Fréttir

Samvinna milli landa og stofnana lykillinn að því að takast á við áhrif loftslagsbreytinga

Alþjóðleg ráðstefna á vegum Veðurstofunnar í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu var haldin í dag

19.5.2021

Í dag var haldin ráðstefna á vegum Veðurstofu Íslands “ 2nd Arctic Met Summit ” í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Ráðstefnan bar yfirskriftina “Arctic Adaptation and Resilience – Building a Bridge Between Science and Community”. Markmið ráðstefnunnar var að sýna fram á mikilvægi samvinnu milli landa og stofnana sem vakta og vinna spálíkön fyrir ólík kerfi jarðar; loftslagið, freðhvolfið og vatnakerfið. Slík samvinna er lykillinn að því að auka seiglu samfélaga á norðurslóðum og um leið getu þeirra til að aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga.

Ráðstefnan er önnur í röð slíkra ráðstefna, en sú fyrsta var haldin að frumkvæði Finna í formennskutíð þeirra áður en Ísland tók við keflinu. Á ráðstefnunni voru erindi frá fulltrúum alþjóðlegra stofnana sem eru leiðandi á sviði “Earth System Observations and Modelling” eins og það heitir á ensku. Stofnanir sem sinna vöktun og gerð spálíkana fyrir kerfi jarðar eru m.a. veðurstofur en eins gegna evrópskar stofnanir s.s. EUMETNET, EUMETSAT og ECMWF mikilvægu hlutverki hvað varðar fjarkönnun og líkanagerð, fyrir utan Alþjóðaveðurfræðistofnunina, WMO, sem er samstarfsvettvangur allra þjóða m.a. þegar kemur að vöktun og líkanagerð.

“Við þurfum vísindin til að veita ráðgjöf þegar kemur að aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Að byggja brú milli vísinda og samfélags felur ekki síst í sér brú milli vísinda og þeirra sem taka ákvarðanir í samfélögum á norðurslóðum. Þekking þarf að leiða af sér ákvarðanir”, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun ráðstefnunnar sem var á fjarfundaformi.


“Það er einmitt þessi brú milli vísinda og samfélags sem er svo mikilvæg” sagði Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar sem einnig ávarpaði ráðstefnuna sem er eitt af framlögum Veðurstofunnar til formennskustíðar Íslands í Norðurskautsráðinu. “Það sem við meinum með því að byggja brú milli vísinda og samfélags, er að koma á formlegu sambandi og samvinnu milli þeirra, sem búa að vísindalegri þekkingu hvað varðar áhrif loftslagsbreytinga, og svo þeirra sem standa frammi fyrir því að taka ákvarðanir um viðbrögð við þeim sviðsmyndum sem settar eru fram. Þessa brú þarf að mynda milli landa, ólíkra stofnana og samfélaga sem þrátt fyrir að hafa mismunandi þarfir standa öll frammi fyrir mjög miklum breytingum í náttúrunni vegna loftslagsbreytinga sem eru hvergi hraðari eða sjáanlegri en á norðurslóðum. 

En eins og nú er viðurkennt þá gildir að það sem gerist á norðurslóðum staldrar ekki einungis við þar, “what happens in the Arctic, doesn´t stay in the Arctic” sem þýðir að breytingar á norðurslóðum hafa áhrif á öll kerfi jarðar. Hafið, jöklar, snjór, ferksvatn og andrúmsloftið, allt spilar þetta saman og óvissan er talsverð um hver þróunin verður og því er samvinna þvert á fræðasvið, stofnanir og lönd svo mikilvæg. Þessi ráðstefna er einmitt mikilvægur vettvangur til viðhalda og styrkja þá samvinnu” sagði Árni að lokum.

Rússland tekur við formennsku af Íslandi í Norðurskautsráðinu. Igor Shumakov, yfirmaður rússnesku vatnafræði- og umhverfisstofnunar Rússlands sagði að þau myndu halda áfram þeirri samvinnu sem myndast hefur á vettvangi ráðstefnunnar.

Louis W. Uccilini, forstjóri bandarísku veðurstofunnar sagði að nú myndu loftslagsbreytingar verða einn af áhersluþáttum utanríkisstefnu bandaríkjanna og að allar stofnanir þeirra hefðu sett samvinnu við þjóðir norðurslóða á oddinn þegar kemur að því að takast á við áhrif loftslagsbreytinga.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica