Fréttir
Afhending gæðavottunarskjals
Afhending á viðurkenningarskjali frá Bresku gæðavottunarstofnunni um að flugveðurþjónusta stofnunarinnar uppfylli kröfur alþjóðlega gæðastaðalsins ISO-9001. Á myndinni eru frá vinstri: Árni Kristinsson, fulltrúi BSI á Íslandi, Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, Magnús Jónsson, veðurstofustjóri og Gunnar Guðmundsson frá 7.is.

Veðurstofa Íslands fær alþjóðlega gæðavottun

25.1.2007

Veðurstofa Íslands fékk í dag formlega afhent viðurkenningarskjal frá Bresku gæðavottunarstofnuninni (British Standard Institute, BSI) um að flugveður­þjónusta stofnunarinnar uppfylli kröfur alþjóðlega gæðastaðalsins ISO-9001. Afhenti Árni H. Kristinsson, fulltrúi BSI á Íslandi, Magnúsi Jónssyni veðurstofustjóra skjalið fyrir hönd BSI að viðstaddri Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra
Vottun flugveðurþjónustunnar er upphafið að framkvæmd þeirrar gæðastefnu sem Veðurstofan hefur mótað, þ.e. að reka ISO-vottað gæðastjórnunarkerfi í starfsemi stofnunarinnar. Á sumri komanda verður vottun allrar veðurspáþjónustunnar staðfest og stefnt er að því að önnur starfsemi Veðurstofunnar verði vottuð fyrir árslok 2008.

Í ávarpi sem umhverfisráðherra flutti við þetta tækifæri sagði hún að Ísland hefði veigamiklu hlutverki að gegna varðandi öryggismál fyrir alþjóðlega flugumferð á víðfeðmu svæði á Norður-Atlantshafi. Vottun flugveðurþjónustunnar væru ekki verðlaun fyrir afmarkað verkefni, heldur viðurkenning á daglegu starfi Veðurstofunnar og stöðugri viðleitni við að bæta sig.

Jónína Bjartmarz lét þess jafnframt getið að það væri mikilvægt fyrir Íslendinga að vakta náttúruna vel og skipulega. Gögn sem Veðurstofan hefði safnað áratugum saman varðandi snjóflóð, jarðskjálfta, veðurfar og óson í háloftunum hefðu safnast fyrir í reynslubanka og gagnasöfnum, sem efli skilning á orsakasamhengi náttúrunnar og getu til þess að spá fyrir um framtíðina



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica