Fréttir
Frá uppsetningu mælitækja í fjallshlíðinni ofan við Flateyri í október síðastliðnum. Uppsetningin ásamt endurskoðun á hættumati er hluti af heildarendurskoðun á viðbúnaði vegna snjóflóðahættu í byggðinni.

Nýtt ofanflóðahættumat fyrir Flateyri

Eðli snjóflóða betur þekkt nú en þegar fyrra hættumat var gert

4.12.2020

Eftir snjóflóðin á Flateyri í janúar var ljóst að endurskoða þyrfti hættumat fyrir byggðina þar og að ofanflóðahætta þar væri vanmetin. Bæði snjóflóðin fóru að hluta fyrir varnargarðana ofan þorpsins. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll á hús við Ólafstún þar sem stúlka grófst í flóðinu en var bjargað. Flóðið úr Skollahvilft rann langt út í höfnina og olli þar mjög miklu tjóni. Talið er að sá hluti flóðanna sem rann yfir varnargarðana hafi verið svokallaður „flóðfaldur“ eða „iðufaldur“, sem rennur ofan á fremsta hluta flóðsins með iðuköstum þar sem hraðinn getur verið mun meiri en hraði sjálfs þétta kjarna flóðsins. Doppler radar á varnargarðinum undir Skollahvilft mældi hraða snjóflóðsins og sést hinn hraðfara fremsti hluti flóðsins og hægari þétti kjarninn sem fylgir á eftir í mælingunum. Nánari umfjöllun um flóðin og mælingar á þeim er að finna í skýrslu sem er nýkomin út.


Skýringarmynd af lagskiptingu þurra snjóflóða. Neðst er þéttur kjarni (e. cold shear dense flow), fyrir framan hann og að vissu marki ofan á kjarnanum er iðukastafaldur (e. intermittency/fluidized regime) og aftan við iðukastafaldinn er eðlislétt kóf (e. suspension regime). Út frá radarmælingum má áætla að hraði iðufaldsins þegar flóðið kom úr gilinu hafi verið 45-60 m/s (160-215 km/klst) og hraði þétta kjarnans 35-45 m/s (125-160 km/klst). (Mynd byggð á skýringarmynd Betty Sovilla við Svissnesku snjóflóðarannsóknastofnunina SLF í Davos).

Eðli snjóflóða betur þekkt nú en þegar fyrra hættumat var gert

Tæplega 30 snjóflóð hafa verið skráð úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili frá 2004 þegar núverandi hættumat tók gildi. Tíðni flóða hefur verið endurmetin og er tíðnin nú metin heldur hærri en samkvæmt hættumatinu 2004. Snjóflóðið úr Skollahvilft árið 1995 er talið hafa endurkomutíma um 100 ár en áður var endurkomutími þess metinn um 140 ár. Flóðið í janúar er talið hafa endurkomutíma um 80 ár og flóðið úr Innra-Bæjargili í janúar um 20 ár. Án varnargarða er talið að snjóflóð myndu ná niður í byggðina á um 10 ára fresti úr hvorum farvegi.

„Þessi breyting á endurkomutíma snjóflóða skiptir þó ekki sköpun í hættumatinu“, segir Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri ofanflóða á Veðurstofu Íslands. „Heldur er það þetta yfirflæði iðukastahlutans svokallaða sem ekki var gert ráð fyrir í fyrra hættumati, enda var það eðli snjóflóða ekki þekkt á þeim tíma“, segir Magni. Enn er gert ráð fyrir að varnargarðarnir beini þétta kjarna snjóflóða að mestu frá byggðinni. Yfirflæðið er eðlisléttara en þétti kjarninn og getur munurinn verið 3-10 faldur. Hættan vegna yfirflæðisins er því að mun minni en af þétta kjarnanum. Yfirflæðið stöðvast einnig hraðar eftir að það skilst frá þétta kjarnanum. Snjóflóðalíkön sem vanalegu eru notuð til að herma snjóflóð í tengslum við hættumat geta ekki líkt rétt eftir eðlisfræði yfirflæðis eins og varð á Flateyri í janúar. „Þau fara þó nokkuð nærri um útbreiðslu yfirflæðisins, eins og það varð í janúar, og talið að þau gefi ákveðnar vísbendingar um útbreiðslu yfirflæðis stærri flóða. Hættumatið neðan garðanna nú er byggt á þessum forsendum, líkankeyrslum með fyrirliggjandi líkönum og mælingum á flóðunum í janúar og túlkun þeirra“, segir Magni.


Drög að hættumatskorti var kynnt íbúum og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á dögunum. Hér má nálgast hættumatskortið í fullri stærð með skýringum.

Nú liggja fyrir drög að endurskoðuðu hættumati fyrir Flateyri sem kynnt hafa verið á íbúafundi með Flateyringum og fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Í drögum að nýju hættumati eru tæplega 20 hús á C-svæði neðan varnargarðanna, en áður var ekkert hús á C-svæði. Á B-svæði eru nú rúmlega 11 hús en þar var aðeins eitt hús áður, en mesta breytingin er á legu B-línunnar. Hættumatið öðlast ekki formlegt gildi fyrr en það hefur verið kynnt aftur í endanlegri mynd og staðfest af ráðherra.

Flóðið í janúar eykur þekkingu á virkni varnargarða og kallar á endurskoðun þeirra

Í hættumatinu frá 2004 er gert ráð fyrir að varnargarðurinn undir Skollahvilft auki snjóflóðahættu á hafnarsvæðinu. Þessi áhrif voru þó verulega vanmetin. Flóðið í janúar gekk langt út í höfnina langleiðina að A-línunni eins og hún er í hættumatinu frá 2004. Líkanreikningar nú sýna að þétti kjarni stærri flóða getur farið yfir höfnina, gengið á land og farið um eða yfir 250 lengra en þau hefðu farið án varnargarðsins. Í drögum að endurskoðuðu hættumati er höfnin öll á C-svæði og nokkur hús neðan hennar. A-línan nær vestur fyrir Hafnarstræti og þar og neðan hafnarinnar eru hús á hættusvæði sem voru ekki á hættusvæði áður en varnargarðurinn undir Skollahvilft var reistur.

Strax í janúar var ljóst að endurskoða þyrfti ofanflóðavarnirnar á Flateyri og er það staðfest með drögum að nýju hættumati. Verkfræðistofan Verkís annast þá vinnu og voru fyrstu niðurstöður kynntar á íbúafundinum með Flateyringum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica