Fréttir
Skjálftinn átti upptök um 6,8 km vestan við Kleifarvatn

Skjálfti af stærð 5,6 á Reykjanessskaga

Sá stærsti sem mælst hefur á Reykjanesskaganum frá því árið 2003

26.10.2020

Uppfært 26. október, kl. 15.30

Verulega hefur dregið úr skjálftavirkninni á Reykjanesskaga síðustu daga. Um 180 skjálftar hafa mælst síðustu tvo sólarhringana og enginn skjálftanna hefur verið yfir 2,2 að stærð. Til samanburðar má nefna að fyrsta sólarhringinn eftir að skjálfti upp á 5,6 varð í Núpshlíðarháls mældust um 1700 skjálftar á svæðinu. „Það er erfitt að fullyrða hvort að hrinunni sé að ljúka eða að einungis hafi dregið tímabundið úr virkni“, segir Einar Hjörleifsson, sérfræðingur á náttúruvárvakt Veðurstofunnar. „Miðað við fjölda og stærð skjálfta síðustu daga er líklegt að virknin á svæðinu fari að nálgast það sem kölluð er eðlileg bakgrunnsvirkni. En eins og íbúar á Reykjanesskaganum þekkja þá hefur verið mikil skjálftavirkni á öllum skaganum þetta árið þar sem miðpunktur virkninnar hefur verið að færast á milli svæða. Þessi virkni er hluti af lengri atburðarás, en það er erfitt að spá fyrir um hvert framhaldið á henni verður,“ segir Einar.


Uppfært 23. október, kl. 13.30

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið með minna móti síðasta sólarhringinn. Upp úr klukkan 9 í morgun mældist skjálfti upp á 2,6. Erfitt er að meta hvort að þessari hrinu sem mest hefur verið bundin við svæði vestan við Kleifarvatn sé að ljúka. Nú er fylgst náið með því hvort virknin færist austar til Brennisteinsfjalla, en sagan ber slíkt með sér.

Hrinan, sem nú er í gangi, er túlkuð sem hluti af lengri atburðarás sem hófst á Reykjanesskaganum í enda árs 2019 og hefur náð allt frá Eldey fyrir vestan, og að Krýsuvík fyrir austan. Þessi virkni, sem samanstendur af bæði jarðskjálfavirkni og mögulegum kvikuinnskotum, getur verið löng og kaflaskipt. Miðpunktur virkninnar getur færst á milli svæða á skaganum, en eftir Reykjanesskaganum og Reykjaneshrygg liggja flekaskil og ganga eldstöðvakerfin, Eldey, Reykjanes, Svartsengi og Krýsuvík þvert á þessi skil.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum:

  • Skriður og grjóthrun geta átt sér stað eftir stóra jarðskjálfta, líklegast á svæðum með óstöðugar hlíðar, bratta klettarveggi og laust efni, t.d. í nágrenni Kleifarvatns.
  • Skjálftar af stærð M5,5-6 geta átt sér stað á Reykjanesskaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða m.a. á höfuðborgarsvæðinu.
  • Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða rólegur vindur.

Veðurstofan mun halda áfram að fylgjast náið með þróun mála.


Uppfært 21. október, kl. 16.15

Jarðskjálftavirkni er enn yfirstandi þó dregið hafi örlítið úr henni og hafa nokkrir skjálftar stærri en M3 mælst í dag. Ekki er hægt að útiloka annan stóran skjálfta og er því enn aukin hætta á grjóthruni í bröttum hlíðum á Reykjanesskaganum og einnig í öðrum fjallshlíðum á suðvesturhorninu.

Gróthruns varð vart á fjórum stöðum í nágrenni við upptök jarðskjálftans á Reykjanesi í gær, við Djúpavatnsleið, Keili, Trölladyngju og Vatnsskarð. Í sumum þessara tilvika mátti litlu muna að slys yrðu á fólki. Einnig eru vísbendingar um að sprungur við Krýsuvíkurbjarg hafi gliðnað og að nýjar hafi myndast.

Á áhrifasvæði jarðskjálftanna eru margar vinsælar gönguleiðir og nú þegar vetrarfrí er að hefjast í skólum er líklegt að fjölskyldur nýti sér næstu daga til útivistar. Fólk er beðið um að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum og að fara að öllu með gát. Tilkynna má grjóthrun eða skriður inn til Veðurstofunnar með því að senda okkur skilaboð á Facebook eða hringja í 522-6000 og biðja um náttúruvárvakt Veðurstofunnar. Skriðusérfræðingar Veðurstofunnar eru við störf á vettvangi næstu daga til að kortleggja afleiðingar skjálftanna og meta hættuna á frekara grjóthruni og skriðum.

Skjalftar_gonguleidir

Staðsetning stærstu skjálftanna í hrinunni sem hófst 20. október. Nokkrar af vinsælustu gönguleiðunum á Reykjanesskaga eru innan áhrifasvæðis skjálftanna.

Uppfært 21. október, kl. 10.15

Um 1700 eftirskjálftar hafa mælst í skjálftahrinunni sem hófst í gær. Hrinunni er ekki lokið og nú í morgun mældust tveir skjálftar í Fagradalsfjalli annar kl. 06:05 af stærð 3,7 og sá síðari kl. 06:23 af stærð 3,8. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist í byggð á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð.

Við viljum minna íbúa innan áhrifasvæðis skjálftanna að kynna sér vel að viðbrögð við jarðskjálftum og varnir gegn þeim sem finna má á vef Almannavarna.


Uppfært 20. október, kl. 22.20

Nú hafa um 1.000 skjálftar mælst á Núpstaðahálsi og við Fagradalsfjall það sem af er degi og hafa 13 skjálftar yfir 3.0 að stærð verið staðfestir. Áfram má búast við skjálftavirkni á svæðinu. Veðurstofunni hefur borist talsvert af tilkynningum um grjóthrun á Reykjanesi og er ferðafólki bent á að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum á meðan líkur eru á áframhaldandi skjálftavirkni. Eins hafa borist tilkynningar um aukna gaslykt í nágrenni Grænavatns á Núpstaðahálsi í tengslum við jarðskjálftana. Veðurstofan mun áfram fylgjast vel með virkninni á svæðinu.

Uppfært 20. október, kl. 18.00

Enn mælist skjálftavirkni á Núpshlíðarhálsi og í Fagradalsfjalli.  Síðan að stærsti skjálftinn reið yfir kl. 13:43 í dag hafa mælst tveir skjálftar stærri en M4 og um 10 skjálftar af stærð M3-M4, nú síðast kl. 17:23 þegar skjálfti M3.3 varð norðarlega í Núpshlíðarhálsi. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Í heildina hafa ríflega 400 skjálftar mælst á svæðinu.

Færsla kl. 14.20

Rétt um kl. 13.43 í dag mældist skjálfti með upptök á Núpshlíðarhálsi, um 5 km vestan við jarðhitasvæðið í Seltúni. Stærð skjálftans er M5.6. Skjálftinn fannst vel um mest allt land og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Hátt í 250 eftirskjálftar hafa mælst, þeir stærstu núna milli 15:27 og 15:32. Sá stærsti var M4.1 að stærð, aðrir á milli 3.0 og 3.8 að stærð. Engin merki eru um gosóróa.

Skjálftinn í dag er sá stærsti sem mælst hefur á Reykjanesskaganum frá því árið 2003.

„Það er óstöðugleiki á svæðinu og það má allt eins búast við því að það komi fleiri skjálftar sem koma til með að finnast á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu“, segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunnar á Veðurstofunni, í samtali við RÚV í dag.

Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaganum allt þetta ár. Í júlí í sumar mældist skjálftar um og yfir 5 af stærð við Fagradalsfjall sem er vestan við upptök skjálftans í dag. Saga jarðskjálftavirkninnar á Reykjanesskaganum sýnir að snarpir skjálftar hafa orðið í tengslum við meiriháttar jarðskjálftahrinur. Því er ekki hægt að útiloka að stærri jarðskjálftar fylgi hrinunni nú og talið er að þeir stærstu gætu orðið u.þ.b. 5.5 - 6 að stærð. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni á höfuðborgarsvæðinu.

Líkt og áður hefur komið fram í fréttum af skjálftahrinunni á Reykjanesskaganum eru íbúar hvattir til að tryggja innanstokksmuni til að forðast tjón.

Fréttin verður uppfærð



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica