stig, 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhitinn 4,6 stig sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,5 stig, 0,1 stigi yfir meðallagi. Á landsvísu var hitinn 0,2 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020, en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti °C vik 1991-2020 röð af vik 2011-2020
Reykjavík 5,4 0,2 23 151 0,0
Hvanneyri 4,6 # 9 24 0,0
Bláfeldur 4,8 # 15 24 -0.2
Stykkishólmur 4,7 0,2 21 176 -0.1
Bolungarvík 4,2 0,5 15 124 0.1
Litla-Ávík 4,1 # 8 26 0.1
Blönduós 4,0 # 5 18 0.1
Akureyri 4,6 0,4 12 til 13 141 0.2
Grímsstaðir 1,9 0,5 14 115 0.2
Miðfjarðarnes 3,7 # 6 22 0.2
Skjaldþingsstaðir 4,1 # 9 28 0,0
Egilsstaðir 4,0 0,2 16 til 17 67 -0.2
Dalatangi 4,9 0,5 8 83 0,0
Teigarhorn 4,8 0,2 17 til 18 149 -0.1
Höfn í Hornaf. 5,0 #

-0.5
Fagurhólsmýri 5,5 0,2 26 119 -0.1
Vatnsskarðshólar 6,0 0,2 16 til 17 82 0,0
Stórhöfði 5,5 0,1 29 145 -0.1
Árnes 4,5 0,1 27 142 -0.1
Hjarðarland 4,2 0,2 15 32 -0.1
Hveravellir 0,2 0,2 13 57 0,0
Eyrarbakki 5,0 0,1 30 til 31 129 -0.1
Keflavíkurflugvöllur 5,2 0,1 18 til 20 69 0,0

Tafla 1: Meðalhiti og vik ársins 2021 á nokkrum stöðum

Ársmeðalhitinn var hæstur 6,6 stig í Surtsey. Lægsti ársmeðalhitinn var á Gagnheiði -1,1 stig og lægstur í byggð í Möðrudal 1,4 stig.

Ársmeðalhitinn var rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 á landinu öllu. Að tiltölu var hlýrra á Norður- og Austurlandi en kaldara að tiltölu á Suður- og Vesturlandi. Á mynd 1 má sjá að hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár eru ýmist rétt undir eða rétt yfir meðallagi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,7 stig á Gjögurflugvelli en neikvætt hitavik var mest -0,4 stig á Höfn í Hornafirði og Þingvöllum.


Mynd 1: Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2021 miðað við síðustu tíu ár.

Hæsti hiti ársins mældist 29,4 stig á Hallormsstað þ. 24. ágúst og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágústmánuði. Mesta frost ársins mældist -25,4 stig við Hágöngur þ. 1. febrúar. Mesta frost ársins í byggð mældist -25,3 stig í Svartárkoti þ. 28. janúar.

Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 20,9 stig þ. 20. júlí en mesta frostið mældist -9,8 stig þ. 27.mars. Af öllum stöðvum höfuðborgarsvæðisins mældist hitinn hæstur 21,4 stig í Víðidal þ. 29. júlí en mesta frostið -15,6 stig í Víðidal þ. 10.janúar. Á Akureyri mældist hæsti hitinn á árinu 27,5 stig þ. 20.júlí en mesta frostið -17,4 stig þ. 18. janúar.


Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers sólarhrings á árinu 2021, ásamt landsmeðalhita síðustu 10 ára. Hitasveiflurnar eru alltaf mun meiri yfir vetrarmánuðina. Janúar var að mestu leyti kaldur, en febrúar og mars nokkuð hlýir. Mjög kalt var dagana 4 til 10. apríl. Maí var einstaklega kaldur og sérlega kalt var dagana 11. til 20 júní þegar snjóaði víða í byggð. Við tóku óvenjuleg hlýindi sérstaklega norðan- og austanlands sem vörðu fram í september. Mjög hlýtt var dagana 23. til 25. ágúst og voru víða slegin hitamet þá daga. Í desember var sérlega hlýtt um mánuðinn miðjan.

Óvenjuleg og nánast óslitin hlýindi voru á Norður- og Austurlandi frá loka júní fram í byrjun september.

Sumarið (júní til september) var það hlýjasta frá upphafi mælinga á Akureyri, Egilsstöðum, Dalatanga og á Grímsstöðum á Fjöllum. Dagar þegar hámarkshiti mældist 20 stig eða meira einhversstaðar á landinu voru 60 í sumarmánuðunum fjórum og hafa slíkir dagar aldrei verið fleiri (þeir voru 8 í júní, 29 í júlí, 20 í ágúst og 3 í september).

Júlí og ágúst voru óvenjulega hlýir, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Á landsvísu var júlí næsthlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga (það var hlýrra í júlí 1939) og ágúst var hlýjastur allra mánaða, ásamt ágúst 2003. Mánuðirnir voru þeir hlýjustu á allmörgum stöðvum frá upphafi mælinga og hitamet voru slegin víða. Á nokkrum stöðvum eins og t.d. á Akureyri var bætingin upp á heilt stig, bæði í júlí og ágúst.

Mánaðarmeðalhitinn fór yfir 14 stig á nokkrum veðurstöðvum í sumar en meðalhiti eins mánaðar á Íslandi hafði aldrei áður farið yfir 14 stig á nokkurri stöð. Í júlí fór meðalhitinn yfir 14 stig á Akureyri (14,3 stig), Torfum í Eyjafirði (14,3 stig), Grímsstöðum á Fjöllum (14,2 stig) og á Hallormsstað (14,1 stig). Í ágúst var mánaðarhitinn 14,2 stig á Akureyri og á Bíldudal.

Ný hámarks- og lágmarksmeðalhitamet (fyrir hvaða mánuð sem er) voru einnig slegin í sumar. Hámarkshitametið var slegið á Hallormsstað í júlí þegar meðalhámarkshitinn var 20,5 stig og lágmarksmeðalhitametið var slegið á Bíldudal í ágúst þar sem meðallágmarkshitinn var 11,6 stig.


Mynd 3: Janúar var kaldur bæði í Reykjavík og á Akureyri en febrúar og mars hlýir. Vorið (sérstaklega maí) og sumarbyrjun voru köld bæði í Reykjavík og á Akureyri. Júlí og ágúst voru þeir hlýjustu á Akureyri frá upphafi mælinga og ágúst var sá næsthlýjasti í Reykjavík. Á Akureyri var hitinn yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 í september en undir meðallagi síðustu þrjá mánuði ársins. Hitinn var rétt undir meðallagi í september og nóvember í Reykjavík en yfir meðallagi í október og desember.

Úrkoma

Árið var tiltölulega þurrt um land allt. Janúar og febrúar voru mjög þurrir á sunnan- og vestanverðu landinu sem varð til þess að veturinn var mjög snjóléttur á þeim slóðum. Maí var þurr og kaldur á landinu öllu og skapaðist víða töluverð hætta á gróðureldum. Sumarið (júní til ágúst) var óvenju þurrt á Norður- og Austurlandi, þá sérstaklega ágústmánuður sem var víða sá þurrasti frá upphafi mælinga. September var úrkomusamur víðast hvar og október var mjög blautur norðaustanlands. Mikið rigningarveður gerði á norðaustanverðu landinu í byrjun október, þá sérstaklega á Tröllaskaga og í Kinnarfjöllum. Þá féllu miklar skriður í Kinn og Útkinn.

stöð ársúr hlutf9120 % hlutf1120 % mest d. úrkd úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 765,3 87 82 18,6 232 150 17 309
Stykkishólmur 675,7 92 88 29,9 211 124 7 347
Hólar í Dýrafirði 1237,3 # 105 112,0 235 132 50 204
Litla-Ávík 836,2 # 92 45,7 225 145 78 218
Skeiðsfoss 915,6 94 89 54,1 210 129 154 157
Sauðanesviti 944,7 107 101 41,8 222 127 79 213
Akureyri 636,4 111 98 29,5 172 103 82 227
Grímsstaðir 400,4 103 89 14,3 189 97 148 136
Skjaldþingsstaðir 1112,4 # 84 61,2 184 115 42 232
Dalatangi 1437,2 87 81 47,6 232 145 66 259
Höfn í Hornafirði 1327,0 # 83 56,2 180 136 23 317
Vatnsskarðshólar 1507,3 87 81 61,9 259 188 14 310
Hjarðarland 1415,2 106 108 66,5 201 160 40 298
Keflavíkurflugvöllur 1071,3 97 98 38,2 241 171 9 318

Tafla 2: Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1991 til 2020. (3) Hlutfall miðað við árin 2011 til 2020 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.

Ársúrkoma í Reykjavík mældist 765,3 mm sem er 87% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020, en 82% af meðalúrkomu síðustu tíu ára. Það var var óvenju þurrt fram eftir ári í Reykjavík. Heildarúrkoma ársins var óvenjulítil í Reykjavík alveg þar til í september, eða um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. En svo varð úrkomusamara í höfuðborginni þegar leið á árið. Á Akureyri mældist ársúrkoman 636,4 mm, 11% umfram meðallag áranna 1991 til 2020, en rétt undir meðallagi síðustu tíu ára. Sumarið (júní til ágúst) var óvenju þurrt á Akureyri. Úrkoma hefur aldrei mælst svo lítil í þessum þremur mánuðum á Akureyri frá upphafi samfelldra úrkomumælinga þar árið 1928.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 150, einum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri voru slíkir dagar 103, einum fleiri en í meðalári.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 229,7 mm á Kvískerjum þ. 15. apríl. Það er það mesta sem mælst hefur á einum sólarhring á sjálfvirkri veðurstöð. Á mannaðri stöð mældist mesta sólarhringsúrkoman 164,5 mm í Skaftafelli þ. 16. apríl. Á mönnuðu stöðvunum er úrkomusólarhringurinn frá kl. 9 til kl. 9 en á sjálfvirku stöðvunum frá kl.00 til kl. 24.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 18,6 mm þ. 13. september. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 29,5 mm þ. 27. október.


Mynd 4: Árið var þurrt í Reykjavík og var úrkoma undir meðallagi áranna 1991 til 2020 alla mánuði ársins nema í september og nóvember. Janúar og mars voru úrkomusamir á Akureyri og september og október voru óvenju blautir. Aðrir mánuðir ársins voru þurrir. Sumarið (júní til ágúst) á Akureyri var það þurrasta frá upphafi mælinga. Í ágúst mældist úrkoman aðeins 7,0 mm, svo lítil úrkoma hefur ekki mælst í ágúst á Akureyri síðan 1960.

Snjór

Árið var óvenju snjólétt á suðvestanverðu landinu. Alhvítir dagar ársins í Reykjavík voru aðeins 17, sem er 38 færri en meðaltal áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar hafa aðeins einu sinni verið færri í Reykjavík en það var árið 2010 þegar þeir voru 16. Veturinn 2020 til 2021 (desember til mars) í Reykjavík var sá næst snjóléttasti frá upphafi mælinga, veturinn 1976 til 1977 var snjóléttari. Jörð varð aldrei alhvít í Reykjavík í janúar. Það hefur aðeins gerst þrisvar áður að enginn alhvítur dagur sé skráður í Reykjavík í janúar, en það var árin 2010, 1940 og 1929.

Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 82, þrettán færri en að meðaltali 1991 til 2020.Mynd 5: Myndin sýnir vik fjölda alhvítra daga frá meðallagi 1991 til 2020 í Reykjavík og á Akureyri. Árið var óvenju snjólétt í Reykjavík, þá sérstaklega fyrstu 3 mánuðir ársins. Enginn alhvítur dagur var skráður í janúar og fjöldinn var einnig langt undir meðallagi í febrúar og mars. Árið var einnig tiltölulega snjólétt á Akureyri. Þar var þónokkur snjór í lok janúar og í febrúar en vorið var snjólétt. Desember var tiltölulega snjóléttur bæði á Akureyri og í Reykjavík.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1224,8, sem er 144 stundum færri en í meðalári 1991 til 2020, en 141 stund færri en að meðaltali síðustu tíu ára. Maí var mjög sólríkur í Reykjavík og hafa sólskinsstundirnar aldrei mælst eins margar þar í maímánuði. Sumarið var aftur á móti þungbúið suðvestanlands.

Árið var mjög sólríkt á Akureyri. Sólskinsstundirnar mældust 1291,1 eða 240 fleiri en að meðaltali 1991 til 2020, en 221 stund fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára. Árið hefur aðeins einu sinni verið sólríkara á Akureyri, en það var árið 2012. Sumarið var einstaklega sólríkt á Norður- og Austurlandi. Júlí var sérlega sólríkur á Akureyri og hafa sólskinsstundir aldrei mælst eins margar þar í júlímánuði.


Mynd 6: Í Reykjavík var óvenju sólríkt í maí. Sumarið var þungbúið í höfuðborginni og sólskinsstundafjöldi var langt undir meðallagi alla sumarmánuðina. Árið var mjög sólríkt á Akureyri, sólskinsstundafjöldi var yfir meðallagi frá apríl til ágúst. Júlí var óvenju sólríkur og hafa sólskinsstundir aldrei mælst eins margar þar í júlímánuði.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var tiltölulega hár á árinu.

Meðalloftþrýstingur í Reykajvík var 1008,4 hPa og er það 3,3 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalloftþrýstingur var óvenjuhár janúar og apríl. Loftþrýstingurinn hefur aldrei verið eins hár í aprílmánuði í Reykjavík frá upphafi mælinga.

Hæsti loftþrýstingur ársins mældist 1044,2 hPa á Grundarfirði þ. 5.apríl. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 956,1 hPa á Fonti á Langanesi þ. 10. mars.Mynd 7: Loftþrýstingur í Reykjavík tiltölulega hár á árinu, hann var yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 alla mánuði ársins nema í júní, september og október. Loftþrýstingurinn var óvenjulega hár í janúar og apríl.

Vindhraði og vindáttir

Árið var fremur hægviðrasamt og illviðri fátíð. Meðalvindhraði á landinu var 0,2 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020.Mynd 8: Vindhraði á landsvísu var yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 í júní, september og október. Aðra mánuði ársins var vindur undir eða í meðallagi. Febrúar, ágúst og desember voru sérlega hægviðrasamir.
Mynd 9: Allar vindathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (2001 til 2020). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Norðlægar áttir voru ríkjandi í janúar, suðaustlægar áttir í febrúar og vestlægar í mars. Suðvestlægar áttir voru ríkjandi í apríl en norðaustanáttir í maí. Suðvestanáttir voru ríkjandi allt sumarið frá júní til september. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í október, suðvestanvindur var tíður í nóvember og suðaustlægar áttir í desember.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Janúar var kaldur. Mánuðurinn var óvenju þurr og snjóléttur suðvestanlands. Mikið snjóaði á norðurhluta landsins seinni hluta mánaðar og féllu óvenju mörg snjóflóð á norðanverðum Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Mjög slæmt óveður var þ. 9. á Austfjörðum. Norðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum.

Febrúar

Febrúar var hagstæður, vindur hægur og illviðri fátíð. Mánuðurinn var hlýr og snjóléttur á Suðvesturlandi á meðan svalara var norðaustanlands. Hiti var þó allstaðar yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Það var tiltölulega þurrt á landinu vestanverðu en úrkomusamara austanlands.

Mars

Mars var hlýr og tíð hagstæð. Óvenju hlýtt var á landinu dagana 17. til 19. og mældist hitinn víða hátt í 20 stig á Austurlandi.

Apríl

Apríl var fremur svalur. Mánuðurinn var þurr og hægviðrasamur. Mjög sólríkt var norðanlands og hafa sólskinsstundir aðeins einu sinni mælst fleiri á Akureyri í aprílmánuði. Loftþrýstingur var sérlega hár í mánuðinum.

Maí

Maí var kaldur og þurr. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fram eftir mánuðinum, það var kalt og óvenju úrkomulítið um land allt. Gróður tók lítið við sér og sinueldar voru tíðir. Það tók svo að hlýna og rigna í lok mánaðar. Sólskinsstundir mældust óvenjumargar í Reykjavík.

Júní

Júní var fremur kaldur. Mjög kalt var á landinu dagana 11. til 20. Það frysti og snjóaði víða í byggð og gróðri fór hægt fram. Í lok mánaðar var aftur á móti mjög hlýtt, sérstaklega á Austur- og Norðausturlandi og fór hitinn þar víða vel yfir 20 stig nokkra daga í röð. Hlýindunum fylgdu miklar leysingar eftir kalt vor með tilheyrandi vatnavöxtum í ám og lækjum.

Júlí

Júlí var mjög hlýr og þurr, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Meðalhiti júlímánaðar í þeim landshlutum var víða sá hæsti frá upphafi mælinga. Sólskinsstundir hafa aldrei mælst eins margar í júlímánuði á Akureyri. Á meðan var þungbúnara suðvestanlands en tiltölulega þurrt.

Ágúst

Óvenjuleg hlýindi voru á landinu öllu í ágúst. Mánuðurinn var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á allmörgum stöðvum, t.d. á Akureyri, Stykkishólmi, Bolungarvík, Hveravöllum og Grímsey. Hlýjast var dagana 23. til 25. ágúst. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,4 stig á Hallormsstað þ. 24. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Óvenju þurrt og sólríkt var á Norðaustur- og Austurlandi, en þungbúið suðvestanlands. Mánuðurinn var hægviðrasamur.

September

September var hlýr framan af, sérstaklega norðan- og norðaustanlands. Síðustu tíu dagar mánaðarins voru aftur á móti kaldir. Það snjóaði víða í byggð í lok mánaðar og var jörð alhvít á mörgum stöðum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Úrkoma mældist víðast hvar vel yfir meðallagi í mánuðinum. Óvenju þungbúið var suðvestanlands og hafa ekki mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í septembermánuði síðan 1943. Mánuðurinn var fremur illviðrasamur.

Október

Október einkenndist af norðaustlægum áttum og var úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi. Samanborið við sama mánuð undanfarin tíu ár var mánuðurinn tiltölulega kaldur á norðanverðu landinu en tiltölulega hlýr á því sunnanverðu. Sólskinsstundir voru færri en í meðalári á Akureyri og þar var mánaðarúrkoman sú næstmesta sem mælst hefur þar. Talsvert sólríkara og úrkomuminna var í Reykjavík. Óvenjumikil úrkoma í upphafi mánaðar á Norðausturlandi olli miklum skriðuföllum í Kinn og Útkinn.

Nóvember

Tíð var nokkuð hagstæð í nóvember. Mánuðurinn var kaldari en meðalnóvembermánuður undanfarinn áratug um allt land. Úrkomusamt var á sunnan- og vestanverðu landinu. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í nóvember í Reykjavík síðan árið 1993.

Desember

Desember var hægviðrasamur og tíð almennt góð. Að tiltölu var snjólétt á landinu, einkum um miðbik mánaðar. Undir lok mánaðar snjóaði töluvert á Norðausturlandi og var jafnfallinn snjór á Akureyri 47 cm á gamlársdag. Fyrri hluti mánaðar var þurr á Norðurlandi á meðan úrkomusamara var suðvestanlands. Síðari hluti mánaðarins var hins vegar þurr á Suðvesturlandi og kviknuðu víða gróðureldar um áramótin í tengslum við flugelda.


Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2021 (textaskjal)


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica