Fréttir
Árni Snorrason, fyrrverandi forstjóri Veðurstofu Íslands, afhendir Hildigunni „lyklana“ að Veðurstofunni á dögunum.

Nýr forstjóri Veðurstofunnar hefur tekið til starfa

„Veðurstofan á að vera lipur, framsýn og opin stofnun sem veitir þjónustu byggða á sterkum grunni vísinda“

5.6.2024

Nýr forstjóri Veðurstofu Íslands, Hildigunnur H. H. Thorsteinsson hefur tekið til starfa.

Hildigunnur hefur starfað sem tæknistjóri (CTO) hjá jarðhitafyrirtækinu Innargi A/S í Kaupmannahöfn frá árinu 2022.  Áður gegndi hún stöðu framkvæmdastýru rannsókna- og nýsköpunar hjá Orkuveitunni í nær áratug. Fyrr á ferlinum starfaði hún í jarðhita bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum, lengst af í bandaríska orkumálaráðuneytinu við stýringu rannsóknarfjármagns. Hildigunnur hefur m.a. setið í stjórnum Orku náttúrunnar, Carbfix, og Jarðhitafélags Bandaríkjanna. Hún situr nú í stjórn Orkusölunnar.

Hildigunnur er með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og lauk MSc gráðu í Technology and Policy frá Massachusetts Institute of Technology árið 2008.

Það felast alltaf tækifæri í áskorunum

„Veðurstofan á að vera lipur, framsýn og opin stofnun sem veitir þjónustu byggða á sterkum grunni vísinda“, sagði Hildigunnur þegar að hún ávarpaði starfsmenn Veðurstofunnar á dögunum. „Ég ætla okkur að horfa sífellt til framþróunar, hvort heldur sem er í skilvirku innra starfi og góðri menningu, sköpun þekkingar eða í upplýsingamiðlun. Við eigum að vera í fjölbreyttu rannsóknarsamstarfi innan lands og utan því saman erum við sterkari og náum lengra." 

"Náttúran bíður sífellt upp á áskoranir og ég geri mér grein fyrir því að þeim hefur fylgt og mun fylgja mikið álag á starfsmenn. En Veðurstofan byggir á traustum grunni til þess að takast á við þessar áskoranir og til þess að nýta þau tækifæri sem felast alltaf í áskorunum“, sagði Hildigunnur.

IMG_8191

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarsson, ásamt fyrrverandi forstjóra, Árna Snorrasyni og nýjum forstjóra Veðurstofu Íslands, Hildigunni H.H. Thorsteinsson. Embætti forstjóra Veðurstofu Íslands var auglýst í nóvember sl. og sóttu átta um embættið. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipar í embættið til fimm ára í senn. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica