Fréttir
Deildarmyrkvi
Deildarmyrkvi

Sólmyrkvi 11. ágúst 2018

Deildarmyrkvi á sólu frá Íslandi

9.8.2018

Laugardagsmorguninn 11. ágúst 2018 milli kl. 08 og 09 sést deildarmyrkvi á sólu frá Íslandi, þar sem ský skyggja ekki á sólina.  Í deildarmyrkva gengur tunglið fyrir hluta sólar.  Við hámark á þessum myrkva hylur tunglið 17-25% af þvermáli sólar séð frá Íslandi.  

Í Reykjavík hefst myrkvinn kl. 08:10, en þá er sól 18° yfir sjónbaug.  Hámarki nær deildarmyrkvinn þar kl. 08:44, en þá er sólin komin 21° yfir sjónbaug.  Þá hylur tunglið 20% af þvermáli sólar og birtuminnkun er 10%.  Deildarmyrkvanum lýkur í Reykjavík kl. 09:19 en þá er sólin komin 25° yfir sjónbaug.  Myrkvinn er mestur nyrst á landinu þar sem tungl nær að hylja 25% af þvermáli sólar og veldur 15% birtuminnkun.  Þessi sólmyrkvi sést hvergi á jörðinni sem almyrkvi.

Viðvörun!
Til að forðast varanlegar augnskemmdir er nauðsynlegt að nota sérstök sólmyrkvagleraugu við skoðun á sólinni.

Þrjár gerðir sólmyrkva

Almennt er sólmyrkvum skipt í þrjár gerðir: Deildarmyrkva, en þá fer tunglið einungis fyrir hluta sólarinnar; Hringmyrkva, en þá er tunglið svo langt frá jörðu að það nær ekki að hylja alla sólina þótt það sé fyrir henni miðri; Almyrkva, en þá nær tunglið að hylja alla sólina og nær að myrkva athugunarstað á jörðu.

Hálfum mánuði fyrir sólmyrkvann varð tunglmyrkvi, 27. júlí 2018, en hann sást ekki frá Íslandi.  Eftir átta ár, 12. ágúst 2026, gengur almyrkvi á sólu yfir Ísland.  Síðast sást almyrkvi á Íslandi 1954 og næsti þar á eftir verður árið 2196.

Deildarmyrkvi

Deildarmyrkvi á sólu þar sem tungl hylur um 20% af þvermáli sólar.  Ljósmyndin er tekin af Þórði Arasyni í Corvallis í Oregon í Bandaríkjunum 21. ágúst 2017 kl. 09:20 (að staðartíma) en klukkustund síðar varð þar almyrkvi á sólu.

Höf: Þórður Arason, 31.07.2018


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica