Fréttir
Forsida26032024
Mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar tekin um hádegi 10. mars 2024 sem horfir á suðurhluta Öskju.

Skjálftahrina í norðvesturhluta Öskju í gær

Áframhaldandi landris

26.3.2024

Í gær varð skjálftahrina í norðvesturhluta Öskju og mældust tæplega 30 skjálftar frá kl. 8 um morguninn til hádegis. Stærsti skjálftinn mældist 3,5 að stærð og varð á um 5 km dýpi. Einnig mældust þrír skjálftar frá 2,0 til 2,5 að stærð, en aðrir skjálftar voru minni. Jarðskjálftavirkni hefur lítið breyst á milli mánaða og verið nokkuð stöðug undanfarið þar til í gær. Síðast mældust skjálftar yfir 3 að stærð í janúar 2022 og október 2021.  

Kort26032024askja

Kortið sýnir staðsetningu skjálftanna í gær 25. Mars, á norðvesturbrún Öskju. Bláir ferningar sýna staðsetningar á GPS mælistöðvum.

Aflögun í Öskju hefur verið stöðugt í gangi í um tvo ár frá því í lok sumars 2021. Síðasta haust dró þó verulega úr hraða þess eins og greint var frá í frétt. Mælingar frá því í lok síðasta árs sýna hinsvegar að hraði aflögunarinnar hefur aftur aukist en er þó minni en hann var fyrir haustið 2023. Mælingar næstu daga og vikur á aflögun munu leiða það í ljós hvort hraðinn hafi aukist aftur og verður áfram fylgst náið með þróun mælinga á svæðinu.

TANC-plate_since-20210719

Grafið sýnir gögn frá GPS mælistöðinni Tanna sem staðsett er á norðurbrún Öskju. Efsta grafið sýnir hreyfingu í norður, grafið í miðjunni sýnir austur hreyfingu og neðsta grafið lóðrétta hreyfingu.

Gervitunglamynd frá 19. Mars sýnir að hefðbundið vetrarástand ríkir á svæðinu og er vatnið þakið ís að utan skildum tveimur svæðum sem eru ætíð opin vegna jarðhitavirkni. Í febrúar fyrir um ári síðan varð Öskjuvatn íslaust sem var óvenjulegt svo snemma árs. Undir lok síðasta árs setti Veðurstofan upp vefmyndavél inni í Öskju sem horfir á suðurhluta hennar. Myndavélin sendir myndir á 10 mínútna fresti sem sýna aðstæður inni í Öskju. Nýleg mynd tekin á góðviðrisdegi þar sem umhverfið sést vel fylgir fréttinni.   

Gervitunglamynd26032024

Gervitunglamynd sem sýnir aðstæður í Öskju 19. mars 2024. Sjá má íslaus svæði við vesturströnd Öskjuvatns þar sem er þekkt jarðhitasvæði.



Nánari upplýsingar um Öskju má finna í Íslensku Eldfjallavefsjánni.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica