Fréttir
Herðubreið hinn 5. september 2014.

Tíðarfar í september 2014

Stutt yfirlit

1.10.2014

Tíðarfar í september telst hagstætt og var óvenjuhlýtt, hlýjast að tiltölu norðan- og austanlands þar sem hiti var víða meir en 2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og meir en þremur stigum ofan meðalhita 1961 til 1990. Á Dalatanga er þetta hlýjasti september frá upphafi mælinga 1938 og sá þriðji hlýjasti í Grímsey en þar hefur verið mælt frá 1874. Svalast að tiltölu var á Suðvesturlandi þar sem hiti var þó meir en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Óvenju úrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið en fremur þurrt á Norðausturlandi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 1,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðahita síðustu 10 ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti 2,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 1,5 ofan meðaltals síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 3,6 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 2,3 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu hér undir og í viðhengi er meðalhiti á öllum sjálfvirkum stöðvum (sjá tengil neðst, væntanlegt).

stöð meðalh vik 1961-1990 röð af vik 2004 til 2013
Reykjavík 9,2 1,9 22 144 0,6
Stykkishólmur 9,4 2,7 10 169 1,5
Bolungarvík 9,3 3,1 7 117 2,1
Grímsey 9,7 3,5 3 140 2,1
Akureyri 10,0 3,6 6 133 2,3
Egilsstaðir 9,8 3,6 2 60 2,3
Dalatangi 9,9 3,3 1 76 2,0
Teigarhorn 9,5 2,6 5 142 1,3
Höfn í Hornaf. 9,5 1,8
Stórhöfði 9,3 1,9 14 138 0,8
Hveravellir  4,9 2,5 7 50 1,3
Árnes 8,4 1,6 31 til 32 134 0,7

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Seyðisfirði, 10,4 stig, en lægstur á Brúarjökli, 2,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 7,0 stig. Sé miðað við síðustu tíu ár var hitinn að tiltölu hæstur á Hallormsstaðarhálsi, 2,6 stig yfir meðallagi, í byggð var hann að tiltölu hæstur á Reykjum í Fnjóskadal, 2,5 stig yfir meðallagi. Lægstur var hitinn að tiltölu í Skaftafelli þar sem hitinn var 0,1 stig yfir meðallagi. Á öllum öðrum stöðvum var hiti meir en 0,5 stigum ofan meðallags.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,6 stig á Skjaldþingsstöðum þann 14. Sami hiti mældist á mönnuðu stöðinni á staðnum sama dag. Lægstur mældist hitinn -8,8 stig á Brúarjökli þann 28. Í byggð mældist hitinn lægstur á Brú á Jökuldal -4,9 stig þann 29. Á mönnuðum stöðvum mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum -1,8 stig þann 26.

Úrkoma

Mjög votviðrasamt var um allt sunnan- og vestanvert landið en fremur þurrt sums staðar norðaustanlands.

Í Reykjavík mældist úrkoman 153,0 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma áranna 1961 til 1990 og mesta úrkoma í september frá 2008. Í Stykkishólmi mældist úrkoman nú 70,4 mm sem er 20 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 27,1 mm og er það 69 prósent meðalúrkomu septembermánaðar á árunum 1961 til 1990.

Úrkoman mældist 230,4 mm á Stórhöfða, það er 76 prósent umfram meðallag.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 22 daga í Reykjavík. Það er tíu dögum fleiri en í meðalári og hafa aldrei mælst fleiri í september. Einu sinni hafa þeir verið jafnmargir og nú, það var 1969. Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 6 daga á Akureyri, það er tveimur dögum undir meðallagi.

Skýjum ofar
""
Skemmtilegar skýjamyndir yfir hálendinu 1. september 2014. Sér í norðurhluta Hálslóns neðan skýjanna. Ljósmynd: Pálmi Erlendsson.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 81,5 og er það 43,3 stundum undir meðallagi og það minnsta í september frá 2009. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 80,1 eða 5,3 undir meðallagi og það minnsta í september síðan 2007.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði í september var í rétt tæpu meðallagi. Þrátt fyrir úrkomusamt veður var ekki stormasamt, einna hvassast var af suðvestri þann 12. og af suðaustri þann 29. Suðlægar áttir voru lengst af ríkjandi, 25 daga af 30, en austlægar og vestlægar skiptust nokkuð á.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1006,3 hPa og er það 0,8 hPa yfir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1027,4 hPa á Höfn í Hornafirði þann 13. Þrýstingur varð lægstur í mánuðinum á Stórhöfða þann 25., 968,5 hPa.

Sumarið (júní til september) 2014

Sumarið var óvenjuhlýtt, sérstaklega á landinu norðaustanverðu þar sem það var sums staðar það hlýjasta frá upphafi mælinga. Í Reyjavík er sumarið það sjöunda hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871, á Akureyri það þriðja hlýjasta (mælingar frá 1882), á Teigarhorni (mælingar frá 1873) deilir það hlýjasta sæti frá upphafi með sumrinu 1933. Í Stykkishólmi eru hlýindin í þriðja sæti frá 1846. Í Grímsey er þetta langhlýjasta sumar frá upphafi mælinga 1874. Á Egilsstöðum og á Dalatanga var sumarið einnig það hlýjasta frá upphafi mælinga – en ekki hefur verið mælt jafnlengi á þeim stöðvum og þeim sem nefndar hafa verið. Á Stórhöfða var hitinn í 9. sæti hlýinda og í Árnesi í því 11. Sumarið var í 4. hlýjasta sæti á Hveravöllum (aðeins mælt frá 1965).

Sumarið var mjög úrkomusamt. Í Reykjavík var úrkoman 80 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Þetta er úrkomumesta sumar sem komið hefur í Reykjavík síðan samfelldar úrkomumælingar hófust 1920 og úrkoman er einnig meiri en mest mældist á tímabilinu 1885 til 1907. Úrkoma mældist 20 prósent umfram meðallag í Stykkishólmi, 10 prósent umfram meðallag á Akureyri og á Stórhöfða mældist úrkoman 63 prósent umfram meðallag.

Úrkoma var mjög þrálát suðvestanlands. Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meira voru 62 í Reykjavík, 16 dögum umfram meðallag, og 30 á Akureyri og er það einum degi umfram meðallag.

Sólskinsstundir sumarsins mældust aðeins 501,7 í Reykjavík, 100,5 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 220 færri heldur en að meðaltali síðustu 10 árin. Svo fáar hafa sumarsólskinsstundir ekki mælst í Reykjavík síðan 1984. Á Akureyri mældust sólskinsstundir sumarsins 532,8 og er það 23,2 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 81,2 undir meðallagi síðustu tíu ára. Fara þarf aftur til sumarsins 2003 til að finna færri sumarsólskinsstundir á Akureyri heldur en nú.

Fyrstu níu mánuðir ársins 2014

Fyrstu níu mánuðir ársins 2014 hafa verið óvenjuhlýir og hafa aðeins einu sinni verið hlýrri í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Það var 2003, jafnhlýtt var sömu mánuði árið 2010. Meðalhitinn nú er 7,0 stig sá sami og 2010, en var 7,1 stig 2003. Á Akureyri hafa fyrstu níu mánuðir ársins aldrei mælst hlýrri en nú, samfelldar mælingar hófust 1881. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum er nú jafnhlýtt og hlýjast hefur verið áður (2003). Í Stykkishólmi er hitinn sá þriðji hæsti, hlýrra var 2003 og 2010. Fyrstu níu mánuðir ársins eru þeir hlýjustu frá upphafi mælinga í Grímsey (mælt frá 1874), á Teigarhorni (mælt frá 1873) og á Egilsstöðum. Á Dalatanga er nú jafnhlýtt og hlýjast hefur orðið áður. Mæliraðirnar á tveimur síðasttöldu stöðvunum eru talsvert styttri en á hinum.

Á Akureyri hefur úrkoma mælst 40 prósent yfir meðallagi og hefur aðeins tvisvar áður mælst meiri fyrstu níu mánuði ársins heldur en nú. Það var 1989 og 1946. Úrkoman hingað til hefur nú þegar náð 94 prósentum meðalársúrkomu.

Í Reykjavík var sérlega þurrt í janúar og febrúar og úrkoma var nærri meðallagi í apríl, maí og ágúst. Aftur á móti var úrkoma langt yfir meðallagi í mars, júní, júlí og september. Summa fyrstu níu mánaðanna er um 27 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990, það mesta síðan 2003 og 89 prósent af venjulegri ársúrkomu.

Í Reykjavík hafa sólskinsstundir mælst 108 færri heldur en að meðallagi 1961 til 1990. Sólskinsstundir fyrstu átta mánuði ársins eru nú 197,5 færri heldur en að meðaltali síðustu 10 árin (2004 til 2013) og þær fæstu í sömu mánuðum ársins frá 1992. Á Akureyri eru sólskinsstundir nú 67 færri heldur en að meðaltali 1961 til 1990 og 114 færri en að meðaltali síðustu tíu árin.

Skjöl fyrir septembermánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2014 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í september 2014, er einnig hægt sækja eða lesa sem pdf-skjal.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica