Fréttir
Af Esjunni
Af Þverfellshorni Esjunnar 28. júní 2007 kl. 19:38.

Tíðarfar í júní 2007

- stutt yfirlit

3.7.2007

Nýliðinn júnímánuður var hlýr og þurr víðast hvar á landinu. Hlýjast að tiltölu var á Vestfjörðum þar sem hiti var meir en þremur stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Vegna sífelldra flutninga veðurstöðva er heldur óhægt um samanburð, en mánuðurinn er samt annar eða þriðji hlýjasti júní frá upphafi mælinga á þessum slóðum um aldamótin 1900.

Meðalhiti í Reykjavík var 10,7 stig og er það 1,7 stigum yfir meðallagi. Þetta er fimmti hlýjasti júní í Reykjavík síðastliðin 130 ár, en hlýrra var bæði 2002 og 2003. Júní 2003 var sá hlýjasti.

Á Akureyri var meðalhitinn einnig 10,7 stig og er það 1,6 stigum ofan meðallags. Hlýrra var í júní í fyrra á Akureyri, mun hlýrra varð 1933.

Á Hveravöllum var meðalhitinn 7,7 stig og hefur ekki orðið hærri frá upphafi mælinga þar 1965.

Tiltölulega hlýtt var um land allt og hiti víðast hvar 1 til 2 stig yfir meðallagi, 1,2 stigum ofan þess á Dalatanga, 2,3 stigum á Kirkjubæjarklaustri, 1,5 stigum á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og 2,1 stigi ofan meðallags í Stykkishólmi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 9,9 stig.

Mjög þurrt var á landinu, fádæma þurrt norðaustanlands og hefur aldrei mælst jafnlítil úrkoma í júní á Akureyri og nú, en þar mældist mánaðarúrkoman aðeins 0,4 mm. Í maí 1933 mældist engin úrkoma á Akureyri.

Í Reykjavík var úrkoman nú 25 mm og er það um helmingur meðalúrkomu. Ámóta lítið rigndi í júní 1998 og heldur minna í júní 1997.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 195 og er það 34 stundum yfir meðallagi, langt frá meti.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 217 og er það 40 stundum umfram meðallag, fleiri sólskinsstundir mældust á Akureyri í júní 2001.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 23,0 stig á Egilsstaðaflugvelli þann 9., hæstur hiti á mönnuðum skeytastöðvum var 21,0 stig á Raufarhöfn og á Skjaldþingsstöðum þann 5.

Mest frost mældist á Gagnheiði þann 12., -3,7 stig, en á mönnuðu skeytastöðvunum varð hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum, -0,3 stig aðfaranótt þess 12.

Trausti JónssonAðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica