Fréttir
Mynd sem sýnir skjálftavirkni 6.-13. maí á svæðinu við Svartsengi. Appelsínugulir þríhyrningar eru skjálftastöðvar, bláir eru GPS mælistöðvar. (Mynd úr skjálftavefsjá Veðurstofunnar)

Skjálftavirkni á Reykjanesskaganum

Ný gögn sýna glögglega það ris sem er að eiga sér stað

23.5.2022


Nýjar gervihnattamyndir hafa borist úr Sentintel-1interferogram en eru þær frá 27. apríl - 21. maí 2022. Þar sést að landris hefur verið í kringum 40-45 mm síðan að nýjasta jarðskjálftahrinan hefur staðið yfir.

23.05.-mynd20220427-20220521

Nýjustu upplýsingar sem sýnir það ris sem hefur orðið frá 27. apríl-21. maí. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin)

Um 400 jarðskjálftar mældust með SIL sjálfvirku staðsetningarkerfi Veðurstofunnar á liðnum sólarhring. Í dag 23. maí kl. 07:15 mældist jarðskjálfti af stærð 3,5 um 3 km austnorðaustan við Þorbjörn. Hans varð vart á Reykjanesskaganum og að höfuðborgarsvæðinu. Í gærkvöldi, 22. maí kl. 23:13, varð jarðskjálfti af stærðinni 3,0 á sömu slóðum. 

23.05.2022decomp

Nýjustu upplýsingar sem sýnir það ris sem hefur orðið frá 27. apríl-21. maí. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin)


Uppfært 19.05 kl 15:37

 Í dag komu ný gögn fram úr Sentinel-1 interferogram frá seinustu 12 dögum eða frá 7.-19. maí 2022.

Þar sést nokkuð glögglega það ris sem er að eiga sér stað í kringum Svartsengi, en það mælist 2-2,5 sm á tímabilinu. 20220507-20220519

Nýjustu upplýsingar sem sýnir það ris sem hefur orðið frá 7.-19. maí. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin)


Uppfært 16.05 kl 13:00

Jarðskjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaga og hafa mælst yfir 3000 skjálftar á svæðinu við Eldvörp á Reykjanesi undanfarna viku. Síðan í gær, 15. maí, hafa mælst níu skjálftar yfir 3 af stærð og tveir yfir 4 af stærð. Stærsti skjálftinn var 4,3 af stærð og varð 15. maí klukkan 17:38. Talið er að mesta skjálftavirknin sé á 4-6 km dýpri.  

Samkvæmt GPS mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR gervihnattamyndum eru færslur á yfirborði jarðar sem sýna þenslumerki sem bendir til kvikusöfnunar vestur af Þorbirni, líklega vegna kvikusöfnunar. Samkvæmt frumniðurstöðum er þetta á 4-5 km dýpi.  

Í ljósi kvikusöfnunar og þenslumerkja á Reykjanesi hefur VONA fluglitakóðinn verið færður frá grænu yfir á gulan.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafa lýst yfir óvissustigi Almannavarna frá og með 15. maí.

Csk_asc_21apr-08mai

Nýjustu gervitunglagögn úr Cosmo-SkyMed (InSAR) af Reykjanesskaga sem sýna breytingar á svæðinu frá 21. april til 8. maí. Miðja þenslunnar og jafnframt þar sem risið mælist mest er vestan við Þorbjörn upp á um það bil 1,5 sm. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Michelle Maree Parks)


14.05

Talsverð skjálftavirkni hefur mælst á Reykjanesskaganum síðustu vikuna og hefur virknin verið hvað mest við Svartsengi og í nágrenni Grindavíkur. Alls hafa um 1.700 skjálftar mælst í sjálfvirka kerfinu á þessu svæði í vikunni, sá stærsti um 2.9 að stærð.

Í frétt sem var birt í lok síðasta mánaðar kom fram að GPS mælanetið á Reykjanesskaganum sem nemur færslur á yfirborði jarðar sýnir þenslumerki sem bendir til kvikusöfnunnar á talsverður dýpi við Fagradalsfjall. GPS stöðvar í nágrenni við Þorbjörn hafa á síðustu tveimur vikum sýnt breytingar sem benda til lítilsháttar þenslu við Svartsengi. „Þessar færslur sem við sjáum eru ennþá litlar, í kringum 10-15mm þar sem þær eru mestar“, segir Benedikt G. Ólafsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands, en Benedikt í samvinnu við Jarðvísindastofnun Háskólans fylgist náið með jarðskorpuhreyfingum á svæðinu. „Færslan sem við greinum nú svipar til þeim sem við greindum á sömu slóðum fyrri hluta árs 2020“, segir Benedikt.

InSAR gervitunglamyndir sem spanna tímabilið 29. apríl - 7 maí og 21. apríl – 8. maí, sýna sambærilegar breytingar og mælst hafa á GPS stöðvunum. „Það sem við höfum lært af eldsumbrotunum á Reykjanesskaga er að aukning í skjálftavirkni og aflögun getur verið fyrirvari eldgoss, en þá er það alls ekki alltaf raunin“, segir Michelle Maree Parks, en Michelle er ein af vísindamönnum í aflögunarteymi Veðurstofunnar, sem fylgist meðal annars með landrisi. „Eins og oft áður þurfum við hreinlega að sjá hver þróunin verður. Við erum að keyra líkön til að meta t.d. á hvaða dýpi kvikan er á þessu tiltekna svæði. Eins eigum von á nýjum InSAR myndum síðar í mánuðinum og þær eru hluti af þeim gögnum sem við munum vinna úr til að átta okkur betur á þróuninni á svæðinu við Svartsengi”, segir Michelle.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica