Fréttir
Anna Hulda Ólafsdóttir talar fyrir hönd Íslands á fundi fulltrúanefndar Milliríkjanefndarinnar sem haldinn var í Sófíu dagana 27. júli til 2. ágúst 2024. (Ljósmynd: ENB, IISD)

Sextugasti og fyrsti fulltrúafundur Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Á dagskrá voru meðal annars drög að útlínum sérskýrslu um loftslagsbreytingar í borgum

7.8.2024

Sextugasti og fyrsti fulltrúafundur Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) var haldinn í Sofia, Búlgaríu, frá 27. júlí til 2. ágúst 2024. Fulltrúar 195 aðildarríkja ræddu mikilvæga þætti er varða gerð matskýrslna fyrir sjöunda tímabilið, en Milliríkjanefndin gefur út reglulega ítarlegar matsskýrslur (e. assessment reports) þar sem farið er vel yfir þá vísindalegu þekkingu sem til er hverju sinni um loftslagsmál.

Það má segja að starf nefndarinnar sé keimlíkt starfi íslensku vísindanefndarinnar um loftslagsbreytingar að því leiti að nefndin stendur ekki fyrir eigin rannsóknum heldur er hlutverk hennar að safna saman, rýna og meta vísindalegar rannsóknir sem varða loftslagsbreytingar, bæði á sviði raun- og náttúruvísinda og félags- og hugvísinda.

Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Á dagskrá voru meðal annars tímasetning skýrslugerðar og drög að útlínum sérskýrslu um loftslagsbreytingar í borgum og skýrslu um aðferðafræði sem snýr að leiðbeiningum fyrir losunarskráningar þjóða.

Á fundinum voru samþykkt drög að tveimur mikilvægum skýrslum:

  • Sérskýrslu um loftslagsbreytingar og borgir (e. Special Report on Climate Change and Cities, SRCCC): Mun fjalla um þróun í borgum, áskoranir og lausnir til að draga úr losun og áhættu. HÉR má nálgast útlínurnar sem voru samþykktar.
  • Aðferðafræðiskýrsla 2027 um skammlífa loftslagsvalda (e. The 2027 IPCC Methodology Report on Inventories for Short-lived Climate Forcers): Veitir leiðbeiningar fyrir losunarskráningar þjóða. HÉR  má nálgast útlínurnar sem voru samþykktar.

„Þetta var krefjandi ferli þar sem samþykktar voru útlínur að sérskýrslu um loftslagsbreytingar í borgum, ásamt öðrum ákvörðunum“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. „Fundir vikunnar voru erfiðir en samþykki þessara útlína eru mikilvæg skref fram á við að takast á við brýnar áskoranir loftslagsbreytinga á alþjóðavettvangi“, segir Anna Hulda.

„Skýrslan sem fjallar um þróun í borgun, áskoranir þar og lausnir mun sér í lagi veita vísindalegan grunn sem er nauðsynlegur þegar kemur að stefnumótun og skipulagi borga og samfélaga, og þróun og innleiðingu árangursríkar aðgerðir til að draga úr losun og aðlagast loftslagsbreytingum. En borgir eru á sama tíma í fararbroddi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og verða fyrir óhóflegum áhrifum þeirra“, segir Anna Hulda.

Mikilvæg brú milli vísinda og samfélags

Vassil Terziev, borgarstjóri í Sofia, sagði á opnunarathöfn fundarins að traust hans á vísindum væri mikið og það væri óumdeilanlegt að vísindi væru lykiltæki í verkfærakistu stjórnenda og íbúa í borgum svo hægt sé að gera borgir sjálfbærar og lífvænlegar.

Fundurinn sýndi fram á mikilvægi Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna í því að ná samkomulagi milli 195 aðildarríkja um efni skýrslna. Nefndin er rammi fyrir stjórnvöld, vísindamenn og starfsfólk aðildarríkjanna til þess að vinna sameiginlega að áreiðanlegasta vísindalega mati á loftslagsbreytingum. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC gefa vísindalegar forsendur fyrir aðgerðum með það að markmiði að uppfylla Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans (Kyoto- og Parísarsamninginn). Niðurstöðurnar leggja auk þess til vísindalegan grunn að áhættumati á loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim. Ferlið í kringum skýrslugerðina er einnig mikilvægt fyrir samskipti milli vísinda og stefnumótunar, þar sem niðurstöður vísindanna eru óumdeilanlegar en innihald og áherslur í skýrslunum er það ekki.

Næsta skref er val á höfundum og þegar opnað verður fyrir tilnefningar kemur tilkynning á vef Veðurstofunnar.

IPCC_Skema

IPCC gefur út reglulega ítarlegar matsskýrslur (e. assessment reports) þar sem farið er vel yfir þá vísindalegu þekkingu sem til er hverju sinni um loftslagsmál. Matskýrslan samanstendur af úttektum þriggja vinnuhópa (WG1, WG2 og WG3) ásamt stöðuskýrslum um afmörkuð málefni og samantektarskýrslu (SYR). Hver vinnuhópur skilar ítarlegri skýrslu (e. technical report) ásamt hnitmiðaðara skjali sérstaklega ætlað að halda utan um lykilatriði fyrir stjórnendur sem kallast samantektarskýrsla fyrir stjórnendur (e. summary for policy makers). Vinnuhópur eitt (WG1) fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum. Vinnuhópur tvö (WG2) leggur mat á tjónnæmi (e. vulnerability) félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og möguleika á aðlögun. Vinnuhópur þrjú (WG3) leggur mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á aðrar leiðir til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.

Nánar um Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Veðurstofa Íslands er landsskrifstofa IPCC á Íslandi í umboði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og sinnir skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hlutverki tengiliðs við nefndina.

IPCC var stofnuð árið 1988 að undirlagi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (e. World Meteorological Organization (WMO)) og Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Environment Program (UNEP)). Í nefndinni sitja 195 aðildarríki en fulltrúar þeirra hittast á fulltrúafundi að minnsta kosti einu sinni á ári. Fundirnir eru sóttir af hundruðum embættismanna og sérfræðinga frá viðeigandi ráðuneytum, stjórnsýslu- og rannsóknastofnunum frá aðildarlöndum og áheyrnarfulltrúum. Nefndin tekur samræmda ákvörðun um fjárhags- og vinnuáætlun IPCC, uppbyggingu skýrsla, vinnu- og verklagsreglur IPCC og uppbyggingu og umboð vinnu- og starfshópa IPCC.

IPCC skapar ramma fyrir stjórnvöld, vísindamenn og starfsfólk aðildarríkjanna til þess að vinna sameiginlega að áreiðanlegasta vísindalega mati heims á loftslagsbreytingum. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC gefa vísindalegar forsendur fyrir aðgerðum með það að markmiði að uppfylla Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans (Kyoto- og Parísarsamninginn). Niðurstöðurnar leggja auk þess til vísindalegan grunn að áhættumati á loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim. Mynd 2 sýnir uppbyggingu IPCC.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica