Fréttir
Irma er einn alöflugasti fellibylur sem menn hafa upplýsingar um. Þegar hann gekk á land á norðurhluta Kúbu í september 2017 var hann fimmta stigs fellibylur.

Samstarf þjóða er nauðsynlegt ef hemja á loftslagsbreytingar og aðlagast þeim

Sameiginleg skilaboð frá forstjórum veðurstofa Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóða

26.9.2018

Í sumar skiptust á hitabylgjur, þurrkar og skógareldar sem ollu slysum og tjóni og reyndu á getu þjóða til að takast á við hamfarir. Á Norðurlöndum og umhverfis Eystrasaltið var sumarið víða það hlýjasta síðan samfelldar mælingar hófust, en á Íslandi var óvenju úrkomusamt á hluta landsins. Sú spurning vaknar hvort veðurlag sumarsins sé dæmi um einstaklega ólíklega tilviljun, eða hvort þetta séu áhrif loftslagsbreytinga. Sé loftslagsbreytingum um að kenna – hvað er þá til ráða?

Áratugum saman hefur samstarf veðurstofa Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóða á sviði veður- og loftslagsþjónustu verið einstakt og í ágúst 2018 var samþykkt að auka samstarfið enn frekar. Í ljósi afbrigðilegs veðurlags í sumar var einnig ákveðið að draga saman hver er sameiginlegur skilningur stofnanna á loftslagsbreytingum.

Sumarið 2018

Greining á gögnum um óvenjulegt veðurlag á Norðurlöndum og umhverfis Eystrasaltið sumarið 2018 leiðir m.a. í ljós:

  • Í Danmörku voru voru slegin met í fjölda sólardaga í maí, júní, júlí og ágúst. Maímánuður sló hitamet, og maí, júní og júlí voru mjög þurrviðrasamir.
  • Í Eistlandi voru óvenjumiklir hitar í  maí og júlí, og júlímánuður var einnig einn þurrasti mánuður síðan 1961.
  • Í Finnlandi voru maí og júlí einna hlýjustu mánuðir frá því að mælingar hófust en júnímánuður var nær meðallagi.
  • Á Íslandi var óvenju úrkomusamt og fáir sólardagar á suður- og vesturhluta landsins, en sólríkt, hlýtt og þurrt á Norðausturlandi. Á stöku stað féllu met fyrir dags- og mánaðarúrkomu.
  • Í Lettlandi sló maímánuður öll met og er fyrsti maímánuður með yfir 15 °C meðalhita síðan mælingar hófust. Bæði júní og júlí voru hlýir og sumarið var óvenju þurrt.
  • Í Litáen sló maímánuður hitamet og tímabilið frá 20. júlí til 10. ágúst var það hlýjasta síðan 1961. Maí og júlí voru einnig óvenju þurrir.
  • Í Noregi hefur ekki mælst hlýrra eða þurrara sumar síðan mælingar hófust árið 1900.
  • Í Svíþjóð voru maí og júlí langtum hlýrri en áður hefur mælst og í Suður-Svíþjóð voru júni og ágúst einnig hlýir eða mjög hlýir.

Í stuttu máli, þurrviðri og hlýindi síðari hluta vorsins slógu hitamet víða á Norðurlöndum og við Eystrasaltið á sama tíma og það rigndi alla daga í Reykjavík í maí (sem hefur ekki gerst síðan mælingar hófust  á 19. öld) og þar hafa sólardagar í júní ekki verið færri í 104 ár.

Loftslagsbreytingar?

Fyrrgreind afbrigði í veðurlagi má að hluta rekja til víðfeðmrar hæðar sem var þaulsetin yfir Norðurlöndum og Eystrasalti og beindi úrkomukerfum til Íslands. Slíkar fyrirstöðuhæðir myndast endrum og sinnum á þessu svæði, sérstaklega að vorlagi, en í ár gætti áhrifa fyrirstöðuhæðar mun lengur en dæmi eru um á síðustu áratugum. Fara þarf aftur til ársins 1947 og svo 1889 til að finna sambærilega langvarandi fyrirstöðuhæðir, en í ár, 2018, bætist hlýnun síðustu áratuga við. Hitabylgjur sumarsins eru því afleiðing óvenju þaulsetinnar fyrirstöðuhæðar, meðfylgjandi þurrkum og langtímahlýnunar á norðurslóðum.

Veður á Norðurlöndum og við Eystrasaltið er mjög breytilegt og áramunur í veðurlagi. Slíkur breytileiki í veðri mun áfram eiga sér stað, þó líkur séu á að kaldasti tími ársins verði ekki jafn kaldur og fyrr og heitasti tími ársins verði hlýrri. Samfara minni snjóhulu að vetri til má gera ráð fyrir að aftaka kuldaköstum fækki.

Að sumri til má gera ráð fyrir fleiri hitabylgjum og þurrkum samfara lengri köflum með hlýindum, svolítilli aukningu úrkomu eða jafnvel samdrætti á sumum svæðum. Þetta kann að magnast vegna breytinga sem þó eru óvissari, t.d. breytinga á hringrás andrúmsloftsins, m.a. tíðni lægðagangs eða því hversu langvarandi fyrirstöðuhæðir verða.

Verið viðbúin!

Þjóðfélög okkar verða að búa sig undir breytingar á veðurfari, t.d.

  • Afbrigði í veðri standa lengur, m.a. hitabylgjur og úrkomuflóð eftir langvarandi úrkomukafla.
  • Aukna ákefð úrkomu sem leiðir til fleiri asaflóða. 

Þetta eykur kröfur um áreiðanlegar og tímabærar viðvaranir vegna aftakaveðurs, skipulega aðlögun að loftslagsbreytingum og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Veðurspár og eftirlit með ástandi lofthjúpsins eru mikilvægir þættir til þess að bæta samfélagslegt öryggi, greiningar á veðurfari og líkanreikningar eru nauðsynleg skref til þess að hægt sé að meta hættu vegna aftakaveðra og áhættu af þeirra völdum.

Einnig er nauðsynlegt að kanna mögulegar afleiðingar loftslagsbreytinga, bæði bein áhrif, s.s. á innviði, landbúnað og aðra veðurháða efnahagsstarfssemi, og óbein áhrif s.s. svo sem stjórnmálaleg áhrif vegna aukins flóttamannavanda. Og síðast en ekki síst þarf umræðu um hvort þjóðfélög séu tilbúin að takast á við þær erfiðu áskoranir sem fylgja aðlögun að hlýrri og votviðrasamari heimi. Við þurfum bæði að draga úr losun og aðlagast nýrri vá.

Traust samvinna milli Norðurlanda og Eystrasaltslanda

Loftslagsbreytingar og veður eru hnattræn í eðli sínu. Alþjóðlegrar samvinnu verður þörf á öllum stigum við að undirbúa samfélög við að draga úr afleiðingum loftslagsbreytinga, byggja upp getu til þess að takast á við breytingar og auka þanþol þjóðfélaga. Veðurstofur geta veitt nauðsynlegar upplýsingar um veður og loftslag og sniðið þjónustu að þörfum notenda. Samvinna á sér bæði stað á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) og á svæðisbundnum vettvangi.

Þjónusta veðurstofa Norðurlanda og Eystrasaltslandanna mun verða bætt með því að byggja upp sameiginleg spákerfi og afurðir, einnig í samvinnu við veðurstofur á Írlandi og Hollandi. Ásamt samvinnu í rannsóknum mun þetta auka gæði þjónustu okkar og gera okkur kleift að spá betur fyrir aftakaveðri og breytingum á tíðni þeirra.

Að lokum verður það áskorun fyrir samfélög okkar að nýta þessar upplýsingar sem best til þess að aðlagast óhjákvæmilegum breytingum og draga úr áhættu samfélagsins.

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands

Juhani Damski, forstjóri finnsku veðurstofunnar

Kristaps Treimanis, stjórnarformaður letnesku umhverfis-, jarðvísinda- og veðurfræðistofnunarinnar

Marianne Thyrring, forstjóri dönsku veðurstofunnar

Roar Skålin, forstjóri norsku veðurstofunnar

Rolf Brennerfelt, forstjóri sænsku veður- og vatnafræðistofnunarinnar

Saulius Balys, forstjóri litháensku veður- og vatnafræðistofnunarinnar

Taimar Ala, forstjóri Umhverfisstofnunar Eistlands




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica