Fréttir
Af Snæfellsnesi
Lýsuvatn og Þorgeirsfell á Snæfellsnesi.

Tíðarfar í maí 2007

- stutt yfirlit

7.6.2007

Nýliðinn maímánuður var fremur kaldur á landinu. Mjög hlýtt var um land allt fyrstu daga mánaðarins og einnig um mikinn hluta landsins síðustu dagana. Einkum var kalt á tímabilunum 4. til 11. og 19. til 27. og snjóaði þá sums staðar.

Mest snjódýpt mældist í Bolungarvík 21 cm þann 25., en jörð varð alhvít á nokkuð mörgum stöðvum í flestum landshlutum og flekkótt víða. Óvenjulegt er að það gerist sunnanlands svo seint í maí.

Meðalhiti í Reykjavík var 6,0 stig og er það 0,3 stigum undir meðallagi, meðalhiti var lægri í Reykjavík í maí 2005. Á Akureyri var meðalhitinn 4,5 stig og er það 1,0 stigi undir meðallagi, eins og í fyrra og árið 2005. Meðalhiti á Hveravöllum var 0,6 stig og er það í meðallagi og á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 5,9 stig.  

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á Hallormsstað þann 1., 20,7 stig, á mannaðri stöð varð hiti hæstur á Torfum 19,2 stig, einnig þann 1.

Lægsti hiti á landinu mældist þann 22. á Brúarjökli, -13,1°, en lægstur í byggð varð hitinn á Þingvöllum, -8,0 stig þann 14.  

Úrkoma mældist 28 mm í Reykjavík og er það 64% af meðalúrkomu, en 18 mm á Akureyri og er það rétt undir meðallagi. Á Höfn mældist úrkoman aðeins 15 mm sem er með allra minnsta móti á þeim slóðum, en þó varð enn þurrara í maí 2005 þegar úrkoman mældist enn minni í Hornafirði, eða aðeins 6 mm í Akurnesi og  4 mm í Hólum.  

Sólríkt var um landið sunnanvert, sólskinsstundir í Reykjavík mældust 282 og er það um 90 stundir umfram meðallag. Álíka sólríkt var í fyrra og enn sólríkara í maí 2005.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 124 og er það um 50 stundir undir meðallagi.  

 Trausti Jónsson



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica