Fréttir
Mælitæki fellur í skuggann af tignarlegum jöklinum. Ein af áskorunum við rekstur mælitækja á Svínafellsheiði er einmitt skuggavarp á sólarrafhlöður sem notaðar eru til að knýja mælitækin á staðnum.

Rekstur mælabúnaðar á Svínafellsheiði mikil áskorun

Búnaður til raforkuframleiðslu uppfærður 

13.10.2020

Starfsmenn Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands fóru um síðustu helgi á Svínafellsheiði til þess að uppfæra búnað sem notaður er til að vakta hreyfingar á sprungum í hlíðinni ofan við austanverðan Svínafellsjökul. Mikil áskorun er að reka búnað til orkuframleiðslu á heiðinni, en hefðbundnar aðferðir eru að notast við sólarrafhlöður og vindmyllur. „Það sem gerir þennan rekstur erfiðan er bæði lega heiðarinnar gagnvart sól og svo eru veðurskilyrði þannig að oft er lítill vindur sem varla dugir fyrir vindmyllu reksturinn. En svo þegar hann blæs, þá gerir hann það svo hressilega að fáar vindmyllur lifa það af“, segir Bergur H. Bergsson, hópstjóri jarðeðlisfræðilegra mælikerfa á Veðurstofu Ísland. „Því var ákveðið að prófa að fjölga sólarrafhlöðunum og prófa að reka stöðvarnar eingöngu á sólarokunni.“ Sett voru upp stál statíf sem halda utan um sólarrafhlöðurnar sem og rafgeyma og hleðslubúnað. Notast var við þyrlu til að flytja búnaðinn upp í hlíðina enda um að ræða fyrirferðamikinn og þungan búnað. Eins þurfti að leggja um 200 metra langan kapal um hamrabelti að neðri mælistaðnum.“Uppsetning gekk vel, en nú er bara að krossa fingur og sjá hvernig veturinn gengur“, segir Bergur.  


Svínafellsheiðin skartaði sínu fegursta og það var ekkert sem minnti á það veðravíti sem mælitæki á heiðum landsins þurfa oft að þola. Bergur H. Bergsson (t.v.) og Benedikt G. Ófeigsson yfirfara mælibúnað fyrir veturinn.(Ljósmynd: Veðurstofan/Vilhjálmur Kjartansson) 

Þyrluþjónustan Helo aðstoðaði við flutning á búnaðinum. Stál statíf sem halda utan um sólarrafhlöðurnar sem og rafgeyma og hleðslubúnað. (Ljósmynd: Veðurstofan/Vilhjálmur Kjartansson) 

Síritandi mælar nema aðdragand mögulegs berghlaups 

Svínafellsheiðin er fyrsta svæðið á landinu sem er vaktað með síritandi mælitækjum sem gefur kost á sólarhringsvöktun. Mælitækjum var komið fyrir í hlíðinni ofan við austanverðan Svínafellsjökul haustið 2018, eftir að niðurstöður úr kortlagningu og mælingum í samstarfi við Háskóla Íslands leiddu í ljós að um 1,7 km langa sprungu væri að finna í fjallshlíðinni. Fleiri mælitækjum var svo komið fyrir haustið 2019. 


Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu sprunga á Svínafellsheiði. 

Sprunguna má rekja frá yfirborði jökulsins í 300 m h.y.s. og upp á efsta hluta heiðinnar í um 850 m h.y.s. Ummerki benda til þess að hreyfingar hafi verið um sprunguna á síðustu árum og að hún hafi myndast fyrir um 10-15 árum. Talið er að 60-100 milljón rúmmetrar af efni gætu hlaupið út á Svínafellsjökul og mögulega náð ofan í lónin fyrir framan jökulinn. Atburðir af þessari stærðargráðu eiga sér gjarnan aðdraganda sem vonast er að hægt sé að greina með síritandi mælitækjum. Litíl breyting hefur mælst á sprungunni undanfarið ár.


Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur frá Háskóla Íslands, við einn af togmælunum sem settir hafa verið upp á Svínafellsheiði.(Ljósmynd: Veðurstofan/Vilhjálmur Kjartansson) 

GPS búnaður var notaður til að mæla fastapunkta sem eru til viðmiðunar við vöktun á mögulegum hreyfingum. Í baksýn sést í lónið fyrir framan Svínafellsjökul. (Ljósmynd: Veðurstofan/Ragnar Heiðar Þrastarson) 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica