Fréttir
Opnun  nýs vefs Veðurstofu Íslands
Opnun nýs vefs Veðurstofu Íslands.
1 2
fyrri

Nýr vefur Veðurstofu Íslands

31.5.2007

Veðurstofa Íslands hefur tekið nýjan vef í notkun. Hinn nýi vefur Veðurstofunnar tekur fyrst og fremst mið af auknum kröfum um myndræna framsetningu upplýsinga. Mikil áhersla hefur verið lögð á að vefurinn sé einfaldur og þjáll í notkun. Á vefnum er að finna mikið magn hagnýtra upplýsinga og fróðleiks á öllum fagsviðum Veðurstofunnar sem ekki hefur verið aðgengilegur áður.

Notuð er nýjasta veftækni sem gerir mögulegt að birta mikið magn rauntímaupplýsinga um veður, jarðskjálfta o.fl. á aðgengilegan hátt. Sérstök áhersla er lögð á veðurspár í hárri upplausn, en að þróun og framleiðslu slíkra spáa fyrir Ísland og umhverfi þess hefur verið unnið í nokkur ár í samstarfi Veðurstofunnar og Reiknistofu í veðurfræði með stuðningi Vegagerðarinnar, Flugmálastofnunar, Siglingastofnunar, Rannís o.fl.

Á grundvelli laga um veðurþjónustu, svo og breyttrar stefnu stjórnvalda í aðgengi að opinberum upplýsingum, hefur Veðurstofan sett sér það markmið að sem mest af gagnasöfnum stofnunarinnar, framleiðslu hennar og þjónustu verði á opnum og aðgengilegum vef. Miðar Veðurstofan við að verða í fremstu röð meðal veðurstofa hvað þetta áhrærir.

Endurgerð www.vedur.is er hvergi nærri fulllokið. Ýmsar viðbætur eru ráðgerðar sem bætast munu við vefinn jafnt og þétt á næstunni. Tilraunaútgáfa vefsins verið hefur í kynningu í nokkurn tíma og hefur fjöldi ábendinga og umsagna borist frá notendum. Vill Veðurstofan þakka fyrir jákvæðar móttökur.

Vefurinn hefur verið aðgengisvottaður af Sjá og Öryrkjabandalagi Íslands og er það í samræmi við stefnu stjórnvalda um aðgengi ólíkra hópa, s.s. blindra, sjónskertra og fatlaðra að vefjum opinberra aðila. 

Um verkefnisstjórnun, kröfugreiningu, viðmótshönnun og útfærslu á ýmsum hlutum vefsins sá Helgi Borg verkfræðingur. Um útlitshönnun og vefun sá Hugsmiðjan og byggist vefurinn á Eplica vefumsjónarkerfinu. Fjölmargir starfsmenn Veðurstofunnar komu að  útfærslu vefsins, gerð efnis og framsetningu þess. Eldri vefur stofnunarinnar verður áfram virkur um hríð á slóðinni andvari.vedur.is.

 

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica