Fréttir
Mynd24042024
Myndin er tekin í Elliðaárdalnum. (Ljósmynd: Svava Björk Þorláksdóttir/Veðurstofa Íslands)

Síðasti vetrardagur er í dag

Íslenski veturinn 2023 til 2024 sá kaldasti síðan 1998-99.

24.4.2024

Íslenski veturinn, frá fyrsta vetrardegi 28. október 2023 til og með 24. apríl 2024 var kaldur. Meðalhiti á landsvísu var -0,2 stig, sem er -1,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Íslenski veturinn hefur ekki verið eins kaldur síðan veturinn 1998-99. Að tiltölu var kaldara á norðanverðu landinu. En veður var almennt gott. Það var hægviðrasamt og illviðri tiltölulega fátíð. Veturinn var óvenjulega þurr og sólríkur suðvestanlands og er veturinn sá sólríkasti í Reykjavík frá upphafi mælinga. 

Meðalhiti íslenska vetrarins í Reykjavík var 0,8 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 en 0,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Veturinn í Reykjavík var álíka kaldur í fyrra. Á Akureyri var meðalhiti íslenska vetrarins -1,6 stig sem er 1,7 stigum undir meðallagi 1991 til 2020, en 2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri hefur ekki verið eins kalt síðan veturinn 1998-99.

Veturinn var óvenjuþurr í Reykjavík. Úrkoman mældist um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman um 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Alhvítir dagar í Reykjavík í vetur voru 48, sem er 5 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri var 91 alhvítur dagur sem er 2 dögum færri en að meðaltali 1991 til 2020.

Það var óvenjulega sólríkt í Reykjavík og var veturinn sá sólríkasti þar frá upphafi mælinga. Sólskinsstundirnar mældust 558 sem er um 180 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundir vetrarins 308 sem er um 80 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica