Fréttir
Rauðar viðvaranir vegna vinds tóku gildi kl. 16:00 miðvikudaginn 5. febrúar 2025.

Óveðrið 5.- 6. febrúar eitt öflugasta sunnan illviðrið síðustu ár

Mikill vindhraði mældist víða og á Austfjörðum var veðrið einna verst með miklum vindhviðum og foktjóni

7.2.2025

  • Meðalvindur fór yfir 24 m/s á 140 veðurstöðvum þann 5. febrúar og yfir 28 m/s á 62 stöðvum.
  • Veðurspár stóðust vel og náðu bæði vindatoppum og þróun veðursins
  • Veðrið var óvenju útbreitt, en síðast mældist álíka veður þann 21. febrúar 2022
  • Engin veðurmet féllu, en sumar vindhviður höfðu um 10 ára endurkomutíma

Mikið sunnan illviðri gekk yfir landið dagana 5.–6. febrúar 2025 og bætist það í hóp verstu óveðra síðustu ára. Slík veður eru þó ekki óalgeng hér á landi og koma á 2–5 ára fresti. Hins vegar hafa tveir síðustu vetur verið fremur hægviðrasamir og því hafa illviðri verið sjaldgæf.

Óveðrið 5.–6. febrúar var óvenjulegt að því leyti hversu víða hár vindhraði mældist. Vindur yfir 24 m/s (rok) var skráður á 140 veðurstöðvum þann 5. febrúar, en 6. febrúar voru þær 96 talsins. Í fyrri lotu veðursins, þann 5. febrúar, var veðrið ögn öflugra en daginn eftir. Hlutfall veðurstöðva þar sem vindur fór yfir 20 m/s var um 70% af öllum stöðvum landsins.

Miklar vindhviður en engin met féllu

Mesta vindhviða í óveðrinu mældist á Gagnheiði, 66,3 m/s þann 5. febrúar, sem er mesta hviða þar síðan árið 2001 og sú mesta í febrúar á þeirri stöð. Mesta hviða á láglendi var 62,3 m/s við Hvaldalsá. Nokkrar stöðvar mældu sínar mestu febrúarhviður hingað til, þar á meðal Seley, Vattarnes, Fáskrúðsfjörður, Krafla og Sauðárkróksflugvöllur. Hins vegar voru flestar vindhraða- og vindhviðumælingar innan marka þess sem telst venjulegt að mælist u.þ.b. einu sinni á hverju ári.

Veðrið reyndist einna verst á Austfjörðum, sérstaklega í Stöðvarfirði, þar sem bæði vindhraði og hviður náðu hámarki og ullu miklu tjóni.

Hvernig stóðust veðurspárnar?

Veðurspár stóðust vel fyrir miðvikudaginn 5.febrúar, þó spáður vindhraði hafi verið heldur meiri en mældur, en líkanið náði að spá vel  fyrir um tvo aðalvindatoppa:

  • Sá fyrri kom síðdegis á vestanverðu landinu
  • Sá seinni gekk yfir austanvert landið um kvöldið.

Eftir miðnætti datt meðalvindhraði niður en jókst svo hratt um kl. 8 að morgni fimmtudagsins 6. febrúar þegar skil gengu inn á landið. Veðurspáin náði ágætlega þessum breytingum en vindhraða var nokkuð ofspáð í skilunum.

Á mynd fyrir neðan má sjá meðalvindhraða út frá spá á 160 sjálfvirkum veðurstöðvum borinn saman við mældan meðalvindhraða. Sýndar eru tvær vindaspár úr Íslands-Grænlands spákeyrslu Veðurseturs vesturs(UWC-W IG), önnur með upphafstíma kl. 12 á þriðjudag, 4. febrúar, og hin kl. 06 á miðvikudag, 5. febrúar.

Veðurlíkanið skrifar út spá á klukkustundafresti og er stillt þannig að það ofspáir frekar en vanspáir vindhraða þar sem vitað er að vindur kann að vera meiri innan klukkustundarinnar en á heila tímanum og einnig gildir spáin fyrir stærra svæði í kringum hverja veðurstöð.

Athuganirogspar07022025

Línurit sem sýnir mældan vindhraða (athuganir) og spá um vindhraða í háupplausnar veðurlíkönum frá kl. 12 þann 4. febrúar og kl. 6 þann 5. febrúar. 

Sambærileg illviðri síðustu ár

Aðeins nokkur illviðri síðustu ár hafa verið jafn kröftug og víðfeðm:

  • 7. febrúar 2022
  • 21. febrúar 2022
  • 14. febrúar 2020
  • 7.–8. desember 2015
  • 14. mars 2015

Á þessum dagsetningum voru gefnar út rauðar viðvaranir, líkt og nú, nema í veðrunum 2015, þar sem viðvaranakerfið var ekki komið í notkun á þeim tíma. Dæmi um staðbundnari óveður eru illviðrin á Norðurlandi 10. – 11. desember 2019 og á Austurlandi 24. – 25. september og 9. október 2022.

Mynd2_sulur

Hér er yfirlit yfir allar veðurviðvaranir sem gefnar voru út frá árinu 2018 – 2024. Viðvaranirnar sem gefnar voru út núna í febrúar 2025, þar á meðal nýlegu rauðu viðvaranirnar, munu bætast við þessa samantekt þegar tölfræðin verður uppfærð.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica