Fréttir
Fulltrúar Árborgar og Veðurstofunnar í vettvangsferð á Selfossi í morgun þar sem skoðaðar voru mögulegar staðsetningar veðurstöðvarinnar. Frá vinstri: Jón Tryggvi Guðmundsson, framkvæmda- og veitustjó
Fulltrúar Árborgar og Veðurstofunnar í vettvangsferð á Selfossi í morgun þar sem skoðaðar voru mögulegar staðsetningar veðurstöðvarinnar.

Sjálfvirk veðurstöð verður sett upp á Selfossi

Aðgengi að staðbundnum veðurgögnum liður í að bæta þjónustu og rekstur sveitarfélagsins

4.10.2018

Í morgun var undirritaður samningur á milli Veðurstofu Íslands og sveitarfélagsins Árborgar um rekstur veðurstöðvar á Selfossi. Veðurstöðin, sem verður staðsett í jaðri íbúabyggðarinnar, mun mæla lofthita, vindátt og vindhraða. Einnig verða gerðar mælingar á loftraka og úrkomu. „Við erum mjög ánægð með þessi skref sem við erum að stíga í samvinnu við Veðurstofuna. Aðgengi að staðbundnum veðurgögnum er liður í því að bæta þjónustu við íbúa sem og rekstur sveitarfélagsins. Gögn frá þessari stöð hafa áhrif á gæði þeirra ákvarðana sem við tökum, er snúa að þáttum í rekstri sveitarfélagsins sem eru háðir veðri. Þá er ég kannski sérstaklega að horfa til fráveitumála“, segir Tómas Ellert Tómasson, formaður framkvæmda- og veitustjórnar sveitarfélagsins Árborgar.

Veðurstofa Íslands mun sjá um varðveislu gagna úr veðurstöðinni, reka gagnagrunn þeim tengdum og halda honum við. Gögnin úr veðurstöðinni á Selfossi verða birt á vef Veðurstofunnar og þar með aðgengileg almenningi. Stefnt er að því að veðurstöðin verði komin í gagnið á fyrri hluta næsta árs.

Aroborg_2

Óðinn Þórarinnsson, framkvæmdastjóri athugana- og tæknisviðs Veðurstofunnar, Jón Tryggvi Guðmundsson framkvæmda- og veitustjóri og Tómas Ellert Tómasson, formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, velta fyrir sér heppilegri staðsetningu veðurstöðvarinnar. Ljósmynd: Guðrún Nína PetersenAðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica