Fréttir
Gígurinn Suðri; virkur 12. sept. en óvirkur 13.

Svipmyndir af vettvangi

Eldstöðin í Holuhrauni

14.9.2014

Sunnudagur 14. september

Gosmökkurinn er frekar lágur og liggur með jörðu. Vindar eru suðlægir, svo að mökkurinn leggst yfir bækistöðvarnar í Dreka. Allir hér yfirgefa svæðið nú í kvöld og sofa í Mývatnssveit í nótt, segir Ármann H.:

Baugur og tvö hans barna eru enn virk. Þó er kraftur í Baugi til muna minni í dag, sunnudag, heldur en í gær, laugardag. Aðeins er um einn verulegan gosstrók að ræða sem nær um 20 til 50 metra yfir gígbarmana. Hugsanlega er þetta skýringin á því hve gosmökkurinn er nú jarðlægur, ef til vill er ekki nægt varmastreymi til að lyfta honum.

Hraun hefur ekki gengið fram við Jökulsá í nótt; hinsvegar hefur það breikkað talsvert (sjá kort). Sá heiti reitur í hrauninu sem næstur er miðju myndar mikið hraun til norðurs út á Flæðurnar. Mæling í dag sýnir að hraunið þakti um 3 km² á tveimur klukkustundum. Hitamyndir sýna hraunið vera um 1100-1150°C.

Baugur og börnin
""
Eldstöðvarnar í Holuhrauni, Baugur og Baugsbörn á sunnudegi. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.
Mökkurinn þreyttur
""
Gosmökkurinn séður frá Dyngjuvatni; hann liggur með jörðu. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.

Laugardagur 13. september

Töluvert hefur dregið úr virkni frá í gær, föstudag. Virkni er nú aðeins á miðjusprungunni, þ.e. Baugur og Baugsbörn eru virk en Suðri er óvirkur. Hraunið hefur farið mun hægar fram en áður, hefur aðeins gengið fram um 50-100 m út í Jökulsá frá því í gærkvöldi (sjá kort). Jaðarinn hefur þó breikkað nokkuð. Skýrsla Ármanns Höskuldssonar, Jarðvísindastofnun:

Frekar vindasamt fram undir hádegi. Upp úr kl. ellefu var farið á gosstöðvar og haldið áfram mælingum. Litlar breytingar voru sjáanlegar. Áin hefur grafið töluvert úr austurbökkum sökum þrenginga af völdum hraunsins. Samkvæmt athugunum var ekki hreyfing á hraunkantinum í Jökulsá nú í eftirmiðdaginn.

Baugur einn
""
Baugur gjósandi og Suðri kólnaður í forgrunni. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.

Suðri var sofnaður er á gosstövar var komið. Aðeins miðhluti sprungu er nú virkur. Baugur í daprara lagi með aðeins þrjá stróka. Mesta hæð þeirra var um 120 m. Fram að þessu hafa allar mælingar hópsins miðað við Flæðurnar sem grunnflöt og því ekki mikill munur á hæð hæstu stróka nú en áður hefur verið. Landmælingasérfræðingur kom í dag og mældi hæð gíga og reyndist Baugur orðinn um 60 m hár miðað við mælipunkt og strókar um 60 m ofan hans, eða um 120 m. Baugsbörn eru enn virk og kraumaði í þeim í allan dag.

Almennt þá hefur dregið verulega úr gosvirkni og allir hrauntaumar dregið úr framrás. Mest var breyting í hraunköntum um 2 km norðaustur af gosstöðvum, en þar voru mæld undan- og yfirskot í hraunköntum. Hraun er þar ullu fram mældust um 1100°C heit og þunnfljótandi. Þessir kantar hafa ekki hreyfst í marga daga og styðja því mælingar á hraunstreymi lengst frá gosstöðvum, þ.e. að hraunkantur lengst frá er farinn að veita viðspyrnu er leiðir til yfirfalls á hraunköntum nær eldstöð. Þetta teljast því merki um dvínandi virkni á gosstöðvunum.

Undir kvöld
""
Gosmökkurinn undir kvöld, horft til suðurs. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.

Föstudagur 12. september

Það var söndugt og hvasst við eldstöðina, föstudaginn 12. september, en lygndi stutta stund um hádegið svo færi gafst til myndatöku. Hér fylgir frásögn Ármanns Höskuldssonar, Jarðvísindastofnun:

Sprunga og bólstrar
""
Allur virki hluti sprungunnar um hádegi 12. september 2014. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.

Hraunið gengur enn fram í farvegi Jökulsár og er nú stríður þröngur áll á milli hrauns og eystri veggjar farvegs. Reglulega verða smáar gufusprengingar við jaðrana en þær eru ekki samfelldar. Hraun gekk fram um sem nemur 600 m á síðasta sólahring. Hraun breiðir enn úr sér til norðurs, ofan farvegs Jökulsár.

Baugur
""
Gígurinn Baugur; hraukurinn t.v. mældist 60+/-10 m yfir jafnsléttunni. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.

Gossprungan er virkust um Suðra og Baug. Baugur dró heldur úr með kveldinu og um kl. 21:00 voru þrír meginstrókar úr gígnum. Í morgun var aftur á móti samfeldur eldveggur í gígnum. Þetta eru merki þrenginga í gosrásinni. Baugsbörn (þrír eða fjórir gígar norður af Baugi) eru með hrauntjarnir sem kraumar í. Suðri hefur aðeins færst í aukana, líklega vegna breyttrar legu á gíg og lækkunar í hrauntjörn. Hraun rennur til suðurs frá Suðra. Breytingar á gígasvæði eru ekki endilega merki þess að farið sé að draga úr hraunstreymi; áður hafa komið fram merki þess að virkni á gígasvæði þverri en síðan eykst hún aftur.

Suðri
""
Gígurinn Suðri, sem veitir hraunstraumi til suðurs. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.

Gosmökkur hefur verið jafn í allan dag, föstudaginn 12. september. Mest gas kemur úr Baugi. Strókar í Baug hafa verið á bilinu 70-120 m á hæð en hann er eini gígurinn sem enn heldur strókavirkni.

Ný spá um dreifingu gass

Veðurstofan vill vekja athygli á því að nú er gerð spá um dreifingu brennisteinsgass. Spána er að finna á flipanum Veður, undir Textaspár, og sem viðvörun á gulum borða í haus vefsins (á öllum síðum).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica