Fréttir
Frá undirritun samninganna í háskólaráðsherbergi Háskóla Íslands. Standandi eru Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs HÍ, og Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs á Veðurstofu Íslands, en sitjandi frá vinstri eru Jón Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri Rannsókna- og háskólanets Íslands, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. (Ljósmynd: HÍ/Björn Gíslason)

Samstarf Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og RHnets um hýsingu og samnýtingu tölvubúnaðar

Þörfin fyrir afkastameiri nettengingar milli háskóla og stofnanna mun aukast í framtíðinni

19.4.2022

Fulltrúar Háskóla Íslands,  Veðurstofu Íslands og Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet) undirrituðu á dögunum samninga um fjölbreytt samstarf á sviði hýsingar og samnýtingar vélbúnaðar í upplýsingatækni.

Samningarnir eru tveir og snúa annars vegar um samstarf og stuðning við uppfærslu búnaðar RHnets og hins vegar samvinnu um rekstur og aðstöðu fyrir tölvubúnað Háskóla Íslands.

RHnet var stofnað fyrir rúmum 20 árum til að koma á hraðvirku neti háskóla og rannsóknastofnana á Íslandi og til að tengja þessar stofnanir við erlend rannsókna- og háskólanet. RHnet tengist NORDUnet beint og þaðan stærstu háskólanetum Evrópu og Ameríku.

Þörfin fyrir afkastameiri nettengingar mun aukast í framtíðinni

Hraðvirkt netsamband milli háskóla og stofnana er sérlega mikilvægt hvað varðar bæði rauntímasamskipti og mikinn gagnaflutning, t.d. í verkefnum sem tengjast m.a. ýmiss konar vöktun og dreifingu mikilvægra gagna. Með tilkomu aukinnar notkunar gagna, t.d. við líkanreikninga og vegna verkefna sem krefjast öflugs tölvubúnaðar, mun þörfin fyrir afkastameiri nettengingar milli háskóla og stofnanna aukast í framtíðinni.

Bæði Háskóli Íslands og Veðurstofan eru tengd RHneti og samkvæmt samningnum sem undirritaður var fyrir helgi munu aðilarnir tveir leggja til fjármagn til kaupa á búnaði til að uppfæra núverandi net RHnets upp í 100Gb/s en í dag er það að mestu byggt á 10Gb/s tækni.

Veðurstofa Íslands hefur aðstöðu fyrir tölvubúnað Háskóla Íslands og nauðsynlega innviði fyrir búnað með uppsettu afli í upphafi allt að 100 Kw en samkvæmt samningnum nýja er gert ráð fyrir að það vaxi í takt við þarfir HÍ og verði komið í 200 Kw á næstu 4-5 árum. Gert er ráð fyrir að aðstaðan hjá Veðurstofunni verði aðgengileg skólanum á næsta ári og mun Háskólinn sjá um uppsetningu búnaðar og rekstur aðstöðunnar en hlutverk Veðurstofunnar verður að sjá um rekstur innviða og tryggja öruggan rekstur þeirra, s.s. varaafl og kælibúnað.

Háskóli Íslands og Veðurstofan hafa átt í afar góðu samstarfi í gegnum árin, m.a. í tengslum við vöktun á eldsumbrotum og jarðhræringum, en með samningunum nýju er fleiri stoðum skotið undir samstarfið.

Samningana undirrituðu þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Jón Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri Rannsókna- og háskólanets Íslands, og Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs HÍ.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica