Fréttir
Stjorn_samradsvettvangs
Fulltrúar í stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna loftslagsbreytinga.

Stýrihópur um landáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum hefur störf

Viðamikið og reglubundið samráð mikilvægt í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum  

29.11.2022

Í októbermánuði tóku tveir hópar tengdir aðlögun að loftslagsmálum til starfa í umboði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Annars vegar er um að ræða stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hins vegar stýrihóp um landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum.  

Anna Hulda Ólafsdóttir hefur verið skipuð fulltrúi Veðurstofu Íslands í báðum hópum en hún mun sinna formennsku í stjórn samráðsvettvangsins fyrsta árið. Anna Hulda er skrifstofustjóri Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar og mun skrifstofan sjá um að starfrækja samráðsvettvanginn til framtíðar.  

„Þegar kemur að loftslagsbreytingum hefur megináherslan hingað til verið lögð á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Áhrifa loftslagsbreytinga er þó farið að gæta í sífellt meira mæli og ljóst að þau verða okkur áskorun til framtíðar. Aðlögun að loftslagsbreytingum er því að verða stöðugt mikilvægari“, segir Anna Hulda. „Með skipan þessara hópa hefur verið stigið mikilvægt skref í þá átt að efla starfsemi sem tengist aðlögun að loftslagsbreytingum“. 

Samráðsvettvangur um þekkingarsköpun

Samráðsvettvangur um þekkingarsköpun skal þjóna sem rými fyrir fundi, vinnustofur og fræðslu vegna rannsókna og greininga á áhrifum loftslagsbreytinga. Honum er ætlað að undirbyggja vinnu Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar við samantekt gagna og upplýsinga frá fagstofnunum og öðrum samstarfsaðilum og miðlun þeirra til almennings og hagaðila m.a. með vefþjónustum, skýrslum og fræðslu. Með stofnun vettvangsins er verið að fylgja eftir stefnu stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum og svara kalli Loftslagsráðs um að bæta samvinnu og skýra farvegi fyrir samskipti til þess að nýta þá þekkingu sem til staðar er.  

Auk Önnu Huldu sitja í stjórn vettvangsins fulltrúar frá Samstarfsnefnd háskólastigsins, Stofnun Sæmundar fróða, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Embætti landlæknis. Stjórnin hefur fundað á tveggja vikna fresti frá því um miðjan október í húsakynnum Veðurstofu Íslands þar sem fundarmenn hafa stillt saman strengi, rætt framtíðarsýn vettvangsins og áherslumál.  

Af stjórnarmönnum að dæma er um mikilvægt málefni að ræða, þá sérstaklega þá þverfaglegu nálgun sem vettvangurinn skapar og miðlunarmöguleika efnis á milli fagfólks og notenda. Samkvæmt Önnu Huldu eru „vonir fulltrúa til vettvangsins þær að samhliða öflun og miðlun gagna um loftslagsbreytingar og aðlögun verði unnt að koma auga á gloppur sem fylla þarf upp í hvað varðar þekkingu á málefninu“. 

Stýrihópur hélt sinn fyrsta fund

Stýrihópur um landáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum hélt sinn fyrsta fund þann 26. október. Formaður stýrihópsins er Jens Garðar Helgason en auk Veðurstofu Íslands eiga þar fulltrúa Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Ungir umhverfissinnar.  

Hlutverk stýrihópsins er að gera tillögu að vinnulagi og efnistökum við gerð áætlunarinnar í samræmi við stefnu stjórnvalda. Vinna stýrihópsins felur í sér viðamikið og reglubundið samráð og samstarf við helstu fag- og hagaðila og mun stýrihópurinn starfa með ráðgjafa sem falið verður að halda sértækar vinnustofur fyrir hvern geira og/eða málaflokk. Fyrsta vinnustofan var haldin í lok nóvember og var hún mjög vel sótt. Á málstofunni var áhersla lögð á náttúruvá og var meginviðfangsefnið að auka skilning og yfirsýn yfir það hvaða mögulegu aðlögunaraðgerðir kunna að falla að náttúruvárhluta stefnu stjórnvalda. Dr. Sigrún Karlssdóttir, náttúruvárstjóri Veðurstofu Íslands, leiddi vinnustofuna. 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica