Fréttir
Frá Staðarhóli í Aðaldal árið 1961
Hinn 21. október 1961 var veðurstöð sett upp á Staðarhóli í Aðaldal og er myndin tekin við það tækifæri. Hinn 29. apríl 2007 mældist þar mesti hiti í aprílmánuði á mannaðri stöð hérlendis.

Tíðarfar í apríl 2007

- stutt yfirlit

2.5.2007

Tíðarfar var almennt hagstætt í mánuðinum, en hans verður einkum minnst fyrir tvær óvenjulegar hitabylgjur. Sú fyrri varð um landið austanvert í byrjun mánaðarins og komst hiti þann 3. í 21,2 stig í Neskaupstað. Hiti hefur ekki mælst hærri svo snemma árs.

Síðari hitabylgjan gekk yfir mikinn hluta landsins síðustu daga mánaðarins. Landshitamet aprílmánaðar féll þ. 29 (sunnudag) þegar hiti komst í 23,0°C á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi í Öxarfirði og í 21,9°C á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal. Hvoru tveggja er met í sínum stöðvaflokki. Áður hafði hiti á sjálfvirkri stöð orðið hæstur á Hallormsstað 21,4°C þ. 19. apríl 2003, en á mannaðri stöð 21,1°C á Sauðanesi við Þistilfjörð 18. apríl 2003.

Hitamet féllu mjög víða á einstökum veðurstöðvum. Víða var mjög kalt á sumardaginn fyrsta. Þá mældist lægsti hiti mánaðarins, bæði á mannaðri og sjálfvirkri veðurstöð, á Grímsstöðum á Fjöllum -12,3 stig og -21,4 stig á Brúarjökli.

Meðalhiti í Reykjavík var 5,2 stig og er það 2,3 stigum ofan meðallags. Í Reykjavík deilir mánuðurinn 6. og 7. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga (1870) með apríl 2004. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig og er það 3,3 stigum fyrir ofan meðallag. Þetta er fimmti hlýjasti aprílmánuður þar frá upphafi samfelldra mælinga (1882).

Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti 5,5 stig og er það 2,7 stigum ofan meðallags. Á Hveravöllum var meðalhitinn -0,5 stig og er það 2,8 stigum ofan meðallags. Þetta er fjórði hlýjasti apríl sem mælst hefur á Hveravöllum.

Aðeins sjö sólarhringar voru þurrir í Reykjavík í apríl. Þó úrkoma hafi þannig verið mjög þrálát var hún oftast lítil hverju sinni, en mældist alls 65 mm. Það er 12% umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoma alls 44 mm og eru það rúm 50% umfram meðallag. Úrkoma hefur ekki mælst jafnmikil eða meiri í apríl á Akureyri frá 1989. Úrkomudagar á Akureyri voru aðeins 12. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 136 mm, þar af féll nærri þriðjungur á einum degi.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 151 og er það í meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 151 og er það 21 stund umfram meðallag. Fleiri sólskinsstundir mældust í apríl árið 2000.

Hlýjustu aprílmánuðir í Reykjavík frá 1870 (leiðrétt er fyrir flutningum stöðvarinnar um bæinn):

 • 1974 6,3 stig
 • 2003 6,2 stig
 • 1926 6,1 stig
 • 1894 5,7 stig
 • 1955 5,6 stig
 • 2007 5,2 stig
 • 2004 5,2 stig

Árið 1852 var meðalhiti í Reykjavík 6,0 stig og 5,5 stig 1842.

Hlýjustu aprílmánuðir á Akureyri frá 1882 (leiðrétt er fyrir flutningum stöðvarinnar um bæinn):

 • 1974 6,8 stig
 • 2003 5,6 stig
 • 1926 5,3 stig
 • 1938 5,1 stig
 • 2007 4,9 stig

Árið 1852 var meðalhiti á Akureyri 5,3 stig.

Trausti JónssonAðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica