Fréttir
Fram kom á fundi Vísindaráðs að frá upphafi árs hafa rúmlega 6.000 skjálftar á Reykjanesskaganum verið yfirfarnir. Kortið sýnir skjálfta sem orðið hafa frá 1. janúar fram til 31 .mars, 2020.

Rannsaka þarf núverandi virkni á Reykjanesskaganum heildstætt

Frá upphafi árs hafa rúmlega 6.000 skjálftar á Reykjanesskaganum verið yfirfarnir

31.3.2020

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi fimmtudaginn 26. mars og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR, ásamt fulltrúum frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, HS-Orku, Isavia-ANS, Umhverfisstofnun og lögreglunni á Suðurnesjum.

Kvikuinnskot ennþá líklegasta skýringin á skjálftavirkni norðan við Grindavík

Landris mælist á nýjan leik með miðju vestan við Þorbjörn. Landris mældist frá 22. janúar 2020 fram í byrjun febrúar og hóf svo að rísa á nýjan leik í fyrri hluta mars. Í fyrstu rishrinu var rishraðinn 3-4 mm á dag og reis land um allt að 6 sm. Í rishrinunni sem nú er í gangi rís landið um helmingi hægar (eða minna). Samtals hefur land risið um 7-8 cm frá því í lok janúar. Vísindaráð telur ennþá að líklegasta útskýringin á landrisinu sé kvikuinnskot og er kvikan að „smyrjast“ lárrétt inn á milli jarðlaga og mynda þar þunna sillu á 3-4 km dýpi. Kvikuinnskotið framkallar svo umtalsverða jarðskjálftavirkni á svæðinu norðan við Grindavík.

Grindvíkingar hafa ekki farið varhluta af jarðskjálftavirkninni undanfarið. Þann 19. mars mældist grunn skjálftahrina í nágrenni við niðurdælingarholu í Svartsengi, einungis 3 km frá útjaðri bæjarins. Líkan af kvikuinnskotinu sem veldur landrisinu sýnir að sprungur opnast í efstu 1-2 km, vegna spennu sem hefur myndast í allar áttir yfir rismiðju. Þessi spennubreyting í jarðskorpunni geri það að verkum að niðurdæling jarðhitavökva sem olli ekki teljandi skjálftavirkni áður er líklegri til að gera það nú. Verklag niðurdælingar verður því endurskoðað í samstarfi við HS Orku og hvernig fylgjast má með áhrifum niðurdælingar á skjálftavirkni.

Nauðsynlegt að mæla og rannsaka núverandi virkni á Reykjanesskaganum heildstætt

Fram kom á fundinum að frá upphafi árs hafa rúmlega 6.000 skjálftar á Reykjanesskaganum verið yfirfarnir. Þetta er mesta jarðskjálftavirkni sem mælst hefur á Reykjanesskaga frá upphafi stafrænna mælinga árið 1991. Laugardaginn 28. Mars mældist hrina við Eldey og má því segja að virknin  mælist allt frá Eldey að Krýsuvík. Töluverð óvissa ríkir enn um hvað veldur svo útbreiddri skjálftavirkni. En líklegt verður að teljast að eitthvað undirliggjandi ferli valdi því að svo stórt svæði verði allt virkt á svo stuttu tímabili. En  eftir Reykjanesskaganum og Reykjaneshryggliggja flekaskil og ganga eldstöðvakerfin, Eldey, Reykjanes, Svartsengi og Krýsuvík þvert á þessi skil. Í ljósi þessarar virkni telur Vísindaráð nauðsynlegt að mæla og rannsaka núverandi virkni á Reykjanesskaganum heildstætt og bera hana saman við eldri atburði á svæðinu svo varpa megi frekara ljósi á ástæður og þróun atburðarásarinnar nú.

Vísindaráð vill árétta að þær sviðsmyndir sem teiknaðar voru upp í lok janúar eru enn í gildi.

Vísindaráð mun að öllu óbreyttu koma aftur saman 8. apríl.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica