Fréttir
Ársfundurinn var fjarfundur sendur út frá Norðurljósasal Hörpu. (Ljósmynd: Veðurstofan/Haukur Hauksson)

Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar komið á fót á Veðurstofu Íslands

Skrifstofan er mikilvægur vettvangur til að styðja stefnu stjórnvalda um aðlögun vegna loftslagsbreytinga sem nú er í smíðum

5.5.2021

Ársfundur Veðurstofu Íslands val haldinn í morgun undir yfirskriftinni „Brú milli vísinda og samfélags – Leiðin til aðlögunar vegna loftslagsbreytinga.

Atburðir undanfarinna missera hafa leitt í ljós hversu viðkvæmt samfélagið er fyrir náttúruvá og að þegar slæmar sviðsmyndir ganga eftir skipta innviðir, stofnanaumgjörð og undirbúningur lykilmáli. Loftslagsbreytingar eru náttúruvá og þeim fylgja margháttaðar áskoranir og ljóst er að um langt skeið verður þörf á vöktun á umfangi þeirra og víðtækri aðlögun að áhrifum þeirra. Ef samfélagið mætir þessum áskorunum á skipulegan hátt má draga úr því tjóni sem loftslagsbreytingar valda, og nýta þjóðinni til hagsbóta þær breytingar sem gefa tilefni til slíks. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði ársfundinum og þar þakkaði hann starfsfólki Veðurstofunnar fyrir vel unnin störf á síðustu misserum við að takast á við ólíkar áskoranir sem fylgja þeirri náttúruvá sem við búum við á Íslandi. Ráðherra talaði um stefnu stjórnvalda til að takast á við loftslagsbreytingar. Á fundinum tilkynnti Guðmundur Ingi að ákveðið hefði verið að veita fjármagni til að koma á fót skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.

Nýja skrifstofan verður „brú milli vísinda og samfélags“

Með stofnun skrifstofu um loftslagsþjónustu og aðlögun verður til vettvangur sem mun þjónusta brýn verkefni á sviði aðlögunar, leggja til sviðsmyndir að loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, auk vöktunar á afleiðingum. Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar verður vettvangur  fyrir vísindasamfélagið, fagstofnanir og hagaðila hvað varðar aðlögun auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og sinna miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings.

„Það að takast á við loftslagsbreytingar er stærsta verkefni samfélagsins um ókomin ár og vöktun, rannsóknir og miðlun upplýsinga hvað varðar loftslagsbreytingar er að verða sífellt stærri og mikilvægari þáttur í hlutverki Veðurstofunnar", sagði Árni Snorrason í ræðu sinni á ársfundinum.  "Á sama hátt og við bregðumst við þegar náttúruvá á borð við eldgos á Reykjanesskaga dynur yfir eða ofanflóð á Seyðisfirði, þarf samfélagið að beita réttum aðgerðum við að vakta og takast á við loftslagsbreytingar. Þær aðgerðir þurfa að byggja á vísindalegum grunni og þá tölum við gjarnan um að mynda “brú milli vísinda og samfélags”, sagði Árni.

Sameiginlegur vettvangur fagstofnanna og hagaðila

Veðurstofa Íslands mun veita skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar forystu, en skrifstofan verður sameiginlegur vettvangur háskólasamfélagsins, Rannís, fagstofnana og hagaðila. Veðurstofan, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Skipulagstofnun eru þær fagstofnanir sem hafa hvað skýrast hlutverk þegar kemur að aðlögun vegna loftslagsbreytinga og er það byggt á niðurstöðum Loftslagsskýrslunnar frá 2018. Á þessum stofnunum er fjöldi starfsfólks sem sinnir vöktun og rannsóknum vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Þeirra framlag mun mynda grunninn að þeim rannsóknum, mælingum, fróðleik og öðrum gögnum sem skrifstofan mun miðla og nýta til að sinna hlutverki sínu. Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar verður því umgjörð fyrir samvinnu vísindasamfélagsins, vísindanefndar og hagaðila.

Loftslagsbreytingar og þjóðarhagur

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands flutti erindi á fundinum þar sem hún meðal annars fór yfir hvernig loftslagsaðgerðir móta áhrif á þjóðarhag. „Ef viðbrögð við loftslagsbreytingum eru vandlega ígrunduð og byggja á upplýstri og samhæfðri ákvarðanatöku geta þau haft jákvæð áhrif á þjóðarhag. En það sé mikilvægt að hefjast handa strax þar sem bæði mótvægisaðgerðir og aðlögun taka tíma“ sagði Brynhildur meðal annars í erindi sínu. Hún lagði einnig áherslu á að vísindi aðlögunar gengu þvert á fræðasvið.

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands velti fyrir sér spurningunni; „Hvað gerist í náttúrinni sem við þurfum að aðlagast?“. Hann sagði að það séu miklar breytingar sjáanlegar á veðurfari síðusta áratuga sem hafa haft mikil áhrif á náttúrufar á landi og í hafi og á því verði áframhaldandi þróun á næstu áratugum. Sumar afleiðingar má flokka sem náttúruvá. „Viðbrögð við þessari nýju vá þarf að skipuleggja líkt og áhættustýringu við annarri náttúruvá“, sagði Halldór í erindi sínu og sagði að veruleg þörf væri á aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs stýrði pallborðsumræðum með fulltrúum sveitarfélaga, stofnanna og fyrirtækja fá þeirra sýn á áskoranir samfélagsins og nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Þátttakendur í pallborðinu voru sammála um að áskoranir vegna loftslagsbreytinga væru miklar og fjölbreyttar og að skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar væri mikilvæg til að samþætta aðgerðir innan samfélagsins.

Í pallborðinu voru (frá vinstri): Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, Eygerður Margrétardóttir, sérfræðingur í umhverfis og úrgangsmálum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hjálmar A. Sigþórsson, framkvæmdastjóri TM trygginga, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Þor­kell Lind­berg Þór­ar­ins­son, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs stýrði umræðum (Ljósmynd: Veðurstofan/Haukur Hauksson)

Loftslagsþjónustu fyrir samfélagið

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar sagði að það hafi verið unnið að þessari hugmynd um skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hér á Veðurstofunni í nokkurn tíma. "Hjá systurstofnunum okkar erlendis eru þetta svokölluð Climate Service Centres – sem er þá meðal annars „loftslagsþjónusta“, eins og við köllum það, sem styður aðlögun þessara ríkja. Markmiðið með þessari skrifstofu er ekki síst að ná fram meiri virðisauka í þeirri þekkingu sem liggur í fagstofnunum og miðla henni af meiri krafti en áður", sagði Árni.

Nú er vinna á lokametrunum við gerð hvítbókar eða tillögu að stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum. Í þeirri vinnu hefur komið fram að  ólíkar stofnanir hafa mikilvægt hlutverk hvað varðar aðlögun vegna loftslagsbreytinga. Þannig að hér er líka tækifæri að skerpa áherslurnar í starfi ýmissa fagstofnanna bæði á sviði náttúru- og félagsvísinda  til þess að auka framboð á heilstæðri loftslagsþjónustu fyrir samfélagið.

Alþjóðlegur vettvangur samstarfs er mikilvægur þegar kemur að aðlögun

Veðurstofa Íslands er tengiliður (National Focal Point) við Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) í umboði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC eru vísindalegar forsendur fyrir þeim alþjóðlegu aðgerðum sem farið hefur verið í til að uppfylla Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans (Kyoto og Parísarsamninginn). Einnig leggja þær vísindalegan grunn að áhættumati gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga og aðlögun að þeim. Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar er enn fremur ætlað að vera tengiliður við alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðaveðurfræðistofnunina (WMO) og ESB Kópernikusaráætlunina um vöktun jarðar.

Skýrslur IPCC leggja jafnframt ákveðinn grunn að skýrslum Vísindanefndar en sú nýjasta kom út á vormánuðum 2018: Loftslagsbreytingarog áhrif þeirra á Íslandi . Í þeirri skýrslu var farið yfir umfang breytinga og ummerki þeirra hér á landi á liðnum áratugum og auk þess fjallað um líklegar breytingar og afleiðingar þeirra á næstu áratugum. Nýrri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar er ætlað að styrkja starf Vísindanefndar og sinna miðlun og útgáfu á skýrslum nefndarinnar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi.

Hlekkur á upptöku af ársfundinum á YouTube.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica