Fréttir
Ísland og Québec semja um rannsóknir á sviði sjálfbærrar orku á norðurslóðum.

Samið um rannsóknir á sjálfbærri orku á norðurslóðum

Stofnanir og fyrirtæki frá Íslandi og Québec undirrituðu samning á Arctic Circle

10.10.2016

Landsvirkjun, Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa gert samning við fyrirtæki, háskóla og stofnanir í Québec-fylki í Kanada um samstarf á sviði rannsókna og þjálfunar á sviði sjálfbærrar orku á norðurslóðum.

Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec, var viðstaddur þegar fulltrúarnir skrifuðu undir samninginn á Hringborði Norðurslóða í Hörpu, 8. október 2016.

Aðilar að samningnum eru:

  • INRS Institut national de la recherche scientifique - vísindarannsóknastofnunin í Québec
  • Université Laval - Laval háskólinn í Québec
  • Hydro-Québec - orkufyrirtæki Québec-fylkis
  • Ouranos - samsteypa háskóla, orkufyrirtækja og ríkisstofnana í Kanada sem annast rannsóknir á loftslagsbreytingum og sjálfbærri orkunýtingu
  • Háskólinn í Reykjavík
  • Háskóli Íslands
  • Landsvirkjun
  • Veðurstofa Íslands
Undirritun
Í bakgrunni stendur Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec. Aðrir (talið frá vinstri):
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, René Roy, verkefnastjóri loftslagsbreytinga hjá Hydro-Québec, Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Alain Bourque, forstjóri Quranos, Cloude Arbour, forstjóri INRS, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskóla Reykjavíkur, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og René Therrien, frá Université Laval.
Ljósmynd (stækkanleg): Gerður Björk Kærnested.

Hinir átta aðilar samningsins, fjórir kanadískir og fjórir íslenskir, munu stofna til sameiginlegra rannsókna á sviði loftslagsmála og sjálfbærrar nýtingar. Einnig verður samstarf varðandi umsjón háskólastúdenta og starf fræðimanna og sérfræðinga; sameiginleg námskeið verða skipulögð. Skiptst verður á kennslugögnum, fræðigreinum, líkönum og hugbúnaði.

Auk þess munu aðilar samningsins hafa samstarf um að leita fjármögnunar á rannsóknastarfi, bæði heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi.

fréttatilkynning Landsvirkjunar



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica