Fréttir
Spá um stöðu veðrakerfa á N-Atlantshafi 24. des. kl. 18. Lítið er að gerast á kortinu, sérílagi miðað við síðustu vikur. Langt er á milli þrýstilína yfir Íslandi og vindur hægur. Gulir blettir á myndinni tákna að líkur séu á éljum.

Útlit fyrir rólegt jólaveður

23.12.2014

Þegar þetta er skrifað á Þorláksmessu er norðaustanátt smám saman að ganga niður. Útlit er fyrir rólegt veður um jólin sem er eflaust kærkomið fyrir landsmenn eftir mjög órólega tíð það sem af er desember.

Á aðfangadag er búist við hægum vindi á landinu. Horfur eru á éljum N- og A-til, einkum við ströndina. Einnig gætu stöku él stungið sér niður allra syðst. Annars staðar er útlit fyrir bjart veður að mestu og þegar það fer saman við hægan vind getur frostið náð sér á strik og jafnvel orðið um eða yfir 10 stig í innsveitum.

Á jóladag er gert ráð fyrir sunnan 5-10 m/s. Þetta er meinlaus vindur, en þó þannig að það finnst fyrir honum. Útlit er fyrir að snjókomubakki komi inn á vesturhelming landsins þegar kemur fram á daginn og má segja að þetta sé jólasnjórinn á þeim slóðum. Um landið A-vert er búist við hægari vindi og úrkomulausu veðri.

Á annan í jólum er síðan gert ráð fyrir breytilegri átt 3-8 m/s og éljum víða um land, síst þó um landið NA-vert.

skrifað 23. des. kl. 14
af vakthafandi veðurfræðingi



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica