Fréttir
Gervihnattamynd af Íslandi tekin 26. maí, 2019

Tíðarfar ársins 2019

Yfirlit

14.1.2020

Árið 2019 var fremur hlýtt og tíð hagstæð. Að tiltölu var hlýjast á Suður- og Vesturlandi á meðan svalara var norðan- og austanlands. Aprílmánuður var óvenjulega hlýr um land allt og sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum.

Árið var tiltölulega þurrt og sérlega sólríkt suðvestan- og vestanlands. Aðeins tvisvar sinnum hafa sólskinsstundirnar verið fleiri í Reykjavík á einu ári. Þungbúnara og blautara var norðan- og austanlands. Á Akureyri var árið var með þeim úrkomusömustu frá upphafi mælinga.

Óvenju hár þrýstingur var yfir landinu í maí og júní og þurrt á landinu öllu, sérstaklega á Vesturlandi. Í Stykkishólmi var alveg úrkomulaust frá 21. maí til 26. júní eða í 37 daga og er það lengsti þurrkur sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga árið 1856. Fyrra met var 35 dagar frá árinu 1931 þegar þurrt var í Stykkishólmi frá 15. maí til 20. júní.

Vindur var í meðallagi á árinu.

Veturinn 2018 til 2019 var fremur mildur og lítið um illviðri. Vorið var óvenju hlýtt og gróður fór snemma af stað. Sumarið var hlýtt og sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu. Á Norður og Austurlandi var svalara og úrkomusamara. Óvenjuleg hlýindi voru yfir landinu í lok september og veður með besta móti.

Tíð var óhagstæð í lok árs, sér í lagi á norðanverðu landinu. Mikið norðanóveður gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Mikil ísing og fannfergi fyldgu óveðrinu sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,8 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 4,9 stig, 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Egilsstöðum var ársmeðalhitinn 3,7 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,9 stig, 1,0 stigi yfir meðallagi. Á landsvísu var hitinn 1,2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en jafn meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti og vik ársins 2019 á nokkrum stöðum

stöð hiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2009-2018
Reykjavík 5,8 1,4 7 149 0,3
Hvanneyri 4,7 # 7 22 0,1
Bláfeldur 5,5 # 5 22 0,3
Stykkishólmur 4,9 1,4 13 174 0,1
Bolungarvík 4,3 1,3 14 122 0,1
Litla-Ávík 3,9 # 11 24 -0,2
Blönduós 3,7 # 11 16 -0,3
Grímsey 3,9 1,6 11 146 -0,1
Akureyri 4,3 1,1 25 139 -0,1
Grímsstaðir 1,6 1,2 25 til 27 113 -0,2
Miðfjarðarnes 3,2 # 10 20 -0,3
Skjaldþingsstaðir 3,6 # 18 til 21 25 -0,5
Egilsstaðir 3,7 0,8 24 til 25 65 -0,4
Dalatangi 4,6 1,1 16 til 17 81 -0,2
Teigarhorn 4,8 1,1 17 147 -0,1
Höfn í Hornaf. 5,3 #

-0,1
Fagurhólsmýri 5,5 0,9 24 til 25 117 -0,1
Vatnsskarðshólar 6,2 1,1 8 80 0,2
Stórhöfði 5,9 1,0 15 til 16 143 0,2
Árnes 5,0 1,4 6 140 0,3
Hjarðarland 4,7 # 4 29 0,3
Hveravellir 0,7 1,8 5 55 0,4
Eyrarbakki 5,2 1,2 20 127 0,1
Keflavíkurflugvöllur 5,7 1,2 9 67 0,3

Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey 6,9 stig. Lægsti ársmeðalhitinn var á Gagnheiði -1,7 stig og lægstur í byggð í Möðrudal 1,1 stig.

Árið var fremur hlýtt, þá sér í lagi á Suður- og Vesturlandi á meðan svalara var norðan- og austanlands. Ársmeðalhitinn var yfir meðallagi 1961 til 1990 á landinu öllu. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Þar sést vel hve skörp skil voru á milli landshluta þetta árið, vikin eru jákvæð suðvestanlands en neikvæð norðan- og austanlands. Vikamynstrið er akkúrat öfugt við árið í fyrra (2018) en þá var hlýtt austanlands en svalara sunnan og vestantil. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,6 stig á Ölkelduhálsi. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,6 stig á Sauðárkróksflugvelli.


Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2019 miðað við síðustu tíu ár.


Hæsti hiti ársins á landinu mældist 26,9 stig á Hjarðarlandi þ. 29. júlí. Mesta frost ársins mældist -29,8 stig í Svartárkoti þ. 8. mars.

Hæsti hiti í Reykjavík mældist 21,1 stig þ. 14. júní en mest 24,1 stig á mönnuðu stöðinni á Akureyri þ. 27. júní. Lægsti hiti í Reykjavík mældist -12,1 stig þ. 2. febrúar, en á Akureyri mældist lægsti hitinn -15,3 stig þ. 27. janúar.

Nýtt mánaðarhámarksmet var sett í desember þegar hitinn mældist 19,7 stig á Kvískerjum þ. 2. sem er það hæsta sem mælst hefur í desember á landinu til þessa.

Óvenju hlýtt var á landinu öllu í apríl. Mánaðarmeðalhitinn í apríl var sá hæsti frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum. Víða var mánaðarhitinn í apríl hærri en mánaðarhiti maímánaðar.

Júlí var sérlega hlýr um landið sunnan og vestanvert. Í Reykjavík (og víðar) var mánuðurinn sá hlýjasti frá upphafi mælinga.

Ágúst var fremur kaldur um land allt, sérstaklega um landið norðan- og norðaustanvert. Á landsvísu hefur ágústmánuður ekki verið eins kaldur síðan árið 1993. Ágúst var kaldasti ágústmánuður frá upphafi mælinga á nokkrum stöðvum, t.d. Litlu-Ávík (mælt frá 1996), Skjaldþingsstöðum (mælt frá 1994), Sauðanesvita (mælt frá 1990), Miðfjarðarnesi (mælt frá 2000).

September var hlýr. Óvenju hlýtt var á landinu síðari hluta mánaðarins og veður gott. Víða var mánaðarhiti í september hærri en mánaðarhitinn í ágúst.



Í Reykjavík var hiti ofan meðallags 1961 til 1990 í öllum mánuðum ársins. Á Akureyri var hiti ofan meðallags í öllum mánuðum nema í ágúst og nóvember. Apríl var óvenjulega hlýr á landinu öllu og sá hlýjasti frá upphafi mælinga bæði á Akureyri og í Reykjavík. Júlímánuður var sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík.

Úrkoma

Árið var tiltölulega þurrt á vestanverðu landinu. Árið var með þeim blautustu frá upphafi mælinga á Akureyri.

Óvenju langur þurrkakafli var á Suður- og Vesturlandi frá loka maí og langt fram í júní og víða var nánast óslitinn þurrkur í hátt í fjórar vikur. Í Stykkishólmi var alveg úrkomulaust frá 21. maí til 26. júní eða í 37 daga og er það lengsti þurrkur sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga árið 1856. Fyrra met var 35 dagar frá árinu 1931 þegar þurrt var í Stykkishólmi frá 15. maí til 20. júní.

stöð ársúr hlut f7100 % Hlutf 0918 % mest d. úrkd Úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 867,8 105,5 97,7 32,4 219 153 61 283
Stykkishólmur 713,6 100,4 96,8 44,0 193 121 62 277
Brjánslækur 1065,2 # 101,5 69,0 153 111 # #
Lambavatn 744,4 76,6 81,6 44,6 152 119 # #
Hólar í Dýrafirði 897,6 # 80,7 48,9 215 119 80 230
Litla-Ávík 723,7 # # 35,6 243 138 94 231
Litla-Hlíð 349,3 # 89,7 21,8 155 74 89 253
Sauðanesviti 708,5 # 76,0 43,8 210 133 # #
Akureyri 692,8 133,6 110,9 40,6 195 110 103 226
Mýri 451,4 103,2 83,7 44,0 173 105 109 198
Grímsstaðir 399,1 110,7 91,7 21,3 190 116 124 172
Dalatangi 1577,2 105,1 86,5 74,9 284 168 64 258
Höfn í Hornafirði 1295 # 81,3 45,9 219 150 37 288
Vatnsskarðshólar 1852,9 113,5 104,3 98,8 246 188 38 275
Hjarðarland 1161,3 # 91,8 64,0 168 138 83 258
Írafoss 1947,1 # 98,8 98,3 140 134 76 252
Keflavíkurflugvöllur 984,2 88,2 94,1 29,1 219 155 31 306
Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1971 til 2000 (samanburður næst við fleiri stöðvar þetta tímabil heldur en 1961 til 1990). (3) Hlutfall miðað við árin 2009 til 2018 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.

Úrkoma í Reykjavík mældist 867,8 mm, 6% umfram meðallag áranna 1971 til 2000 en 98% af meðalúrkomu síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist úrkoman 692,8 mm, 34 % ofan meðallags 1971 til 2000 en 11 % ofan meðallags síðustu tíu ára. Úrkoman hefur aðeins þrisvar mælst meiri á Akureyri á einu ári, 2014, 1989 og 2018. Ársúrkomunni á Akureyri var þó nokkuð misskipt á milli mánaða. Um þriðjungur úrkomunnar (191,1 mm) féll í desember og er það mesta úrkoma sem mælst hefur á Akureyri í desembermánuði, á meðan var nóvember næstþurrasti nóvembermánuður frá upphafi mællinga þegar úrkoman mældist aðeins 4,6 mm. Á Dalatanga mældist úrkoman 1577,2 mm, um 5% umfram meðallag áranna 1971 til 2000.



Í Reykjavík var úrkoma yfir meðallagi fyrstu fjóra mánuði ársins. Við tóku þurrir sumarmánuðir með úrkomu vel undir meðallagi, að júlí undanskildum. September var mjög blautur í Reykjavík en úrkoman var svo í kringum meðallag það sem eftir var árs. Á Akureyri var úrkoman yfir meðallagi fyrstu tvo mánuði ársins. Mjög þurrt var á Akureyri í apríl, maí og júlí en vætusamt í júlí og ágúst. Nóvember var næstþurrasti nóvembermánuður á Akureyri frá upphafi mælinga á meðan desember var blautasti desembermánuður frá upphafi þegar úrkoman mældist meira en þreföld meðalúrkoma.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 153, fimm fleiri en að meðaltali 1961 til 1990. Á Akureyri voru slíkir dagar 110, sjö fleiri en í meðalári.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 146,3 mm á Kvískerjum þ. 5. október. Á mannaðri stöð mældist mesta sólarhringsúrkoman 140,7 mm á Hjarðarfelli þ. 20. september.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 32,8 mm , þ. 18. september. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 40,6 mm. þ. 11. október á mönnuðu stöðinni. Á sjálfvirku stöðinni á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 39,3 mm þ. 10. desember.

Snjór

Fjöldi alhvítra daga var nærri meðallagi í Reykjavík og á Akureyri.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 61 sem er þremur færri en meðaltal áranna 1971 til 2000. Þónokkur snjór var í Reykjavík í janúar og febrúar, en mars var snjóléttur. Haustið var með snjóléttasta móti en jörð var að miklu leyti hulin snjó í desember.

Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 103, fimm færri en að meðaltali 1971 til 2000. Snjór var í meðallagi á Akureyri í janúar og vel yfir því í febrúar og mars. Apríl var alauður vegna mikilla hlýinda í þeim mánuði. Nóvember var óvenju snjóléttur á Akureyri sem orsakaðist af úrkomuleysi en töluvert fannfergi var í bænum í desember.

Mest snjódýpt á árinu mældist 130 cm við Skeiðsfossvirkjun þ. 23., 24. og 25. desember.



Myndin sýnir vik fjölda alhvítra daga frá meðallagi í Reykjavík og á Akureyri. Snjór var yfir meðallagi á Akureyri í febrúar og mars en alautt var í apríl sem er ekki vanalegt þar. Í Reykjavík var snjór yfir meðallagi í febrúar en undir því í mars. Nóvember var óvenju snjóléttur bæði í Reykjavík og á Akureyri en töluverður snjór var í desember.

Sólskinsstundir

Árið var óvenjusólríkt á suðvesturhluta landsins á árinu.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1582,2 sem er 314 fleiri en í meðalári 1961 til 1990, en 205 fleiri en að meðallagi síðustu tíu ára. Árið var það þriðja sólríkasta frá upphafi sólskinsstundamælinga í Reykjavík, sólríkara var 1924 og 2012. Sólskinsstundirnar voru óvenju margar í júní.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1070,4 eða 25 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 en 20 fleiri en að meðallagi síðustu tíu ára.



Í Reykjavík var mjög sólríkt í maí, júní, júlí og ágúst. Júní var sérlega sólríkur. Sumarið 2019 var það þriðja sólríkasta frá upphafi mælinga í Reykjavík. Á Akureyri var sólríkt í mars og apríl, júní og október en sólarminna í maí, júlí og ágúst.

Loftþrýstingur

Meðalþrýstingur í Reykjavík var 1007,4 hPa og er það 1,5 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Hæsti þrýstingur ársins mældist 1040,6 hPa á Reykjavíkurflugvelli þ. 11. júní. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 946,5 hPa á Fonti þ. 11. desember.



Þrýstingur var yfir meðallagi í janúar, maí, júní, október og nóvember. Óvenju hár þrýstingur var í maí og júní. Neikvæð mánaðarvik voru mest í mars og desember.

Vindhraði og vindáttir

Vindhraði á landsvísu var í meðallagi á árinu.



Vindhraði á landsvísu var undir meðallagi í janúar, september og nóvember. Óvenju hægviðrasamt var í nóvember og hefur meðalvindhraði ekki verið eins hægur síðan í nóvember 1952. Í öðrum mánuðum var vindhraði lítillega yfir meðallagi, og nokkuð yfir því í júní, ágúst, október og desember.



Allar vindathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (1999 til 2018). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Norðlægar áttir (appelsínugular súlur) voru tíðar í febrúar, frá maí til október og óvenju tíðar í desember. Sunnanáttir voru óvenju tíðar í apríl auk þess að vera ríkjandi í janúar, mars og nóvember. Vestanáttir voru tíðari en í meðalári í janúar, mars og júní en austlægar áttir voru algengari aðra mánuði ársins. Austanáttir voru óvenju tíðar í apríl.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Janúar var sérlega tvískiptur. Óvenju mikil hlýindi einkenndu fyrri hluta mánaðarins, hiti var langt yfir meðallagi um land allt og snjólétt víðast hvar. Seinni hluti mánaðarins var mun kaldari og þá sérstaklega síðustu dagarnir. Töluverður snjór var víða um land, vindur hægur og nokkuð bjart í veðri.

Febrúar

Mánuðurinn var mjög tvískiptur. Fyrri hluti mánaðarins var kaldur og þónokkur snjór var á landinu. Þurrt og bjart var suðvestanlands en úrkomusamara norðanlands. Mikil hlýindi einkenndu síðari hluta mánaðarins og snjóa leysti víðast hvar á láglendi.

Mars

Marsmánuður var nokkuð hagstæður. Hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en undir meðallagi síðustu tíu ára. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fyrri helming mánaðarins á meðan seinni hlutinn einkenndist af suðvestlægum áttum. Vindhraði var nærri meðallagi.

Apríl

Óvenjulega hlýtt var á landinu öllu í apríl. Þetta var hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum. Suðaustlægar áttir voru ríkjandi. Þurrt og bjart var norðanlands en blautara syðra. Gróður tók vel við sér.

Maí

Maí var nokkuð hlýr og sólríkur um vestanvert landið á meðan svalara var norðan- og austanlands. Þurrt var um allt land. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Loftþrýstingur var óvenju hár í mánuðinum.

Júní

Mánuðurinn var óvenju þurr. Langur þurrkakafli var á Suður- og Vesturlandi fram eftir mánuðinum. Mjög sólríkt var í þeim landshlutum og fremur hlýtt á meðan svalara var norðan- og austanlands. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi.

Júlí

Tíð var sérlega hlý um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík var mánuðurinn sá hlýjasti frá upphafi mælinga, og á fáeinum stöðvum öðrum meðal þeirra 3 til 4 hlýjustu. Svalara var og tíð mun daufari um landið norðan- og austanvert en þó var hiti ofan meðallags síðustu tíu ára á flestum veðurstöðvum.

Úrkoma var ekki fjarri meðallagi á Suður- og Vesturlandi, en yfir því norðaustanlands. Úrkoma var langmest á litlu svæði norðantil á Austfjörðum. Vindhraði var ívið minni en í meðalári.

Ágúst

Ágúst var fremur kaldur um land allt, sérstaklega um landið norðan- og norðaustanvert. Á landsvísu hefur ágústmánuður ekki verið eins kaldur síðan árið 1993. Þurrt og bjart var um landið sunnan- og vestanvert en blautara norðaustanlands. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi.

September

September var hlýr og úrkomusamur. Óvenju hlýtt var síðustu viku mánaðarins og veður með besta móti. Mánuðurinn var sérlega úrkomusamur um landið vestanvert. Miklar rigningar voru á Vesturlandi dagana 18. til 20. Vatnavextir í ám og skriðuföll ollu talsverðum skemmdum og trufluðu samgöngur á svæðinu.

Október

Tíð í október var nokkuð sveiflukennd. Í mánuðinum voru allmargir hlýir dagar en einnig kaldir dagar á milli. Að tiltölu var hlýjast vestanlands en svalara og úrkomusamara norðan- og austanlands. Fyrsti snjór vetrarins féll á Norðurlandi.

Nóvember

Nóvember var óvenju hægviðrasamur og tíð hagstæð. Óvenju þurrt var um landið norðanvert og var mánuðurinn víða þurrasti nóvembermánuður um áratugaskeið. Að tiltölu var kaldast á Norðausturlandi en hlýrra vestantil á landinu.

Desember

Tíð var óhagstæð á norðanverðu landinu í desember en betri sunnanlands. Mikið norðanóveður gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Mikil ísing og fannfergi fyldgu óveðrinu sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á norðanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Úrkoman á Akureyri mældist meira en þrefalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur þar í desembermánuði frá upphafi mælinga.

Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2019 (textaskjal)







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica