Fréttir
Móða frá eldgosi. Horft í átt að Þórsmörk yfir Markarfljótsaura við Háamúla í Fljótshlíð.

Tíðarfar í október 2014

Stutt yfirlit

4.11.2014

Austlægar og norðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum en veðurlag var lengst af meinlítið. Fremur kalt var að tiltölu í mánuðinum miðað við aðra mánuði ársins. Úrkoma var í meira lagi víða austan- og suðaustanlands en var nærri meðallagi annars staðar. Þó var hún talsvert undir því á stöku stað um landið vestanvert.

Hiti

Meðalhitinn í Reykjavík var 4,3 stig en 2,7 stig á Akureyri, á báðum stöðvum nánast sá sami og í október í fyrra (2013). Í Reykjavík varð hann langkaldstur mánaða ársins að tiltölu og sá eini hingað til með hita undir meðallagi áranna 1961 til 1990, eða 0,2 stigum undir því og 0,3 undir meðallagi októbermánaða síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,7 stig, 0,3 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu hér undir og í viðhengi er meðalhiti á öllum sjálfvirkum stöðvum (sjá tengil neðst).

stöð mhiti vik 1961 til 1990 röð af vik 2004 til 2013
Reykjavík 4,3 -0,2 80 til 81 144 -0,3
Stykkishólmur 3,9 0,0 85 169 -0,1
Bolungarvík 3,5 0,0 57 til 59 117 0,3
Grímsey 4,3 1,3 25 til 26 140 1,1
Akureyri 2,7 -0,3 77 til 78 133 -0,3
Egilsstaðir 3,3 0,2 31 60 -0,2
Dalatangi 5,4 0,9 25 76 0,6
Teigarhorn 5,1 0,6 43 142 0,2
Höfn í Hornafirði 5,3 0,8
Stórhöfði 5,0 -0,1 77 138 -0,4
Hveravellir  -1,7 -0,5 35 50 -0,6
Árnes 3,4 -0,2 69 til 70 134 -0,2

Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur á Garðskagavita og í Surtsey, 6,1 stig, en lægstur í Sandbúðum, -3,1 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -0,6 stig. Sé miðað við síðustu tíu ár var hitinn að tiltölu hæstur í Grímsey, 1,1 stigi yfir meðallagi. Lægstur var hitinn að tiltölu á Laufbala þar sem hann var 1,3 stigum undir meðallagi. Í byggð var kaldast að tiltölu á Hvanneyri þar sem hiti var -0,9 stigum undir meðallagi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,4 stig á Bláfeldi þann 7. Á mönnuðum stöðvum mældist hæsti hiti mánaðarins á sama stað þ. 7, 15,9 stig. Lægstur mældist hitinn -19,3 stig í Svartárkoti þann 30. Á mönnuðum stöðvum mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum -17,7 stig þann 30.

Lágmarkshitinn í Svartárkoti þann 30. er lægsti hiti sem mælst hefur á landinu þann almanaksdag.

Úrkoma

Úrkoma mældist yfir meðallagi víða um landið austanvert en í öðrum landshlutum var hún nærri meðallagi. Þó var hún nokkuð undir því á sumum stöðvum um landið vestanvert.

Í Reykjavík mældist úrkoman 84,1 mm og er það í meðallagi. Í Stykkishólmi mældist úrkoman nú 49,3 mm, um 60 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman 52,4 mm, 90 prósent meðalúrkomu. Á Stórhöfða mældust 102,9 mm og er það aðeins 64 prósent meðalúrkomu í október. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 159,0 mm.  

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 12 daga í Reykjavík, 3 dögum færri en í meðalári. Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 16 daga á Akureyri, 5 dögum fleiri en að meðaltali.

Haustlegt
""
Foss í Fossdalsá í Borgarfirði 4. október 2014. Ljósmynd: Einar Kjartansson.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 105,3 og er það 21,8 stundum umfram meðallag áranna 1961 til 1990 en 4,5 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2006 að sólskinsstundir mældust fleiri í október heldur en í september í Reykjavík. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar aðeins 21,3 og er það 30 stundum undir meðallagi. Þetta er sólarlausasti október á Akureyri síðan 1995.

Snjólag

Alhvítt var tvo morgna í Reykjavík, 1 fleiri en í meðalári. Á Akureyri var alhvítt 9 daga, fjórum dögum fleiri en í meðaloktóber.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði í október var 0,4 m/s undir meðallagi. Veður var ekki sérlega stormasamt; einna hvassast var af austnorðaustri þann 31., af suðri þann 1. og af austsuðaustri þann 6. Norðlægar og austlægar áttir voru ríkjandi lengst af, austlægar 23 daga og norðlægar 24 daga af 31.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 998,1 hPa og er það 4,2 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1024,7 hPa í Bolungarvík þann 11., en lægstur í Grindavík þann 2., 967,3 hPa.

Fyrstu tíu mánuðir ársins 2014

Fyrstu tíu mánuðir ársins 2014 hafa verið óvenjuhlýir og hafa aðeins þrisvar áður verið hlýrri í Reykjavík (2003, 2010 og 1939), sama staða er í Stykkishólmi, Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á Hveravöllum. Á Akureyri hafa mánuðirnir tíu aðeins 1 sinni verið hlýrri en nú (1939) en tvisvar jafnhlýir (2003 og 2004). Aldrei hefur verið jafnhlýtt eða hlýrra en nú í Grímsey, á Dalatanga og á Teigarhorni við Berufjörð.

Í Reykjavík mældist úrkoma fyrstu 10 mánuði ársins 796 mm, nærri því nákvæmlega sú sama og venjulega fellur á einu ári. Þetta er um 22 prósent umfram meðallag, það mesta síðan 2007.

Á Akureyri hefur úrkoma mælst 34 prósent yfir meðallagi og hefur aðeins fjórum sinnum áður mælst meiri fyrstu tíu mánuði ársins heldur en nú, síðast 1995. Úrkoma var þó nærri því jafnmikil og nú fyrstu tíu mánuði ársins 2011. Úrkoman hingað til er nú 4 prósent umfram meðalársúrkomu á Akureyri.

Loftþrýstingur hefur verið lágur þessa tíu mánuði, og hefur aðeins 5 sinnum mælst lægri frá upphafi samfelldra mælinga 1823, síðast 1990.

Skjöl fyrir októbermánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2014 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í október 2014, er einnig hægt sækja eða lesa sem pdf-skjal (0,4 Mb).

Hnökrar í veftækni ollu töf á birtingu tíðarfarsyfirlits í sólarhring (umfram það sem búast mátti við vegna þess hvernig mánaðamótin bar upp á vikudaga í þetta skiptið) og beðist er velvirðingar á því.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica