Fréttir
Breytingar á jaðri Breiðamerkurjökuls frá lokum 19. aldar.

Rýrnun jökla á Íslandi á síðasta ári ein sú mesta sem mælst hefur

Flatarmál jöklanna hefur minnkað um tæplega 800 ferkílómetra síðan árið 2000

4.5.2020

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing og skýrasti vitnisburður hlýnandi loftslags hérlendis. Flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um u.þ.b. 800 km2 síðan árið 2000 og tæplega 2200 km2 frá lokum 19. aldar þegar jöklarnir náðu mestu útbreiðslu síðan land byggðist. Síðustu árin hefur heildarflatarmál jökla minnkað um u.þ.b. 40 km2 árlega að meðaltali. Á árinu 2019 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar“. Verkefnið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans og Náttúrustofu Suðausturlands.


Flugsýn af tungu Skálafellsjökuls 1989 og 2019. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1989 og flygildi 2019 og landlíkönum sem reiknuð voru á grundvelli myndanna og sýna vel lækkun yfirborðs jökulsins á 30 ára tímabili (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee).

Afkoma jöklanna mjög neikvæð árið 2019

Samhliða hlýnun loftslags á Íslandi frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar rýrnuðu jöklar hratt. Rýrnun jökla er mæld í vatnsgildi, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir svæði sem er jafnstórt yfirborði jökulsins sem mælt er. Rýrnun íslensku jöklanna var að jafnaði um u.þ.b. 1 m vatns á ári að meðaltali á tímabilinu 1997–2010. Eftir 2010 hafa komið köld og blaut sumur inn á milli, þannig að meðalrýrnun áranna 2011–2018 var ekki nema þriðjungur til helmingur þess sem verið hafði í rúman áratug þar á undan. Sumarið 2019 var víðast hlýtt og sólríkt enda rýrnuðu jöklar þá um u.þ.b. 1,5 m vatns sem er með því mesta sem mælst hefur.

Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn.

Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn.

Land rís hratt þegar jökulfargið minnkar

Við Höfn í Hornafirði er landris nú um 10–15 mm á ári og hefur hraði þess tekið talsverðum breytingum á undanförnum tveimur áratugum vegna breytileika í afkomu jökulsins. „Þegar jöklar þynnast og hörfa minnkar fargið á jarðskorpuna og landið rís. Þetta er nokkuð afgerandi hér á Íslandi þar sem jarðskorpan og efri hluti möttulsins undir landinu eru mjög kvik“, segir Tómas Jóhannesson, fagstjóri á svið jöklafræði á Veðurstofu Íslands.  „Landris er mest næst jökuljaðrinum og á jökulskerjum en minna þegar fjær dregur. Því rís land enn hraðar við vesturjaðar Vatnajökuls þar sem rishraðinn mælist allt að 40 mm á ári“, segir Tómas.

Nálgast má fréttabréfið í heild sinni hér.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica