Fréttir
Snjórúllur rétt við Kleifarvatn hinn 6. mars síðastliðinn.

Tíðarfar í mars 2016

Stutt yfirlit

1.4.2016

Tíðarfar var hagstætt að mestu; lengst af var hlýtt í veðri – að slepptum fáeinum dögum í upphafi mánaðarins og enda. Nokkuð illviðrasamt var í fáeina daga um miðjan mánuð en tjón varð ekki víða.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 2,7 stig, +2,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 1,2 ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti á Akureyri var 1,0 stig, 2,2 stigum ofan meðaltals 1961 til 1990 og 0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2006-2015
Reykjavík 2,7 2,2 25 146 1,2
Stykkishólmur 2,2 3,0 20 171 1,5
Bolungarvík 1,5 3,2 17 til 18 119 1,8
Grímsey 1,3 3,2 15 143 1,5
Akureyri 1,0 2,2 29 135 0,7
Egilsstaðir 0,5 2,0 20 62 0,7
Dalatangi 2,1 2,0 23 78 0,7
Teigarhorn 2,0 1,6 35 144 0,5
Höfn í Hornafirði 2,4 1,2 0,3
Stórhöfði 3,2 1,5 28 140 0,8
Hveravellir  -3,4 2,6 9 51 1,1
Árnes 1,4 2,1 26 137 1,2

Meðalhiti og vik (°C) í mars 2015

Að tiltölu var hlýjast við norðurströndina og á Vestfjörðum; jákvætt hitavik var mest á Þverfjalli, +2,0 stig, og +1,9 á sjálfvirku stöðinni í Bolungarvík og á Patreksfirði. Kaldast að tiltölu var inn til landsins á Austurlandi. Hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára á aðeins einni stöð, Brú á Jökuldal, þar sem neikvæða vikið var -0,3 stig; næstkaldast að tiltölu var á Eyjabökkum og við Kárahnjúka þar sem hiti var í meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, +4,3 stig, en lægstur á Brúarjökli, -5,5 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -3,7 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -25,3 stig í Svartárkoti þann 30. Mest frost á mannaðri veðurstöð mældist -22,7 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 30.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Siglufirði þann 13., +17,6 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð, 17,3 stig, mældist þann 14. á Sauðanesvita.

Tvö landsdægurlágmarksmet féllu í mánuðinum, þ. 30. mældist frost í Svartárkoti -25,3 stig; gamla metið, -23,4 stig, var sett í Möðrudal 1961. Þann 31. mældist frost við Kárahnjúka -24,4 stig; eldra met dagsins, -22,8 stig, var sett í Grímsey 1881.

Tvö hámarksdægurmet féllu einnig í mánuðinum. Þann 10. mældist 16,6 stiga hiti á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum. Eldra met dagsins, 14,5 stig, var sett á Haugi í Miðfirði 2004. Þann 13. mældist hiti á Siglufirði 17,6 stig og sló út eldra met dagsins, 16,3 stig, sem sett var í Bjarnarey 1998.

Úrkoma

Úrkoma var nærri meðallagi sunnan- og vestanvert en með minna móti norðanlands og austan. Á fáeinum stöðvum austanlands var hún minni en vitað er um í mars síðustu 20 árin eða svo.

Úrkoman í Reykjavík mældist 84,5 mm og er það í meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 23,1 mm og er það rétt rúmur helmingur meðalúrkomu. Þetta er minnsta marsúrkoma á Akureyri síðan 2005 en í fyrra var úrkoman þó aðeins litlu meiri en nú. Í Stykkishólmi mældust 67,2 mm, 94 prósent meðalúrkomu í mars.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 15 í Reykjavík, 1 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 6, sem er 4 færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 85,6 (nákvæmlega sami fjöldi og í febrúar) en 25 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 110,6 sem er 34 fleiri en að meðallagi og hafa þær ekki mælst jafnmargar í mars síðan 1996; þær voru þó nærri því jafnmargar í mars 2005. 

Horft út að Eyjum
""
Landeyjasandur og Vestmannaeyjar hinn 27. mars 2016 (stækkanlegt). Frá vinstri: Elliðaey, Bjarnarey, Heimaey, Suðurey, Álsey, Brandur og efst til hægri grillir í Surtsey. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Vindur

Meðalvindhraði var um 0,3 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og á sjálfvirku stöðvunum var hann 0,7 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára, sá minnsti síðan 2002. Þetta eru mikil viðbrigði frá marsmánuði í fyrra. Austlægar og suðlægar áttir voru ríkjandi.

Þó almennt væri með hægviðrasamara móti í mánuðinum gerði mikil illviðri dagana 12. til 14. samfara því að tvær lægðir gengu til norðurs skammt fyrir vestan land. Í fyrri lægðinni var suðvestanáttin hörðust en sunnanátt í þeirri síðari. Tjón varð mest á Vestfjörðum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1003,0 hPa og er það í meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn á Gufuskálum þann 12., 971,1 hPa, en hæstur 1034,7 hPa á Höfn í Hornafirði þann 16.

Snjór

Snjóþungt var víða um landið norðanvert en snjórinn var orðinn gamall og hreyfðist ekki mikið. Vandræði vegna snjóa voru því lítil. Mun minni snjór var syðra og alhvítir dagar í Reykjavík aðeins tveir, 10 færri en að meðaltali 1971 til 2000; þeir voru þó jafnfáir í mars 2013.

Alhvítir dagar voru 25 á Akureyri, 6 fleiri en í meðalmarsmánuði.

Veturinn 2015 til 2016 (desember til mars)

Veturinn var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið það sem af er öldinni, sérstaklega um landið norðaustanvert. Í langtímasamhengi telst hann þó varla mjög kaldur.

Meðalhiti í Reykjavík var +0,6 stig og er það +0,6 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1961 til 1990, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Veturinn í fyrra (2014 til 2015) var lítillega kaldari. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -1,8 stig og er það -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,6 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta var kaldasti vetur á Akureyri síðan 1999. Í Stykkishólmi var meðalhiti vetrarins +0,1 stig, 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990.

Úrkoma var í meðallagi í Reykjavík, um 30 prósent umfram meðallag á Akureyri og um 18 prósent undir því í Stykkishólmi.

Snjór var meiri en í meðalári. Alhvítir dagar í vetrarmánuðunum fjórum voru 59 í Reykjavík, 6 fleiri en að meðaltali 1971 til 2000 og 107 á Akureyri, 25 fleiri en að meðaltali. Snjómagn var líka talsvert ofan meðallags á báðum stöðum.

Meðalvindhraði var töluvert minni en undanfarna tvo vetur en samt ekki fjarri meðallagi síðustu tíu vetra.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var -4,8 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990, þrýstingur næstu tveggja vetra á undan var þó mun lægri.

Fyrstu þrír mánuðir ársins 2016 (janúar til mars)

Meðalhiti í Reykjavík var +0,8 stig, +0,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 37. til 38. sæti á lista 145 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja -1,7 stig. Það er í meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hefur árið ekki hafist jafnkuldalega á Akureyri síðan 2002 og er hitinn þar í 66. sæti á lista 134 ára.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2016 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í mars 2016, er hægt að sækja eða lesa sem pdf (0,3 Mb)

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica