Fréttir
Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 1. ágúst til 5. september, 2021. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum úr Sentinel-1 (InSAR). Rauði liturinn sýnir landris og blái sig (sjá kvarða). Miðja þenslunnar og jafnframt þar sem risið mælist mest er við norðvesturhorn Öskjuvatns nærri GPS stöð (svartur þríhyrningur)

Óvissustigi lýst yfir vegna landriss í Öskju

Í næstu viku munu Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans efla mælingar og vöktun eldstöðvarinnar

9.9.2021

Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra lýsir yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju.  Síðustu vikur hafa mælst hraðar landbreytingar í Öskju, bæði á GPS-mælitæki staðsett þar og eins með nákvæmri úrvinnslu gervitunglamynda. Landrisið er rúmlega 7 sentimetrar sem telst mikið á þessu tímabili.

Líklegasta skýringin er að á 2-3 km dýpi sé kvika að safnast fyrir.  Í næstu viku munu Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans efla mælingar og vöktun í Öskju til þess að efla vöktun og til að geta fylgst enn betur með hegðun eldstöðvarinnar.

Í ljósi nýjustu gagna hefur Veðurstofan breytt fluglitakóða fyrir Öskju úr grænum í gulan. Það er gert þegar eldstöð sýnir merki um virkni, umfram venjulegt ástand.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.


Gröfin sýna færslur á GPS stöðinni OLAC í norður, austur og upp fyrir tímabilið 27. júlí til 9. september, 2021. Stöðin, sem er staðsett nærri miðju landrissins (sjá InSAR mynd), sýnir að um mánaðarmótin júlí-ágúst fór ris að mælast.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica