Fréttir
Nýr mælir kominn upp og vakir yfir byggðinni á Flateyri. Til vinstri á mastrinu má sjá bergmálsmælinn. Hægra megin er rafeindabúnaður og leisermælir sem fylgir SM4 mælinum en sjálfur mælirinn er kapal
Önundarfjörður kominn í haustbúning. Nýr mælir kominn upp og vakir yfir byggðinni á Flateyri.

Nýjum snjódýptarmælum komið fyrir í fjallshlíðinni ofan við Flateyri

Hluti af átaki til að bæta vöktun með snjóflóðahættu á svæðinu

7.10.2020

Snjóflóðateymi Veðurstofunnar hefur lokið við uppsetningu á nýjum snjódýptarmælum í fjallshlíðinni ofan við Flateyri. Settir voru upp snjódýptarmælar á tveimur stöðum: Innra-Bæjargili og Miðhryggsgili sem er skammt innan Skollahvilftar.  Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti tvö 6 m löng möstur upp í hlíðarnar. Á hvoru mastri eru tvær gerðir af sjálfvirkum snjódýptarmælum, bergmálsmælir og snjódýptarmælir sem er framleiddur á Ísafirði líkt og möstrin.  

„Við notum meðal annars gögn úr sjálfvirkum snjódýptarmælum við mat á snjóflóðahættu“ segir Harpa Grímsdóttir, hópstjóri Ofanflóðavöktunar á Veðurstofu Íslands. „Mælarnir gera okkur kleift að fylgjast með snjósöfnun í hlíðunum í rauntíma og gera þá viðeigandi ráðstafanir ef við teljum að hætta sé að skapast”, segir Harpa. Annar nýju mælanna er svokallaður SM4 mælir sem þróaður hefur verið hjá fyrirtæki á Ísafirði. „Mælirinn er kapall með hitanemum á 20 cm millibili sem festur er á mastur. Hiti í snjó flöktir mun minna en í andrúmslofti og því er auðvelt að sjá hvaða skynjarar eru grafnir og hverjir eru ofan við snjó og þannig er snjódýptin mæld óbeint“. Gögnin eru send í gegnum GSM símakerfið á 10 mínútna fresti. Einnig er lítill leysimælir tengdur SM4 mælunum.“Það ánægjulegt að geta stuðst við framleiðslu og hugvit úr heimabyggð til þess að fylgjast með náttúrunni.“  Einnig er verið að skoða tilraunauppsetningu á snjóflóðaradar sem nemur snjóflóð þegar þau fara af stað. Kannað yrði hvort slíkur radar gæti aukið öryggi vegfarenda um veginn undir Skollahvilft.


Til vinstri á mastrinu má sjá bergmálsmælinn. Hægra megin er rafeindabúnaður og leysimælir sem fylgir SM4 mælinum en sjálfur mælirinn er kapall sem festur er við mastrið. Bergmálsmælar hafa lengi verið notaðir hér á landi til þess að mæla snjódýpt. Þeir senda frá sér hljóð og mæla endurkastið eða bergmálið og þannig snjódýptina. Það er kostur að hafa fleiri en eina gerð af snjódýptarmælum þar sem mismunandi mælar henta við mismunandi aðstæður.  (Ljósmynd: Veðurstofan/Harpa Grímsdóttir)

Endurskoðun hættumats og úrbætur á varnarvirkjum

Unnið er að endurskoðun hættumats undir varnargörðunum á Flateyri og mögulegum endurbótum á varnarvirkjum. Stuðst er við líkanreikninga þar sem snjóflóðin sem féllu í janúar 2020 eru hermd. Núgildandi hættumat er síðan 2004. Flóðin sem féllu yfir vatnargarðana sl. vetur eru tilefni til endurskoðunar á hættumatinu. Þeirri vinnu mun ljúka á næstu vikum og verður niðurstaðan kynnt íbúum þegar hún liggur fyrir.

Samvinna við heimamenn mikilvæg

Uppsetning mælanna hófst á sunnudag og lauk á mánudag, en þá viðraði vel til verksins. Aðstæður í hlíðunum fyrir ofan Flateyri eru þó erfiðar. Við bættist að hluti starfsmanna Veðurstofunnar lenti í sóttkví og því þurfti að ráða aðstoðarfólk með stuttum fyrirvara til að ljúka verkinu. „Samvinna bæði við Landhelgisgæsluna og svo ekki síst heimamenn er okkur á Veðurstofunni afar mikilvæg og erum við þakklát þeim sem gátu stokkið til og aðstoðað okkur í verkefninu sem þurfti að klárast áður en veturinn skellur á“, segir Harpa. „Það tókst með samstilltu átaki.“


Mæli komið fyrir á öðru mastrinu. Starfsmenn Veðurstofunnar nutu aðstoðar heimamanna við uppsetninguna. Möstrunum var komið fyrir þar sem snjósöfnun er lýsandi fyrir þau upptakasvæði sem verið er að vakta án þess að þau fari á kaf. Það getur því tekið nokkrar tilraunir til þess að staðsetja slík möstur, en í þessu tilfelli var m.a. stuðst við lidarmælingar á snjódýpt til þess að velja stað.   (Ljósmynd: Veðurstofan/Óliver Hilmarsson)


Þó ágætlega hafi viðrað fór uppsetning mælanna fram við krefjandi aðstæður. Það er varla hægt að greina starfsmenn Veðurstofunnar sem eru innan rauða kassans þar sem þeir bíða komu þyrlunnar í hlíðum Miðhryggsgils. Talsverð áskorun fylgir því að mæla snjódýpt nálægt upptakasvæðum snjóflóða með þessum hætti. Koma þarf möstrum tryggilega fyrir í miklum halla þar sem grjóthrun getur valdið skemmdum sem og snjóflóð. Ísing að vetri og snjósig á vorin veldur einnig miklu álagi á möstur og mælitæki. (Ljósmynd: Landhelgisgæslan)


Þyrla Landhelgisgæslunnar flytur annað af tveimur 6 metra háum möstrum upp í hlíðina. (Ljósmynd: Veðurstofan / Harpa Grímsdóttir)Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica