Fréttir
hátt í fjalli, sést niður í þorpið
Úr Traðarhyrnu ofan við Bolungarvík. Jóhann Hannibalsson snjóeftirlitsmaður metur aðstæður.
1 2

Tíðarfar í mars 2007

- stutt yfirlit

2.4.2007

Tíðarfar í mars var fremur órólegt, var þó lengst af hagstætt til landsins, en til sjávarins var gæftalítið og tíðin talin slæm. Samgöngutruflanir á heiðarvegum voru með tíðara móti sökum illviðra, en snjór var með minna móti í lágsveitum miðað við árstíma. Þrálát snjóflóðahætta var norðan til á Vestfjörðum þó snjór væri ekki mikill að magni til.

Þrátt fyrir hlýindi vel yfir meðallagi voru þrír marsmánuðir á síðustu árum hlýrri en þessi (2003, 2004 og 2005). Meðalhiti í Reykjavík mældist 2,2 stig og er það 1,7 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 2,0 stig sem er 3,3 stigum ofan meðallags. Á Hveravöllum var meðalhiti -3,6 stig og er það 2,3 stigum ofan við meðallag. Á Höfn Hornafirði var meðalhitinn 3,1 stig.

Úrkomusamt var í mánuðinum. Í Reykjavík mældist úrkoman 129 mm og er það 57% umfram meðallag og er mesta úrkoma í mars frá árinu 2000, en þá mældist hún 146 mm. Á Akureyri mældist úrkoman 58 mm og er það 35% umfram meðallag. Á Höfn mældist úrkoman í mars 205 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 101 og er það 10 stundum undir meðallagi marsmánaðar. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 51 og er það 26 undir meðallagi. Þetta er minnsta sólskin í mars á Akureyri síðan 1981, en ámóta sólarlítið var þó 1994.

Lægsti hiti á landinu í mars mældist á Kolku nærri Blöndulóni -21,4 stig þ.1., en lægsti hiti í byggð mældist í Möðrudal þ.20., -19,9 stig. Hæsti hiti mældist á Sauðanesvita þ.31., 16,9 stig. Hiti fór í 18,4 stig á Dalatanga síðar um kvöldið þ.31. Það hámark telst til aprílmánaðar í bókum Veðurstofunnar því hámarks- og lágmarkshitamánuðum lýkur kl.18 síðasta dag mánaðar. Þ. 28. mars árið 2000 mældist hiti á Eskifirði 18,8 stig og er það hæsti hiti sem mælst hefur í marsmánuði hér á landi, en á mannaðri stöð hefur hiti orðið hæstur á Sandi í Aðaldal í 27. mars 1948.

Trausti Jónsson





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica