Fréttir
Tungl, ský og skammdegi.

Tíðarfar í nóvember 2014

Stutt yfirlit

12.12.2014

Austlægar áttir voru ríkjandi lengst af í mánuðinum. Kuldakast gerði í fáeina daga í kringum þann 10., en annars var óvenjuhlýtt á landinu öllu og mánuðurinn meðal hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Úrkoma var í meðallagi eða undir því víða um vestanvert landið en suðaustan- og austanlands var úrkomumikið.

Hiti

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík var 5,5°C sem er 4,3 gráðum hlýrra en meðaltal áranna 1961-1990 og 3,2 gráðum yfir meðaltali síðustu 10 ára. Mánuðurinn er þar með í 2. sæti yfir hlýjustu nóvembermánuði frá upphafi samfelldra mælinga en hlýjastur var nóvember 1945, 6,1°C.

Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn 3,4 stig, sem er 3,7 stigum yfir meðalhitanum 1961-1990 og 3,1 stigum yfir meðalhita í nóvember síðustu 10 ár.

stöð meðalh vik 1961-1990 röð af vik 2004-2014
Reykjavík 5,5 4,3 2 144 3,2
Stykkishólmur 4,3 3,4 3 169 2,7
Bolungarvík 3,7 2,9 7 til 8 117 2,8
Grímsey 4,3 3,7 1 140 2,9
Akureyri 3,4 3,7 6 133 3,1
Egilsstaðir 3,9 4,6 3 60 2,2
Dalatangi 5,7 3,9 2 76 3,0
Teigarhorn 5,5 4,1 1 142 3,3
Höfn í Hornafirði
5,8 3,9
Stórhöfði 6,2 3,8 2 138 2,7
Hveravellir  -0,3 4,5 2 50 3,1
Árnes 4,6 4,8 1 134 3,7

Í Grímsey var mánuðurinn hlýjasti nóvember í 141 ár, en þar var mánaðarmeðalhitinn 4,3 °C. Þá var mánuðurinn einnig hlýjasti nóvember á Teigarhorni (5,5°C). Á Dalatanga var meðalhitinn 5,7°C sem er jafnhátt hæsta mánaðarmeðalhita í nóvember til þessa. Mánuðurinn var einnig annar hlýjasti nóvember á Stórhöfða, Hveravöllum og sá hlýjasti í Árnesi.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 7,0 stig en lægstur í Sandbúðum, -1,9 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Svartárkoti, +0,2 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,5 °C á Skrauthólum þann 14. Hæsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist 12,7 stig á Bláfeldi þann 15. Lægsti hiti á landinu mældist -17,7 stig á Brúarjökli þann 4. Lægsti hiti í byggð mældist -14,7 stig á Grímsstöðum á Fjöllum, þann 10. Á mönnuðu stöðinni á sama stað mældist lágmarkið -14,3 stig.

Úrkoma

Óvenjuúrkomusamt var um landið austan- og suðaustanvert. Mest mældist úrkoman á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, 712,7 mm. Það er þó ekki met því enn meira rigndi þar og víðar austanlands í nóvember árið 2002. Mjög þurrt var víða á norðvestanverðu landinu en þó ekki svo að óvenjulegt geti talist.

Úrkoma í Reykjavík mældist 56,9 mm og er það 78 prósent meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 67,4 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 72,5 mm og er það 34 prósent umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 324,8 mm og hefur ekki mælst meiri þar í nóvember. Talsvert meira mældist í Akurnesi í Hornafirði í nóvember 2002 – en þá var ekki mælt á Höfn.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 11 í Reykjavík og er það 2 færra en í meðalári, einnig 11 á Akureyri – en það er í meðallagi.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust einungis 27,9 og er það tæplega 11 klst. minna en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 11,9 og er það 2 stundum minna en í meðalári.

Sólstafir - rökkurskuggar
""
Sólstafir - rökkurskuggar. Myndin er tekin í Urriðaholti hinn 13. nóvember 2014  kl. 10:39 vestur yfir Faxaflóa. Sólin skín gegnum skýjarof, bak við fjöll, rétt neðan sjóndeildarhrings. Fjöll, sem ekki sjást, mynda þá skuggana, sem sýnast verða til að tilefnislausu. Alloft slær skuggunum upp í hvirfilpunkt og jafnvel áfram yfir himinhvolfið allt. Ef skilyrði eru góð sjást þeir sameinast í einum punkti við sjóndeildarhring, beint á móti sólinni. Þá er eins og ljóskastari (andsól) sé þar bakvið fjöllin og beini geislum sínum upp á himininn. Ljósmynd: Erling Ólafsson. Sjá meira í fróðleiksgrein um sólstafi og rökkurskugga.

Snjólag

Alautt var í Reykjavík allan mánuðinn. Að meðaltali 1971 til 2000 er alhvítt 7 daga í nóvember. Nóvember var síðast alveg snjólaus í Reykjavík 2007 og 2008. Alhvítt var 5 daga á Akureyri, það er 11 dögum færra en í meðalnóvember.

Vindhraði og loftþrýstingur

Fyrri hluta mánaðarins voru norðlægar vindáttir lengst af ríkjandi en suðlægar einráðar síðari hluta hans. Átt var að meðaltali austlæg alla daga mánaðarins nema einn. Vindhraði var lítillega yfir meðallagi á landinu í heild.

Stormar voru frekar fátíðir. Síðasta dag mánaðarins hvessti þó rækilega, fyrst af suðaustri en síðan vestsuðvestri. Allvíða varð foktjón, en minniháttar þó í flestum tilvikum.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 998,9 hPa og er það -5,2 hPa undir meðallagi. Lægstur mældist þrýstingurinn á Húsafelli þann 30., 961,7 hPa, en hæstur 1019,8 hPa á Höfn í Hornafirði þann 20.

Haustið (október og nóvember)

Hiti í október var nærri meðallagi víðast hvar á landinu en nóvember sérlega hlýr. Í heild urðu mánuðirnir tveir því hlýir. Hiti í Reykjavík var sá 7. hæsti frá upphafi mælinga og á Akureyri sá 16. hæsti. Úrkoma var 10 prósent undir meðallagi í Reykjavík en 10 prósent yfir því á Akureyri.

Fyrstu 11 mánuðir ársins (janúar til nóvember)

Fyrstu 11 mánuðir ársins hafa verið óvenjuhlýir, í Reykjavík og Stykkishólmi jafnhlýir og þeir hafa hlýjastir orðið áður frá upphafi mælinga. Jafnhlýtt var 2003. Á Akureyri hefur árið til þessa verið 0,1 stigi kaldara en hlýjast hefur orðið til þessa (2003). Í Grímsey, á Teigarhorni og Stórhöfða í Vestmannaeyjum hafa 11 fyrstu mánuðir ársins aldrei verið hlýrri en nú. Mælt hefur verið á stöðvunum þremur frá því fyrir 1880. Á Stórhöfða er hitinn nú 0,1 stigi hærri en hæst hefur áður orðið, í Grímsey 0,3 stigum og 0,5 stigum á Teigarhorni.

Úrkoma hefur mælst 19 prósent meiri en í meðalári í Reykjavík og 50 prósent umfram meðallag á Akureyri. Loftþrýstingur hefur verið lágur, um 3,9 hPa undir meðallagi. Þrýstingur var lítillega lægri fyrstu 11 mánuði ársins 2011.

Skjöl fyrir nóvembermánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2014 (textaskjal).

Þessa grein er einnig hægt sækja eða lesa sem pdf-skjal, Tíðarfar í nóvember 2014 (0,4 Mb)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica