Fréttir
Lofthjúpurinn yfir Norður-Atlantshafi. Þegar COVID-19 faraldurinn náði hámarki í apríl síðastliðnum dróst dagleg losun á koldíoxíð, CO2, saman um allt að 17% miðað við árið áður. Álíka samdráttur í losun hefur ekki mælst.

Sögulegur samdráttur í losun dugar ekki til

Mælingar á loftslagsbreytingum hafa riðlast vegna COVID-19 faraldursins

9.9.2020

Tímabundinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda vegna áhrifa COVID-19 faraldursins hefur ekki dregið úr styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Útlit er fyrir að meðalhiti síðustu fimm ára á jörðinni verði sá hæsti frá því að mælingar hófust. Meðalhitinn árin 2016-2020 mun fara 1.1 °C yfir viðmiðunarmörk og verða hærri en meðalhiti áranna 2011-2015. Ef fram fer sem horfir í losun gróðurhúsalofttegunda mun samfélögum jarðar ekki takst að halda hlýnun jarðar innan marka Parísarsamkomulagsins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu „United in Science“ sem er samstarfsvettvangur nokkurra stofnanna undir forystu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO. Þetta er í annað sinn sem slík skýrsla kemur út. Í skýrslunni er að finna samantekt á nýjustu rannsóknum og gögnum tengdum loftslagsbreytingum sem nýtast á stjórnvöldum til aðgerða gegn loftslagsbreytingum eða aðlögunar vegna áhrifa þeirra á samfélög.

Samdráttur sem á sér ekki fordæmi – en dugar ekki til

Þegar COVID-19 faraldurinn náði hámarki í apríl síðastliðnum dróst dagleg losun á koldíoxíð, CO2, saman um allt að 17% miðað við árið áður. Álíka samdráttur í losun hefur ekki mælst. Heildarsamdráttur í losun á þessu ári mun hinsvegar verða á bilinu 4-7%, allt eftir því hver framvinda faraldursins verður.

“Útilit er fyrir að tímabundin samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda hluta ársins 2020 muni einungis hafa lítil áhrif á heildarlosun ársins, og litlu breyta fyrir styrk gróðurhúsalofttegunda í lofhjúpnum, en styrkur hefur verið að aukast frá iðnbyltingu", segir Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands. "Það þarf langvarandi samdrátt losunar samfara aðgerðum til að fanga og binda kolefni úr lofthjúpnum til þess að stöðva loftslagsbreytingar“, segir Halldór.

COVID-19 hefur áhrif á rannsóknir á loftslagsbreytingum

Faraldurinn hefur orðið til þess að mikilvægar mælingar sem fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga á jörðina hafa riðlast. Til að mynda hefur orðið að fresta leiðangrum skipa sem mæla ástand sjávar og faraldurinn mun einnig riðla mælingum á jöklum og sífrera á þeim tíma þegar bráðnun lýkur ár hvert. 

Nánari upplýsingar úr skýrslu „United in Science“ má finna hér.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér (PDF).


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica