Fréttir
Vindskafin ský að morgni 15. des. 2015.

Tíðarfar í desember 2015

Stutt yfirlit

4.1.2016

Tíð var fremur rysjótt á landinu, snjór var með meira móti framan af mánuði, úrkoma var almennt vel yfir meðallagi og tvö eftirminnileg illviðri gerði í mánuðinum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var -0,2 stig, í meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti á Akureyri var -2,1 stig, -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik 1961-1990 röð af vik 2005 til 2014
Reykjavík -0,2 0,0 77 145 -0,9
Stykkishólmur -0,3 0,5 79 169 -0,8
Bolungarvík -0,8 0,2 68 118 -0,8
Grímsey 0,4 1,2 46 til 47 142 -0,6
Akureyri -2,1 -0,2 87 135 -1,3
Egilsstaðir -1,7 0,5 30 61 -0,5
Dalatangi 1,7 1,1 27 78 -0,2
Teigarhorn 0,9 1,0 58 143 -0,2
Höfn í Hornafirði 1,5 1,1 -0,4
Stórhöfði 1,8 0,4 67 139 -0,4
Hveravellir vantar
Árnes -1,3 0,4 29 til 30 136 -0,6

Meðalhiti og vik (°C) í september 2015

Að tiltölu var hlýjast við suðausturströndina, þar sem hiti var á fáeinum stöðvum rétt yfir meðallagi síðustu tíu ára, vikið mest í Papey, +0,3 stig. Kaldast var að tiltölu inn til landsins á austanverðu Norðurlandi, stærsta neikvæða vikið, miðað við síðustu tíu ár, var -1,5 stig á Reykjum í Fnjóskadal.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, +2,8 stig, en lægstur í Sandbúðum, -7,6 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -5,8 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -28,0 stig við Kárahnjúka þann 25. og var það jafnframt mesta frost sem mældist á landinu á árinu 2015. Mest frost í byggð mældist í Svartárkoti þann 25., -27,0 stig. Mest frost á mannaðri veðurstöð mældist -20,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 26.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Siglunesi þann 28., 13,1 stig, sama dag mældist hæsti hiti á mannaðri stöð, 11,8 stig á Sauðanesvita.

Úrkoma

Úrkoma var í meira lagi um mestallt land, sérstaklega mikil var hún þó austast á landinu og mældist þar meiri en áður hefur orðið í desembermánuði á nokkrum stöðvum, þar á meðal á Dalatanga þar sem mælt hefur verið allt frá 1938.

Úrkoman í Reykjavík mældist 100,3 mm og er það um 27 prósent umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990, var þó meiri í desember 2014. Á Akureyri mældist úrkoman 102,5 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma – en var þó líka meiri þar í fyrra (2014).

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 15 í Reykjavík, 1 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 14, 3 fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 8,2 og er það 4 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 8 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 0,8 og er það í ríflegu meðallagi.

Hrím
""
Ískristallar á gróðri við Hafravatn í nágrenni Reykjavíkur  hinn 13. desember 2015. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson. (Mikið stækkuð mynd.)

Vindur

Meðalvindhraði var um 0,6 m/s yfir meðallagi, ívið minni en í desember 2014. Austlægar og norðlægar áttir voru ríkjandi lengst af í mánuðinum, suðlægar þó síðustu 5 dagana, 3 daga í upphafi mánaðar, þann 8. og dagana 12. til 15.

Mikil illviði gerði þann 7. til 8. og aftur þann 30. Fyrra veðursins gætti um mestallt land og varð allmikið tjón í mörgum landshlutum, veðrið var víðast hvar af austri og suðaustri. Síðara veðrið varð verst austast á landinu, sérstaklega á sunnanverðum Austfjörðum þar sem skaðar urðu einnig vegna sjávargangs. Þar stóð vindur af suðlægri átt. Stöðvavindhraðamet voru slegin á mjög mörgum stöðvum, sérstaklega í fyrra veðrinu. Einnig varð hvasst víða um land þann 5., en tjón varð þá óverulegt.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 988,6 hPa og er það 12,5 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þótt þetta sé með lægra móti varð meðalþrýstingurinn samt enn lægri í desember fyrir tveimur árum. Lægstur mældist þrýstingurinn á Kirkjubæjarklaustri þann 30., 930,2 hPa. Svo lágur þrýstingur hefur aðeins sárasjaldan mælst á landinu áður, síðast 1989. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1023,5 hPa á Egilsstaðaflugvelli þann 25.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2015 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í desember 2015, er einnig hægt að lesa sem pdf (0,3 Mb)

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica