Fréttir
Svínafellsjökull

Sprunga ofan Svínafellsjökuls og mögulegt berghlaup

9.5.2018

Haustið 2014 fundu bændur á Svínafelli sprungu ofan Svínafellsjökuls, í norðanverðri hlíðinni milli Skarðatinds og Svarthamra á ofanverðri Svínafellsheiði. Hlíðin á þessum stað er brött og rís um 400 m yfir yfirborð jökulsins. Í vor uppgötvaðist önnur sprunga sem liggur skáhallt niður vesturhlíð Svínafellsheiðar. Líklegt þykir að þessar sprungur tengist og að þær séu mögulega hluti af sömu sprungunni í berggrunni. Ef sprungurnar eru tengdar, þá er sá hluti hlíðarinnar sem hreyfist um 1 km2 að flatarmáli og gróft fyrsta mat gefur til kynna að rúmmál efnisins gæti verið yfir 60 milljón m3. Ekki er hægt að útiloka að allt stykkið hlaupi fram í heilu lagi í stóru berghlaupi niður á jökulinn, en einnig gæti það hrunið í smærri hlutum. Nákvæmur aldur sprungnanna er ekki þekktur, þær sjást ekki á loftmynd frá 2003 en eru greinilegar á landlíkani frá 2011. Þær hafa því líklega myndast og orðið sýnilegar á yfirborði einhvern tíma á þessu tímabili.

Staðsetning sprungunnar sem fannst árið 2014 efst á norðurhlíð Svínafellsheiðar ofan við austanverðan Svínafellsjökul. (Kort frá Daniel Ben-Yehoshua 2016, loftmynd frá Loftmyndum ehf).

Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur frá Háskóla Íslands, hefur unnið að kortlagningu og mælingum á svæðinu. Árið 2016 kom hann fyrir fastmerkjum í föstu bergi sitt hvoru megin við sprunguna sem uppgötvaðist haustið 2014 í þeim tilgangi að mæla gliðnun hennar. Mælingar haustið 2017 sýndu að  sprungan hafði gliðnað um 0,4–1,3 cm á einu ári.

Koparnöglum var komið fyrir sitt hvoru megin sprungunnar og mælt var á milli þeirra (ljósm. Sigurður Ragnarsson 2017)

Frekari mælingar nauðsynlegar til að leggja mat á framvindu á svæðinu

Nauðsynlegt er talið að vakta svæðið og gera mælingar í þeim tilgangi að meta hraða og eðli hreyfingarinnar og munu Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands vinna að því í sameiningu. Snemmsumars verður komið fyrir síritandi gliðnunarmælum í sprungunni og síritandi GPS tæki á stykkinu sem er á hreyfingu. Þá verður hægt að mæla hraða gliðnunarinnar jafnóðum og fylgjast með því hvort hreyfingin herðir á sér eða hvort stökk eigi sér stað. Einnig stendur til að gera nákvæm landlíkön af svæðinu með reglulegu millibili til þess að greina hreyfingu alls svæðisins. Tilgangurinn er að meta hvort stykkið framan við sprungurnar hreyfist í einu lagi, eða hvort það er uppbrotið, og einnig hvar mögulegur brotflötur liggur. Gervitunglagögn af svæðinu verða skoðuð í sama tilgangi.

Mælingarnar munu hjálpa til við að leggja mat á líklega framvindu á svæðinu. Ef hætta er talin vera á stóru berghlaupi þarf að meta mögulega skriðlengd þess og áhrifasvæði. Í haust verður gefin út skýrsla um niðurstöður mælinga sumarsins og fyrsta mat á stöðunni.

Á Svínafellsjökli hefur verið talsverð umferð ferðamanna allt árið um kring. Almannavarnir vilja benda á að við aðstæður eins og hér um ræðir þurfi að gæta sérstakrar varúðar í ferðum á jökulinn vegna hættu á skriðuföllum.

Um berghlaup og jökla

Samfara hlýnandi loftslagi á undanförnum árum og áratugum hafa skriðjöklar hopað og þynnst mikið hér á landi. Þegar jöklarnir hopa standa oft eftir brattar hlíðar ofan skriðjökla sem kunna að vera óstöðugar þegar aðhaldi jökulsins sleppir. Þær geta því hrunið niður á jöklana, stundum í miklum berghlaupum. Slík hlaup eru þekkt víða um heim. Hér á landi hafa þrjú stór berghlaup fallið á jökla á síðastliðinni hálfri öld. Árið 1967 féll stórt berghlaup ofan Steinsholtsjökuls, sem gengur norður úr Eyjafjallajökli, árið 1976 féll berghlaup niður á Jökulsárgilsjökul í Mýrdalsjökli og árið 2007 féll berghlaup á Morsárjökul í sunnanverðum Vatnajökli. Berghlaup sem falla á jökla geta brotið upp jökulís og hrifið með sér vatn úr jökullónum þannig að úr verður hlaup sem er sambland af jarðefnum, vatni og ís. Slík hlaup geta í sumum tilfellum dreift mikið úr sér og ferðast langar leiðir.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica