Fréttir
ArcticDem

Nýtt landlíkan fyrir Ísland – ArcticDEM

6.2.2017

Í byrjun september 2015 tilkynnti forseti Bandaríkjanna, þá í opinberri heimsókn sinni til Alaska, að Bandaríkjamenn hygðust gera svokallað landlíkan af öllu yfirborði lands fyrir norðan 60 breiddargráðu norður. Líkanið skyldi unnið út frá gervitunglamyndum þar sem mæld yrði landhæð yfirborðs í reglulegu neti í upplausninni 8 sinnum 8 eða 2 sinnum 2 metrar. Verkefnið skyldi unnið á meðan Bandaríkjamenn færu fyrir Norðurskautsráðinu, myndi vera klárað fyrir apríl 2017 og yrði eitt helsta framlag Bandaríkjamanna til vísindarannsókna á norðurslóðum á þessu tímabili. Frá upphafi var gert ráð fyrir að líkanið yrði öllum aðgengilegt í gegnum netið, almenningi jafnt sem vísindamönnum. Líkanið og verkefnið þar með fengu nafnið ArcticDEM þar sem DEM stendur fyrir digital elevation model. Að vinnu þess koma margir bandarískir aðilar bæði úr opinbera og einkageiranum. Má þar meðal annars nefna NSF , NGA , NASA , USGS , Esri og Digital Globe auk Minnesota Háskóla og í Illinois Háskóla. Ljóst var frá upphafi að Ísland yrði með í þessu verkefni þar sem allt landið liggur fyrir norðan 60° Norður (sjá mynd 1).

ArcticDem

Mynd 1.

Nú um einu og hálfu ári seinna hefur fyrsta opinbera útgáfa líkansins fyrir Ísland litið dagsins ljós og verið opnuð almenningi. Á þeim tíma sem liðið hefur frá upphafi verkefnisins til dagsins í dag hafa Veðurstofa Íslands og Landmælingar Íslands átt gott samstarf við Polar Geospatial Center í Minnesota sem hefur umsjón með smíði líkansins. Vinnan hefur aðallega falist í endurgjöf á tilraunaútgáfur líkansins fyrir Íslands auk þess að veita aðgang að nákvæmustu hæðargögnum sem stofnanirnar hafa yfir að ráða til viðmiðunar og leiðréttingar. 

Eins og áður var nefnt er líkanið unnið út frá gervitunglamyndum. Við vinnslu líkansins eru tvær myndir af sama svæði lagðar saman sem eru þó teknar frá mismunandi sjónarhorni. Með því að beita öflugri myndgreiningu og nýta staðsetningu tunglanna fyrir hvora mynd er þrívítt yfirborð reiknað yfir því svæði sem myndirnar skarast. Slík myndgreining krefst gífurlega öflugs tölvubúnaðar, sérstaklega þegar horft er til landfræðilegs umfangs líkansins og þeirrar nákvæmu upplausnar sem varð fyrir valinu. Megnið af útreikningunum fyrir ArcticDEM líkanið fóru fram með Blue Waters ofurtölvunni í Illinois fylki, en til fróðleiks má geta þess að hún er rúmlega átján sinnum öflugri en ný ofurtölva dönsku veðurstofunnar (DMI) sem hýst er hjá Veðurstofu Íslands á Bústaðavegi.

ArcticDem

Mynd 2.

ArcticDEM líkanið fyrir Ísland sem nú hefur verið sett á netið er afhent í tvenns konar útgáfum. Annars vegar er um að ræða útgáfu þar sem margar svokallaðar ræmur (e. strips) dekka landið margfalt. Hver ræma er þá landlíkan byggt á pari gervitunglamynda sem teknar voru á árunum 2008 til 2015 (mynd 2). Í þessari útgáfu ArcticDEM er fjöldi ræma sem dekka Ísland 572 og flatarmál þeirra frá 1 til 3200 km2. Hins vegar er það svokölluð mósaík útgáfa þar sem öllum landlíkönum úr fyrri útgáfunni hefur verið raðað saman í eitt samfellt líkan og mynda því samfellt yfirborð sem hefur þó af hagkvæmnisástæðum verið klippt niður í reitakerfi til að auðvelda niðurhal (mynd 3).

ArcticDem

Mynd 3.

Þessar tvær útgáfur hafa mismunandi lárétta upplausn, en fyrir þá fyrri er hún 2 sinnum 2 metrar en 5 sinnum 5 metrar fyrir þá seinni. Til fróðleiks má nefna að núverandi landlíkan Landmælingar Íslands sem er einnig opið almenningi hefur upplausnina 10 sinnum 10 metrar. Vonir standa til að ArcticDEM líkanið verði endurútgefið á þessu ári og þá með nýjum tunglmyndum frá árinu 2016. Eins og greina má á mynd 3 vantar ákveðin svæði inn í líkanið s.s. á Tröllaskaga. Mögulega næst að fylla í þessi göt áður en verkefninu lýkur en því verður framhaldið til apríl 2017 eins og áður kom fram.

Ljóst er að hið nýja landlíkan mun nýtast mjög mörgum aðilum hvort sem um er að ræða stofnunum, einkaaðilum eða almenningi. Út frá líkaninu má t.d. teikna hæðarlínur fyrir kortagerð, herma og greina umfang vatns- og snjóflóða eða smíða þrívíða grafík fyrir sýndarveruleika. Flest svið Veðurstofu Íslands nýta sér landlíkön til rannsókna og greininga á ýmsum náttúrufarsþáttum, þar með talið á jöklum, eldfjöllum og ýmsum veðurfarsþáttum.

Nálgast má hinar mismunandi útgáfur ArcticDEM líkansins eftir nokkrum leiðum. Útbúin hefur verið kortavefsjá þar sem skoða má útlínur ákveðinna ræma og reita, smella og hala niður viðkomandi landlíkani. Athugið að velja þarf ArcticDEM flipa í vefsjánni. Einnig er hægt að nálgast ArcticDEM í gegnum FTP þjón (sjá notendaleiðbeiningar neðar).

.Ragnar-Thrastarson---1546_1
Ragnar Heiðar Þrastarson, fagstjóri landfræðilegra upplýsingakerfa.

Nánari upplýsingar um ArcticDEM

ArcticDEM á heimasíðu Polar Geospatial Center

Notendaleiðbeiningar Version 1.3 13. febrúar 2017 (PDF skjal)

Kortavefsjá ArcticDEM

Fréttatilkynning NSF frá því í september

Myllumerki fyrir samfélagsmiðla #Arctic3DAðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica